Algleðilegt, maður staðfestur og aðhlynning

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

Leita læknis …

Þótt þau á höfuðbólinu tali um að „seek medical help“ þurfum við hér á hjáleigunni ekki að verða svo hástemmd að „leita læknisfræðilegrar aðstoðar“. Það nægir að leita læknis eða læknishjálpar. Þýðandi má ekki láta frummálið svífa um of á sig. 

Málið á bls. 38 í Morgunblaðinu 15.12.2018.

 

1.

„Fimm hlýjustu ár frá því mælingar hófust hafa öll átt sér stað á þessum áratug … 

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Í nokkuð góðri grein um loftslagsbreytingar á jörðinni er ofangreind tilvitnun. Fimm sinnum er þetta ofnotað orðalag „að eiga sér stað“ en því er alltof oft er þvælt inn í ritað mál í stað þess að nota sögnina að vera.

Höfundurinn hefði mátt lesa greinina yfir og breyta á nokkrum stöðum til hins betra. Sumt orkar tvímælis eins og þetta:

Vísindamenn vara við því að slíkri hlýnun fylgdi hækkun yfirborðs sjávar, …

Mér hefði fundist fara betur á því að segja: Vísindamenn benda á að hlýnuninni fylgi hækkun yfirborðs sjávar … og svo framvegis. Viðvörunin er innifalin í orðunum.

Blaðamaðurinn notar orðið vefengja í stað véfengja. Það er gott enda segir í malid.is:

Bæði hefur tíðkast að rita véfengja og vefengja en mælt er með síðari rithættinum skv. uppruna orðsins.

Ég hef hins vegar vanist því að véfengja svo ótalmargt og þarf líklega að breyta rithættinum.

Tillaga: Fimm hlýjustu ár frá því mælingar hófust voru öll á þessum áratug …

2.

„Tilefnið var þó ekki algleðilegt 

Frétt í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins 16.12.2018.   

Athugasemd: Því miður gleymdi ég að skrifa hjá mér um hvað fréttin fjallaði. Það er þó ekki höfuðatriðið. Hef aldrei heyrt orðið áður. 

Veit ekki heldur til þess að til sé orðið „hálfgleðilegt“ né heldur „vangleðilegt“. Hins vegar kann sumum að þykja málfræði hálfleiðinleg og athugasemdir á borð við þessa jafnvel „alleiðinlegar“. Þó mun enginn telja málfræði „hálfskemmtilega og varla „alskemmtilega“ … Hér er nú án efa komið fullmikið af hinu góða. Eða ætti ég að segja „fullgott“ eða „vangott“?

Svona má nú skemmta skrattanum með því að snúa út úr eða kroppa í orð. Rýr orðaforði er vandamál sem einna helst hrjáir hrjáir yngri kynslóðir. Við sem eldri erum gleymdum að kenna þeim að lesa bækur.

Tillaga: Tilefni var þó ekki eintóm gleði …

3.

„Börn sendi nektarmyndir á lokaða hópa á Snapchat. 

Fyrirsögn á visir.is.   

Athugasemd: Þessi fyrirsögn er út í hött. Hún er höfð í viðtengingarhætti sem gengur ekki upp jafnvel þó hún geti verið réttlætanleg. Í fréttinni segir:

Dæmi eru um að börn allt niður í tólf ára taki þátt í leik þar sem þau eru mönuð til að senda af sér nektarmyndir á lokaða hópa á samskiptaforritinu Snapchat. 

Eftir að hafa lesið fréttina má skilja fyrirsögnina á þann veg að hún segi frá því að börn sendi nektarmyndir. Fyllri frásögn er að þau senda myndirnar.

Tillaga: Börn senda nektarmyndir í lokuðum hópum á Snapchat.

4.

„Ole Gunn­ar Solskjær var í dag staðfest­ur sem næsti knatt­spyrn­u­stjóri enska úr­vals­deild­arliðsins Manchester United. 

Frétt á mbl.is.   

Athugasemd: Skyldi vera jafnsárt að vera staðfestur og krossfestur? Veit að sá sem er staðfastur er fastur fyrir, stöðugur, óhvikull. Þetta eru því ólík orð.

Sögnin staðfesta er til og í málid.is segir eftirfarandi:

segja að e-ð sé rétt, segja að e-u sé svona háttað

hún staðfesti að þetta væri sannleikanum samkvæmt

þetta staðfestir grun yfirvalda um fjársvik

Í tilvitnuninni hér í upphafi er staðfestur lýsingarorð og merkir svipað og sögnin staðfesta. Ekkert að þessu orðavali sem slíku.

Hins vegar er tilvitnunin algjör steypa vegna þess að því fer fjarri að svona sé talað.

Miklu betra hefði verið að blaðamaðurinn hefði hugað að stíl. Jónas Kristjánsson (1940-2018), fyrrum ritstjóri, segir á vef sínum:

Texti er hafður einfaldur til að verða spennandi. Fréttatexti á að vera stuttur, skýr og spennandi. Stuttur texti er skýr. Skýr texti er spennandi. Fréttastíll er bestur stuttaralegur. Þú þarft að vera góður í íslensku og skilja málfræði og setningafræði.

Mikið óskaplega væri nú gaman ef blaðamenn hefðu ráð Jónasar í huga. Þau eru svo einföld og auðskiljanleg.

Tillaga: Í dag var staðfest að Ole Gunn­ar Solskjær verður næsti knatt­spyrn­u­stjóri enska úr­vals­deild­arliðsins Manchester United.

5.

„Tveir voru fluttir til aðhlynningar á sjúkrahúsi eftir alvarlegt umferðaslys …“ 

Frétt Ríkisútvarpinu 19.12.2018.   

Athugasemd: Sá sem fær aðhlynningu getur varla verið alvarlega slasaður, það liggur í orðanna hljóðan. Eflaust má færa rök fyrir því að aðhlynning sé þegar meðhöndlunin er skurðaðgerð, rannsóknir, blóðgjöf, viðgerð á brotnum beinum, meðhöndlun brunasára, hjartaþræðing, líffæraskipti og álíka læknismeðferðir. 

Verður ekki að vera eitthvað samhengi í fréttunum? Í æsku minni skar ég mig í fingur og fékk aðhlynningu heima, plástur á bágtið. Mér finnst aðhlynning vera minni háttar umönnun.

Slysið reyndist mjög alvarlegt eftir því sem að ítarlegri fréttir bárust. 

Tillaga: Tveir voru fluttir á sjúkrahús eftir alvarlegt umferðarslys …

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband