Hún sigraði keppnina, aðrir unnu vinnu og tré sem féll í skyndi.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.


1.

„Rakel nálgaðist björg­un­ar­sveit­irn­ar með hug­mynd­ina og síðan þá hafa hlut­irn­ir gerst hratt en Rót­ar­skot­in verða til sölu á flug­elda­sölu­stöðum björg­un­ar­sveit­anna fyr­ir ára­mót og kosta 3990 krón­ur. 

Frétt á mbl.is.    

Athugasemd: Hvað er átt við? Í orðabók segir að sögnin að nálgast merki að koma nærri, sækja og einnig að ná í eitthvað. Með þetta í huga skilst ekki að Rakel hafi nálgast einhvern með hugmynd. Samkvæmt orðanna hljóðan gæti hún hafa smátt og smátt komist í „hæfilega“ fjarlægð og þá annað hvort kallað til björgunarsveitar eða hent henni yfir til hennar.

Nei, þetta gengur ekki upp. Blaðamaðurinn er að öllum líkindum að blanda saman ensku og íslensku. Á ensku gæti þetta verið orðað svona:

Rachel approached the rescue team with the idea …

Ágæti, lesandi. Svona tölum við ekki á íslensku.

En flugeldasölustaðir …? Er þetta orð ekki of langt? Auðveldlega má segja sölustaðir björgunarsveitanna. Það skilst alveg því þær selja yfirleitt ekkert annað en flugelda og álíka varning.

Tillaga: Rakel bar hugmyndina undir björg­un­ar­sveit­irn­ar og síðan hafa hlut­irn­ir gerst hratt. Rót­ar­skot­in verða til sölu á flug­elda­sölu­stöðum björg­un­ar­sveit­anna fyr­ir ára­mót og kosta 3990 krón­ur.

2.

„Svo oft sigraði hún keppnina … 

Fréttatími Stöðvar2 kl. 18:30, 26.12.2018.  

Athugasemd: Ég skrifaði ekki hjá mér hvert var tilefni þessa beygluðu setningar. Tæknilega útilokað er að einhver sigri keppi. Keppni er kappleikur eða mót þar sem fólk etur kappi hvort við annað. 

Geta hús, verslanir eða mannvirki opnað? Nei, þær geta það ekki, ekki frekar en lokað. Mannshöndin þarf að loka húsum, verslunum eða mannvirkjum. Veginum yfir Skeiðarársand er stundum lokað, látum liggja á milli hluti hvers vegna það er gert. 

Tillaga: Svo oft sigraði hún í keppninni.

3.

„Enginn er ánægðari en þessi panda sem rúllaði sér fram og til baka í snjónum. 

Fréttatími Ríkissjónvarpsins kl. 19:00, 26.12.2018.  

Athugasemd: Á skjánum birtist mynd af skjóttu, loðnu dýri sem lokað var inni í dýragarði í höfuðborg Bandaríkjanna. Þulur las ofangreindan texta og þetta allt var svo sætt og fallegt. Þó benti ekkert til að pandan væri ánægðari en einhverjir aðrir, dýr eða menn í rimlabúri.

Þá er það spurningin. Rúllaði pandan sér eða velti hún sér? Fréttamenn af yngri kynslóðinni, þeir sem dingla útidyrabjöllu, fullyrða að bílar klessi á ljósastaur og lúlla tala enn barnamál þó þeir eigi að hafa tekið út eðlilegan málþroska mörgum árum en þeir hófu störf við blaðamennsku. 

Hefur einhver séð hest rúlla sér? Nei, varla. Þeir velta sér.

Tillaga: Pandan velti sér fram og til baka í snjónum ...

4.

„Fyrstu viðbragðsaðilar sem komu á vett­vang bana­slyss við Núpsvötn í gær unnu stór­kost­lega vinnu þrátt fyr­ir erfiðar aðstæður. 

Frétt á mbl.is.   

Athugasemd: Tali viðmælandi blaðamanns slæmt mál má hann ekki sýna lesendum þá óvirðingu að hafa það óbreytt eftir. Honum ber að færa orð annarra til betri vegar.

Ofangreind tilvitnun er hrikalega slæm, enginn vinnur vinnu.

Í sömu frétt er haft eftir sama manni:

Það var lög­regla, einn maður, sem komst fyrst á vett­vang og gerði stór­kost­lega vinnu.

Enn heldur blaðamaðurinn áfram að skemma fréttina, þetta er nánast sama villan og fyrir ofan. Menn vinna frábærlega, starfa af kostgæfni 

Með örlítilli hugsun hefði verið hægt að orða þetta svona:

Starf lögreglumannsins sem kom fyrst á staðinn var ómetanlegt.

