Engir jarðskjálftar á Hellisheiði

181230 kort jarðskjálfti bÍ frétt í Morgunblaðinu segir að jarðskjálftar hafi orðið í nótt á Hellisheiði. Þetta er rangt. Þeir urðu fyrir sunnan heiðina, raunar sunnan við Skálafell sem oft er kennt við hana.

Á meðfylgjandi loftmynd sem fengin er af map.is eru mörk Hellisheiðar gróflega teiknuð. Sé myndin stækkuð sést þetta enn skýrar.

Á töflu Veðurstofu Íslands um skjálftanna segir til dæmis um stærsta skjálftann sem var 4,4 stig að hann hafi verið „2,5 km SSV af Skálafelli á Hellisheiði“.

Þó svo að þannig sé tekið til orða er algjörlega ljóst að skjálftinn varð ekki á Hellisheiði.

Annar skjálfti varð 2,8 km NNA af Raufarhólshelli sem oft er sagður vera í Þrengslum en er talsvert fyrir sunnan þau. Þar af leiðir að skjálftinn var ekki í Þrengslum og allra síst á Hellisheiði.

Blaðamaður Moggans lætur tilvísunina villa sér sýn. Suður af Skálafelli á Hellisheiði þýðir ekki að skjálftarnir hafi verið á Hellisheiði. Þó Hádegismóar séu gata norðvestan við Rauðavatn þýðir það ekki að hún sé í vatninu ...

Rétt fyrir jól varð mikil jarðskjálftahrina norðaustan við Grindavík, suðvestan í Fagradalsfjalli. Margir skjálftarnir voru stórir, að minnsta kosti einn var 3,2 stig. Fátt var sagt af þessari hrinu í fjölmiðlum. Líklega eins gott því einhverjir blaðamenn kynnu að hafa sagt að jarðskjálftarnir væru í Grindavík.

Landafræðin skiptir öllu máli, ekki aðeins fyrir lesendur dagsins í dag. Síðar meir munu fréttir teljast heimildir um það sem gerðist og þá er illt til þess að hugsa að þær séu ekki áreiðanlegar.


mbl.is 25 eftirskjálftar hafa mælst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Blaðamenn hafa leikið sér að því að segja að Litla kaffistofan sé á Sandskeiði og jafnvel talað um Sandskeiðina. 

Það villti fyrir mörgum 2010 að fólk, sem varð úti á Syðri-Fjallabaksleið var sagt vera á leiðinni að gosinu á Fimmvörðuhálsi sem var í öfuga átt hinum megin við Markarfljót. 

Ómar Ragnarsson, 30.12.2018 kl. 12:10

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Eftir góða göngu um daginn á Útigönguhöfða og upp á Morinsheiði og jafnvel fram á Heiðarhorn, sagðist ágætum manni svo frá eftir að hafa fengið sér í litlu tánna: „Sko, ég gekk á Útigangshöfðann og Heygarðshornið.“ Þetta þótti verulega fyndið. Líklega hefur hann ekið um Sandskeiðina á leiðinni heim.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 30.12.2018 kl. 14:20

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Það er hárrétt að jarðskjálfta varð vart á Hellisheiði og í öllu næsta nágrenni í ca 100 km radíus.  Væntanlega er það villandi  upplýsingar um hvar upptök skjálftans voru, sem þú ert að gagnrýna, Sigurður?

Kolbrún Hilmars, 30.12.2018 kl. 14:58

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæl, Kolbrún. Bestu þakkir fyrir innlitið.

Venjulega er talað um upptök jarðskjálfta þegar þeir verða. Annað er svo hversu víða hans er vart.

Frétt Morgunblaðsins um skjálftana (og raunar fleiri fjölmiðla) fjallar um upptök þeirra, ekkert annað. Skjálftarnir urðu ekki á Hellisheiði þó þeirra kunni að hafa verið vart þar eins og víða á suðvesturhorni landsins.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 30.12.2018 kl. 15:08

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég held nú að þetta sé óþarfa smásmuguháttur hjá þér Sigurður í þessu sambandi. Tilgangur frétta af þessu tagi er ekki að kenna landafræði heldur koma upplýsingum í tengslum við almannavarnir til skila. Almenningur er almennt illa að sér um örnefni á Íslandi þessvegna notast menn við helztu kennileiti eins og Skálafell og Hellisheiði. Fólk tengir við Hellisheiði og þeir sem vita aðeins meira tengja betur við Skálafell.  Er þá ekki tilganginum náð? Þá veit fólk að skjálftinn tengist ekki mögulegum eldsumbrotum í Heklu. Ég bý nú í Þorlákshöfn og fann út upptök skjálftans með því að fara á vef veðurstfofunnar , áður en blaðamaður mbl.is rumskaði. Ég er samt alveg sáttur við orðalagið. Og svo vil ég benda þér á að í hugum flestra eru Þrengslin svæðið frá brún hálendisins að sunnan og norður að þjóðvegi 1.  Raufarhólshellir er innan þess svæðis. Því þetta snýst ekkert um nákvæmni eða landamerki. Þetta snýst um kennileiti.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 30.12.2018 kl. 16:23

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll, Jóhannes, fróðlegt að heyra frá þér. Hins vegar er ég ekki sammála.

Um daginn var slys á brúnni yfir Blautukvísl við Lómagnúp. Á visir.is var sagt að á „sömu slóðum“ hefði orðið annað slys fyrir ári. Þar er átt við rútuslys fyrir vestan Kirkjubæjarklaustur. Rúmlega 40 km eru á milli. Þetta er eins og að segja að það sem gerist við Höfðabakka í Reykjavík sé á sömu slóðum og Hveragerði. Það get ég illa samþykkt.

Landafræði er ekki á að giska eitthvað. Hún er nokkuð nákvæm og hefur orðið enn nákvæmari með gps tækni. Sem betur fer. 

Lausatök blaðamanna á einu sviði geta auðveldlega smitað út frá sér á önnur svið. Hverju eigum við þá að trúa? Voru það píratar sem voru fullir á Klausturbarnum?

Þrengsli heitir skarðið milli Lambahnúks og Stakahnúks. Í daglegu tali er talað um Þrengslaveginn sem er eins og þú lýsir. Engin þrengsli eru fyrir sunnan Þrengsli, þvert á móti. 

Virkjunin við Kolviðarhól er kölluð Hellisheiðarvirkjun, hún er engu að síður vestan við heiðina. Í hausnum á mörgum nær Hellisheiði frá Lækjarbotnum og niður fyrir Kamba. Sandskeið er ekki á heiðinni.

Mér finnst að við eigum að bera virðingu fyrir gömlum kennileitum og örnefnum en ekki „útvatna“ þau eins og stundum er gert í fjölmiðlum.

Óska þér gleðilegs árs og þakkir fyrir að nenna að lesa þessa pistla mína.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 30.12.2018 kl. 16:45

7 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Athugið að gæsalappir er ekki hægt að nota í athugsemdum. Þær verða svona; „halló“. En svona eru þau útlensk: "halló".

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 30.12.2018 kl. 16:47

8 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæll aftur Sigurður. Ég er í raun alveg sammála þér þegar þú segir: að við eigum að bera virðingu fyrir gömlum kennileitum og örnefnum en ekki útvatna þau eins og stundum er gert í fjölmiðlum.

Mér finnst bara fréttin þess eðlis að notast megi við örnefnin á svæðinu eins og lögreglan gerði í sinni tilkynningu. 

Gleðilegt útivistarár!

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 30.12.2018 kl. 18:49

9 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Og gleðilega hátíð.
Mér sýnist þú nota copi pasta þá færði þetta út Mér finnst að við eigum að bera virðingu fyrir gömlum kennileitum og örnefnum en ekki „útvatna“ þau eins og stundum er gert í fjölmiðlum. og þetta Athugið að gæsalappir er ekki hægt að nota í athugsemdum. Þær verða svona; „halló“. En svona eru þau útlensk: "halló".

 Kerfið notar Ctrl p fyrir copy og Ctrl v fyrir pasta.
Kv Sigurjón Vigfússon

 

Rauða Ljónið, 30.12.2018 kl. 19:58

10 Smámynd: Rauða Ljónið

 Kerfið notar Ctrl c fyrir copy og Ctrl v fyrir pasta. Er hið rétta ekki p.

Rauða Ljónið, 30.12.2018 kl. 20:02

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Er ekki aðal-málið, að miklu hrikalegri skjálfti gæti riðið þarna yfir (aðeins rúml. 30 km frá Laugardal í Reykjavík og 23 km frá Elliðavatni)?

Og hvað ef það færi allt í einu að gjósa á þessu svæði? Er þá til einhver viðbragðsáætlun? Hvað ef Suðurlandsvegur um Hellisheiði og/eða Þrengslavegur lokast? Yrði ein akrein um Vesturlandsveg helzta flóttaleiðin fyrir utan flugvélar (hugsanlega), skip og báta?

Jón Valur Jensson, 31.12.2018 kl. 07:17

12 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sigurjón, þú Rauða ljón ... Á mínum Makka er ekkert til sem heitir contról v, sem betur fer. Þakka samt fyrir að reyna að aðstoða mig. Kerfið sem Mogginn notar fyrir bloggið er bara ekki skárra en þetta.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 31.12.2018 kl. 13:08

13 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Jón Valur,

Lítil hætta er á "hrikalegri skjálfta". Árið 1968 varð skjálfti í Bláfjöllum sem mældist um 6 stig. Annar var árið 1929 og var sá 6,3. Mér fróðari menn segja að öllu stærri skjálfta er ekki að vænta á Ísland.

Hins vegar mun jörð halda áfram að skjálfa á Reykjanesi, allt frá Reykjanestá og upp í Hengil og þaðan upp í Langjökul. Langflestir skjálftanna eru vegna hreyfinga á flekaskilum en ekki vegna kviku sem er undanfari eldgoss.

Hægt er að bóka að eldgos verði á Reykjanesi og ég er á þeirri skoðun að áður en það verði munu vísindamenn sjá glögga forboða og geta varað við.

Eldgos á Reykjanesi eru sprungugos. Á annað hundrað gossprungur hafa fundist á þessu svæði. Yfireitt hefur ekki komið mikið hraun úr þessum sprungum en þó eru dæmi um það. Til dæmis rann hraun úr Móhálsadal alla leið til sjávar við Straumsvík og annar straumur suður dalinn og þar til sjávar. Úr Leitum við austanverð Bláfjöll rann fyrir 7000 árum hraun sem náði til sjávar í Elliðaárvogi. Hraunið sem kennt er við kristnitöku á Íslandi rann yfir Leitarhraun á kafla en var óskaplega þykkt og seigfljótandi.

Ég veit ekki til þess að til sé einhver áætlun vegna gosa á Reykjanesi. 

Hér er áhugaverð frétt um eldgos á Reykjanesi http://www.visir.is/g/2018181009296

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 31.12.2018 kl. 13:29

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér, Sigurður, þennan fróðleik.

Jón Valur Jensson, 31.12.2018 kl. 13:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband