Inngangur að klisjunni
25.12.2018 | 02:02
Tvær myndir sem minna ekkert á jólin, ekki á áramótin, ekki á Jesúbarnið, ekki á jólaverslunina og síst af öllu á heimsfrið eða umhverfisvernd og þó.
Hins vegar má segja að jólin geti eiginlega verið á hverjum sunnudegi allt árið um kring, líka á laugardögum og í hvert skipti sem ástæða er til að gera sér dagamun. Góður matur, gott vín, góður félagsskapur er ekki endilega bundinn við jólin enda má halda hátíð án tilefnis, éta, drekka og vera glaðr
Svo er eitt að gera sér dagamun eða gera það sem Ketill raumur lýsir í Vatnsdæla sögu:
En nú vilja ungir menn gerast heimaelskir og sitja við bakelda og kýla vömb sína á miði og mungáti og þverr því karlmennska og harðfengi
Framhaldið er ekki ótengt hugsun minn hér. Til einskis að halda hátíð án þess að hafa farið á fjöllin og haft þau undir. Þá fyrst er tilefni til hátíðar. Af þessu hef ég stundum haft nokkurt gaman og því minnist ég á þetta hér að tilefni þarf til hátíðar án þess að það sé nafn dags eða annað ómerkilegt. Því hef ég á stundum haft ærið tilefni til hátíðar ...
Hér er leitt að tilefni jólanna sem er fjarri því að vera að strjúka verslunarstarfi og fylla pyngju eigenda þeirra sem hafa eignað sér jólin til ábata fyrir sjálfa sig. Þá erum við komin svo víðs fjarri fjallstindinum að ekki tekur nokkru tali. Í dalbotninum er ekki sama útsýni og uppi hversu mikið sem einhverjir vilja telja okkur trú um það.
Því miður er það þannig að það sem einu sinni var svo einkar gott tilefni til hátíðar er nú svo mörgum týnt og tapað og í staðinn er gullkálfurinn strokinn á þeim stað þar sem áður var annað tákn.
Eitt hið fegursta ljóð sem ort hefur verið á íslenska tungu var ort á tólftu öld. Þetta er upphafið:
Heyr, himna smiður,
hvers skáldið biður,
komi mjúk til mín
miskunnin þín.
Og endar þannig:
Set, meyjar mögur,
máls efni fögur,
öll er hjálp af þér,
í hjarta mér.
Um þrjú hundruð árum eftir að Kolbeinn Tumason orti þetta ódauðlega og fagra kvæði settist skáldmæltur prestur við borð, tók fram fjaðurpenna sinn og skrifaði kvæði af stallinum Christi og er þetta úr upphafinu:
Nóttin var sú ágæt ein,
í allri veröldu ljósið skein,
það er nú heimsins þrautar mein
að þekkja hann ei sem bæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
Þegar orðin öðlast vængi með söng og undirspili segjast Íslendingar jafnan að rykkorn hafi komist í auga og bregða upp hönd með eða án vasaklúts því hvarmar hafa vöknað. Enn þann dag í dag hefur ljóð Einars Sigurðssonar, prests í Heydölum þessi áhrif, eru þó liðin tæp fjögur hundruð ár frá andláti hans.
Enn fetum við okkur nær þrjú hundruð ár til vorra tíma. Þá yrkir eitt mikilfenglegasta skáld okkar þetta ljóð, er það þó komið í Vesturheim, en mælir þó á móðurtungu sína:
Því mótmælt hefði hans eigin öld,
að afmælið hans sé í kvöld,
og tengt þann atburð ársins við,
að aftur lengist sólskinið.
Að aftur fer að lengja sólskinið.
Þetta er úr jólakvæði trúleysingjans eftir Stephan G. Stephanson en tæp öld er frá því að hann lést. Snilldarvel ort og héðan í frá lengist dagurinn hratt og aðeins þrír mánuðir eru í jafndægur að vori. Við getum alltaf fagnað lengri sólargangi.
Þannig líður tíminn. Þjóðin á skáld sem hverju sinni lýsa tíðarandanum og ekki er hann sístur hann Ómar Ragnarsson sem yrkir um kórónu landsins:
Seytlar í sál
seiðandi mál:
Fjallanna firð,
friður og kyrrð,
íshvelið hátt,
heiðloftið blátt,
fegurðin ein
eilíf og hrein.
Og erum við þá loksins komin aftur að myndunum mínum tveimur hér fyrir ofan. Þær gætu lýst íshvelinu og heiðloftinu bláa þar sem ríkir fegurðin eins, eilíf og hrein. Þar er auðvitað best að vera fyrir kalla eins og mig sem stundum eru kenndir við fjöllin eða kenndir á fjöllum, man aldrei hvort það er.
Jæja, þetta átti nú bara að vera örstuttur inngangur að klisjunni sem allir þekkja og endurtaka, sumir hugsunarlaust, aðrir með tilfinningu.
Um leið og ég skrifa þetta man ég eftir því sem haft er eftir söguhetjunni í gömlu bókinni sem lesið var upp úr á fundum KFUM í gamla daga en er nú aðeins til brúks á sunnudögum. Þar segir svo fallega:
Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra
Þó tæplega 2000 ár séu frá því að þessi orð voru sögð eiga þó enn við, þau hafa jafnvel aldrei verið mikilvægari. Og hvað sagði ekki Konfúsíus sem var uppi hálfu þúsund árum áður en fyrstu jólin voru haldin:
Leggðu ekki á aðra menn það sem þú vilt ekki að lagt sé á þig
Samhljómurinn er í orðum tveggja manna er ótrúlegur og voru þeir þó algjörlega óskyldir og hvor af sínu ætterni og þúsundir kílómetra á milli. Þetta sannar bara það sem skilja má af því sem sagt er á milli línanna að raddirnar kynslóðanna hafa sömu hugsun þó orðalagið sé doldið misjafnt.
Að þessu mæltu er ekki úr vegi að taka upp klisjuna og óska þér og þínum gleðilegra jóla og farsældar, ekki aðeins á næsta ári heldur öllum þeim sem ókomin eru.
Þetta var nú jólakveðjan mín til vina og ættingja og er hér með send áfram til allra þeirra sem nenna að lesa.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:10 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.