Enn og aftur segir í sömu frétt: 

„Þess­ir aðilar fram­kvæma al­veg magnaða vinnu ásamt björg­un­ar­sveit­inni,“ bæt­ir hann við.

Úff ... Varla er ofsögum sagt að bæði blaðamaðurinn og viðmælandi hans eru frekar málvilltir. Mátti ekki segja að þeir sem hjálpuðu þarna til hafi staðið sig afar vel?

Blaðamaðurinn skrifar eins og hann væri að þýða úr ensku:

„He did a great job“.

Sá sem þýðir þetta beint býr til málfræðilegt stórslys. 

Annars velti ég því fyrir mér hvað sé viðbragðsaðili. Er það lögreglan, slökkvilið, sjúkraflutningamenn, vegfarendur eða álfur út úr hól?

Af hverju þarf að kalla einhverja viðbragðsaðila? Má bara ekki segja hverjir það eru í hvert skipti?

Blaðamanni ber að hafa í huga að ekki eru allir góðir sögumenn og ekki tala allir rétt mál. Þess vegna verður hann að leiðrétta málfar þegar þess er þörf. Til þess að geta það verður blaðamaðurinn þó að hafa einhvern skilning á íslensku máli.

Tillaga: Þeir sem komu fyrstir að slysinu við Núpsvötn stóðu sig frábærlega vel þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

5.

„Drumburinn 3000 ára gamall og féll í skyndi. 

Fyrirsögn á ruv.is.  

Athugasemd: Einhvern veginn er ég ekki alveg sáttur við nafnorðið skyndi eins og það er notað í fyrirsögn á afar fróðlegri frétt á vef Ríkisútvarpsins. Mér finnst til dæmis ekki sannfærandi að segja að skriða hafi fallið í skyndi? Betra er að segja að hún hafi fallið hratt og jafnvel fyrirvaralaust.

Í fréttinni er sagt frá trjádrumbi sem fannst undir Breiðamerkurjökli. Viðmælandi í fréttinni segir að jökull hafi „rutt skóginum í burtu“.

Flestir sem til þekkja vita að framrás jökuls er sjaldnast mjög hröð. Hraðinn byggist á farginu sem þrýstir honum áfram og svo á halla lands. Breiðamerkurjökull skreið til dæmis ekki eins hratt fram og Virkisjökull. Sá síðarnefndi fellur bratt niður úr Öræfajökli, gróf sig niður og myndaði mikla jökulruðninga.

Samkvæmt orðabók merkir orðið skyndi „flýtir, skynding, hraði: í s. [sagnorð] án tafar, í snatri“. Hér áður fyrr var skundað á Þingvöll.

Sölvi Sveinsson segir svipað í bók sinni Orðaforði:

Atviksorðið skyndilega er nú einkum notað í merkingunni allt í einu: Skyndilega spratt hún á fætur o.s.frv. En orðið getur líka þýtt snögglega eða hratt þó það sé sjaldgæft í nútímamáli.

Og þarna kviknaði ljós hjá mér. Auðvitað fer best á því að nota lýsingarorðið hratt. Það hefur þann kost að geta tengst við umræðuefnið. Maðurinn hleypur hratt, bílnum er ekið of hratt, flugvélin fer hratt af stað, hesturinn skeiðar hratt, eldflaugin fer hratt framhjá tunglinu og svo framvegis. Varla er hægt að segja að maður, bíl, flugvél, hestur og eldflaug fari jafnhratt vegna þess að hraði er afstæður og miðast við þann eða það sem um er rætt.

Jökull sem skríður fram og fer yfir skóglendi er á allt öðrum hraða en bíll eða eldflaug. Fer þó allt hratt með sínum hætti.

Hins vegar gengur varla upp að segja að tré hafi fallið hratt eða í skyndi, það gerðist varla þannig. Fyrirsögnin þarf að vera meira lýsandi. Vitað er að Breiðamerkurjökull felldi skóginn fyrir 3000 árum og þá er það spurningin hvort jökullinn hafi fellt tréð eða drumbinn. Ég veðja á tréð.

Með tillögunni hér fyrir neðan er ekki tekin afstaða til hraðans en lesandinn skilur það sem liggur í orðanna hljóðan, að skriðjökullinn hafi verið á hreyfingu.

Tillaga: Tréð sem jökullinn felldi fyrir 3000 árum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Pistlar þínir eru nauðsynlegir öllum sem vilja tala gott mál, og málsóðar ættu að lesa og læra!  Takk fyrir og gleðilegt ár.

Guðlaug Hestnes (IP-tala skráð) 29.12.2018 kl. 16:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband