Réttleiki, hlítni og vængur sem var ófær um að sinna hlutverki sínu

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

Nauthólsvegur 1001.

„Eftirlitinu útvistaði hann til verkefnisstjóra á byggingarstað en það fólst meðal annars í því að staðfesta réttleika reikninga frá verktökum. 

Skýrsla Nauthólsvegur 100, um braggamálið, útg. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar, bls. 35.   

Athugasemd: Ég kannast ekki við orðið nafnorðið „réttleika“, það er þó auðskiljanlegt í samhenginu. Orðalagið líkist enskri beitingu orða. Í stað þess að segja frá á eðlilegan hátt er gripið til þess að búa til nafnorð en nafnorðastíll er mjög slæmur fyrir þróun íslenskunnar. 

Miklu betur fer á því að orða seinni hlutann eins og segir í tillögunni hér að neðan.

Þetta kynduga orð, „réttleiki“, er að finna víða í skýrslunni, á blaðsíðum 35 (tvisvar), 36, 59 (tvisvar) 65 og 66. Þetta bendir til þess að höfundur hennar sé nú ekki vanur skrifum. Það kemur berlega í ljós á blaðsíðu 7 er þessi furðulega setning:

Niðurstöður innri endurskoðunar benda eindregið til þess að kostnaðareftirliti hafi verið ábótavant og hlítni við lög, innkaupareglur, starfslýsingar, verkferla, ábyrgð og forsvar hafi ekki verið nægjanleg.

Nafnorðaást höfundarins er ótrúleg. „Hlítni“ er ekki til jafnvel þó það kunni að vera rétt myndað og skiljist þarna. Hins vegar verður við að hafa hugfast að íslenskan styðst framar öllu við sagnorð en til dæmis enskan er elsk að nafnorðum.

Sögnin að hlýða er stundum rituð með ‚ý’. Réttara mun að notaí´. Brekkan sem liggur frá rótum fjalls og upp á brún er yfirleitt kölluð fjallshlíð eða bara hlíð. Svo er einnig með bæjarnafnið Hlíð. Væri hægt að segja að kindin sem sækir í hlíðina sé haldin „hlíðni“? Eða að skíðamenn séu hlíðnir ...?

Hvað á þá að segja? Ég hefði skrifað svona:

Niðurstöður innri endurskoðunar benda eindregið til þess að lögum hafi ekki verið hlítt,  kostnaðareftirliti hafi verið ábótavant, innkaupareglur, starfslýsingar, verkferla, ábyrgð og forsvar hafi ekki verið nægjanleg.

Á sömu blaðsíðu kemur fyrir orðið „misferlisáhætta“. Hér brast mér þolinmæðin. Hver í fjandanum las próförkina?

Tillaga: Eftirlitinu fól hann verkefnisstjóra byggingarinnar, en það felst meðal annars í því fara yfir reikninga og staðfesta að þeir séu réttir.

2.

Þrátt fyrir að vera ekki orðinn þrítugur hefur Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði karlalandsliðsins í fótbolta undanfarin sex ár, verið á hvers manns vörum í um sex ár …“ 

Bókardómur á bls. 44 í Morgunblaðinu 22.12.2018.   

Athugasemd: Nástaða er stílleysa, hún er eins og lús í hári, situr þar og fjölgar sér hýslinum til óþæginda nema hann sætti sig við nit. Svo óskaplega margir sjá hana ekki og þeim er alveg sama. 

Alltaf er auðvelt að komast hjá nástöðu, hið eina sem þarf að gera er annað hvort að skrifa sig framhjá tvítekningunni eða nota önnur orð eins og gert er í tillögunni hér fyrir neðan.

Tillaga: Þrátt fyrir að vera ekki orðinn þrítugur hefur Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði karlalandsliðsins í fótbolta undanfarin sex ár, verið á hvers manns vörum ...  

181224 mbl áskrift3.

Gefðu mánaðar áskr.ift af Morgunblaðinu án endurgjalds og kynntu vinum þínum og vandamönnum það besta í íslenskr.i blaðamennsku.“ 

Auglýsing á bls. 4 í íþróttablaði Morgunblaðsins 24.12.2018.   

Athugasemd: Ég dreg ekkert í efa um að á Morgunblaðinu starfi góðir blaðamenn og víst er að blaðið er afar gott. Auglýsingin sem ofangreind tilvitnun er úr er þó meingölluð, hún er öll útbíuð af svona villum eins og sjá má hér að ofan.

Fyrst er það málfræðin. Ég er áskrifandi Morgunblaðinu, ekki af því. Margir eru ekki vissir á því hvort eigi að nota af eða að í ákveðnum tilvikum.

Í Málvísi, handbók um málfræði handa grunnskólum segir:

að eða af?

Dæmi um hvenær forsetningin að er notuð og hvenær af.

að ástæðulausu, að fyrra bragði, brosa að þessu, dást að barninu, að eigin frumkvæði, gagn er að bókinni, gera að gamni sínu, heiður er að þessu, hlæja að honum, að þessu leyti, að yfirlögðu ráði, uppskrift að laxi, gera það að verkum, vitni að árekstrinum.

af öllu afli, ekki af neinni sérstakri ástæðu, hafa gaman af handbolta, að ganga af honum dauðum, hafa gagn af námskeiðinu, gera eitthvað af sér, af minni hálfu, eiga heiðurinn af þessu, leggja sitt af mörkum, mynd af honum, af ásettu ráði, í tilefni af þessu, af fúsum og frjálsum vilja.

Flestum ber saman um að erfitt er að finna ákveðna reglum um hvenær skuli nota að og hvenær af. Máltilfinningin hjálpar þó en hún myndast einkum við mikinn lestur bóka frá barnæsku. Sé tilfinningin ekki örugg er eiginlega best að lesa ofangreint og leggja á minnið og finna fleiri heimildir.

Víkum þá aftur að tilvitnuninni. Ég er einna helst á því að þessir punktar séu einhvers konar mistök, jafnvel kunna þeir að hafa komið á sjálfvirkan hátt, til dæmis þegar villuleiðréttingaforritið tekur völdin af skrifaranum og hann gleymir að lesa yfir.

Auðvitað er það algjört hneyksli að svona meingölluð auglýsing skuli hafa komist í birtingu. Með illum vilja væri hægt að segja að hún beri ekki gott vitni um fagleg vinnubrögð við útgáfuna. Á móti kemur að svona vitleysur eru afar sjaldgæfar og fagmennskan á Mogganum er miklu, miklu meiri.

Tillaga: Gefðu mánaðar áskrift að Morgunblaðinu án endurgjalds og kynntu vinum þínum og vandamönnum það besta í íslenskri blaðamennsku.

4.

Áreksturinn gerði það að verkum að vængurinn var ófær um að sinna hlutverki sínu, vélin hefði því að líkindum hrapað.“ 

Frétt á dv.is.    

Athugasemd: Þetta er tómt bull. Svona er ekki tekið til orðs, hvorki töluðu máli né rituðu. Hluti af tæki, byggingu eða öðru gegnir að sjálfsögðu ákveðnu hlutverki. Hér væri sagt að vængurinn hafi skemmst og flugvélin hrapað.

Svo eru það orðaklisjurnar; 'gera það að verkum' og 'sinna hlutverki sínu' sem eru algjörlega ónauðsynlegar og hafa engan tilgang annan en að lengja skrifin. Mjög líklegt er að höfundur þessa texta sé útlenskur, hugsanlega finnskur og hafi þýtt greinina með aðstoð Google Translate.

Margt annað má gagnrýna í fréttinni:

Breskir fjölmiðlar greina frá því í kvöld að óvissa ríki um það hvenær flugvöllurinn opnar aftur. 

Þetta er óskiljanlega málalengingar. Miklu betur hefði farið á því að segja að fjölmiðlar hafi fullyrt að óvíst sé hvenær flugvöllurinn verði opnaður á ný. Þess ber að geta að flugvöllurinn opnar ekkert, hann er opnaður. Á þessu tvennu er stór munur.

Eftirfarandi málsgrein er tómt klúður: 

Flugi til og frá flugvellinum var ýmist aflýst eða beint í gærkvöldi þegar tilkynnt var um tvo dróna við flugvöllinn.

Betra hefði verið að orða þetta svona:

Flugumferð var ýmist aflýst eða beint annað í gærkvöldi eftir að sést hafði til tveggja dróna við hann.

Svo er sagt:

Breski herinn hefur verið kallaður út og lögregla hefur leitað á náðir almennings um upplýsingar um þá sem bera ábyrgð á drónunum. 

Hvað þýðir að leita á náðir einhvers? Í malid.is segir að orðið merki náð, , hvíld, vernd, miskunn. Af orðinu er leidd sögnin að náða og lýsingarorðið náðugur. Og hvað skyldi náðhús merkja?

Af þessu leiðir að lögreglan hefur ekki leitað á náðir almenning, hún mun hins vegar hafa sóst eftir upplýsingum frá almenningi.

Vonlaust er að eltast við málfarsvillur í illa skrifaðri grein. Hún er DV einfaldlega til skammar.

Tillaga: Áreksturinn skemmdi vænginn og vélin hefði að öllum líkindum hrapað.

5.

„… hefur sú hugsun sótt á margar Þjóðverja að hópurinn, sem samanstóð af Beate Zschäpe og tveimur körlum Uwe Mundlos og Uwe Böhnhardt, hafi fengið utanaðkomandi aðstoð.“ 

Frétt á dv.is.    

Athugasemd: Undarlegt er að lesa þessa frétt. Orðalagið er barnalegt og að auki er hún fljótfærnislega rituð. Ýmislegt bendir til að blaðamaðurinn hafi ekki lesið yfir skrifin áður en hann birti þau eða, og það sem verra er, hafi ekki skilning á stíl, stafsetningu eða málfari.

Í tilvitnuninni er talað um 'hugsun' og stuttu síðar heitir hugsunin 'spurning'. Þetta bendir ekki til að höfundurinn hafi lesið skrif sín yfir eða gert það gagnrýnislaust.

Strax í næstu málsgrein heldur blaðamaðurinn áfram að klúðra fréttinni:

Í þeim kom aldrei fram hvort NSU hefði notið aðstoðar fleiri.

Hvað á blaðamaðurinn við með þessu? „… notið aðstoðar fleiri.“ Líklega á hann við að NSU hafi notið aðstoðar annarra. Þetta bendir ekki til að blaðamaðurinn sé ekki vel að sér skrifum og hafi ekki góða máltilfinningu. 

Tillaga: … hefur sú sótt á marga Þjóðverja að Beate Zschäpe, Uwe Mundlos og Uwe Böhnhardt, hafi fengið aðstoð annarra.

6.

„Þegar Akihito lætur af störfum í apríl verður hann fyrsti japanski keisarinn til þess að stíga til hliðar sjálfviljugur í nærri tvær heilar aldir. 

Frétt á bls. 8 í Fréttablaðinu 24. desember 2018.    

Athugasemd: Klisjur eru ódauðlegar af því að svo margir skilja ekki uppruna þeirra. Sá sem lætur af störfum hættir. Enska ensku orðasamböndin „step aside“ og „step down“ eru bæði þýdd svo í Macmillan Ditionary á netinu:

to leave an official position or job, especially so that someone else can take your place

Þetta þýðir að einhver hættir í stöðu eða starfi til þess að annar getið tekið við. Orðasambandið að stíga til hliðar er ofnotað og má beinlínis nota sögnina að hætta í staðinn.

Sem sagt, Akihito hættir og er fyrstur keisara sem hættir … Allir sjá að þetta er bölvuð stílleysa sem er afleiðing af hugsanaskorti og gagnrýni á eigin skrif.

Blaðamaðurinn segir að „í nærri tvær heilar aldir“. Fróðlegt væri ef keisarinn væri sá fyrsti sem segir af sér í tvær hálfar aldir. Nei, kæri lesandi, svona er ekki hægt að skrifa. Blaðamenn verða að vanda framsetninguna. Talmál hentar ekki alltaf í rituðu.

Tillaga: Þegar Akihito lætur af störfum í apríl verður hann fyrsti japanski keisarinn sem það gerir sjálfviljugur í nærri tvær aldir.“

7.

„Hundruð fórust í harmleik í Indónesíu. 

Fyrirsögn á bls. 8 í Fréttablaðinu 24. desember 2018.    

Athugasemd: Harmleikur merkir samkvæmt orðabók leikverk sem endar illa, sorgarleikur, hryggilegur atburður eða válegur atburður, oft í náttúrunni. Hugsanleg er hið fyrst nefnda upprunaleg merking orðsins. Síðar kann merkingin að hafa færst yfir í það sem almennt telst afar sorglegt eða hræðilegt.

Ég hefði reynt að komast hjá því að nota orðið harmleikur, og notað þess í stað hamfarir en það merkir mikil umbrot og átök, einkum í náttúrunni.

Vera má að þetta sé spurning um smekk, engu að síður þarf þarf að huga að stíl og tilfinningu fyrir því sem gerðist. Munum að orðalag getur bent til dýpri hugsunar eða meiri þekkingar á málavöxtum heldur en sem nemur yfirborðinu. Blaðamenn þurfa að vera sannfærandi í fréttaskrifum sínum, annars tapast trúverðugleikinn.

Tillaga: Þegar Akihito lætur af störfum í apríl verður hann fyrsti japanski keisarinn í nærri tvær aldir sem gerir slíkt sjálfviljugur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband