Gjafir fyrir bónda á einum tímapunkti ...
25.1.2019 | 09:57
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Það vakna spurningar um hvað það merkir að vera fjölskylda og á einum tímapunkti segir Nobuyo: Stundum er betra að velja sér fjölskyldu.
Kvikmyndagagnrýni á blaðsíðu 71 í Morgunblaðinu 24.1.2019.
Athugasemd: Hér hefur áður verið agnúast dálítið út í orðið tímapunktur. Enn skal það fullyrt að það er óþarft í flestum þeim tilvikum sem ég hef fundið. Veltum fyrir okkur hvað punktur í tíma þýðir. Er það sekúnda eða eitthvað lengra eða skemmra? Hversu langur getur tímapunktur verið, er hægt að teygja á honum? Getur hann verið einn dagur, vika eða mánuður? Sé orðið svo sveigjanlegt stendur það varla undir nafni.
Í staðinn má nota ýmis orð og orðasambönd eins og eitt skipti, einu sinni, þá, þegar og í þessu tilviki má nota á einum stað í kvikmyndinni.
Ofangreind tilvitnun er frekar illa skrifuð, hefði mátt vanda orðalagið. Byrjun málgreinarinnar er líka óvönduð; það vakna það merkir . Höfundurinn getur greinilega skrifað ágætan texta er smávægilegir gallar eru áberandi.
Tillaga: Í myndinni eru vangaveltur um hvað fjölskylda sé. Í eitt skipti segir Nobuyo: Stundum er betra að velja sér fjölskyldu.
2.
Gjafir fyrir alla bónda!
Fyrirsögn í tölvupósti frá skor.is.
Athugasemd: Já, ég fæ stundum tilboð frá skor.is, ekki skora heldur skór. Þetta er netverslun sem er hluti af stórri verslunarkeðju sem selur margvíslegan skófatnað, til dæmis Ecco skó sem eru alveg ágætir.
Mér snarbrá auðvitað við þennan póst. Höfundur hans virðist ekki kunna að beygja algengt íslenskt orð, bóndi. Síðast þegar ég vissi beygðist það svona í eintölu: bóndi, bónda, bónda, bónda. Í fleirtölu: Bændur, bændur, bændum til bænda (fleirtalan er ekki svona en þetta er samt fyndið: Bóndar, bónda, bóndum, bónda)
Fyrirsögnin á við fleirtölu í þolfalli, því ræður forsetningin.
Höfundurinn gæti verið fullorðinn og haft í huga bóndadaginn, sem er í dag. Hugsanlega er þetta villa sem verður til þegar verið er að prófa sig áfram með fyrirsögn og svo gleymist að klára hana. Slíkt kemur fyrir besta fólk.
Nafnorðasýki er það kallað þegar höfundur texta gleymir að fallbeygja nafnorð og hefur þau í nefnifalli.
Ég velti því fyrir mér hvort höfundurinn hafi ætlað að komast hjá því að nefna bændur í merkingunni búmenn, þeir séu ekki markhópurinn heldur bændur sem eiginmenn (sem vissulega má segja að séu búmenn, ráða fyrir búi sínu, heimilinu).
Hver meðalmaður veit hvernig orðið bóndi fallbeygist skrifað og hann hefði líka getað skrifað: Gjafir fyrir alla á bóndadaginn.
Þetta er nú ekki allt. Pósturinn er alveg kostulegur. Í honum segir:
Í tilefni þess tókum við saman vinsælustu vörurnar akkúrat núna og bjóðum þér á geggjuðum afslætti!
Vinsælustu vörurnar hitta alltaf í mark! - og þær eru hér:
- Klikkaðu hér fyrir bóndann sem fer á skíði, í göngu og fílar almenna útivist
- Klikkaðu hér fyrir bóndann sem sinnir erindum á malbikinu
- Klikkaðu hér fyrir bóndann sem fer á æfingu
Akkúrat hélt ég að væri því sem næst útdautt orð, að minnsta kosti í ritmáli. Í talmáli var það einu sinni svo óskaplega algengt að sá sem var sammála síðasta ræðumanni kinkaði kolli og sagði í skilningsríkum tón; akkúúúrad ... og ekkert meira þann daginn.
Fótboltalýsandi á Stöð2 hefur vandi sig á að kalla allt sem vel er gert í boltanum geggjað; skoruð mörk, sendingar, einleik og annað skemmtilegt. Mörgum þykir hljómurinn í þessu orð ansi geggjaður og töff og er það nú notað í tíma og ótíma, rétt eins og að fyrir nokkru gat svo margt verið brjálað, geðveikt og ekki má gleyma sjúkt. Svona orð fara smám saman í geggjuðu glatkistuna þar sem framliðin orð hvíla, til dæmis spældur, truflaður, skvæsinn, dsísös, kommon og fleiri og fleiri.
Sögnin að klikka er svo sem í lagi en ofnotkun á henni eins og þarna virkar dálítið, tja ... klikkuð að mínu mati.
Tillaga: Gjafir fyrir alla bændur!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.