Vinna unnin, slegnar með blautri tusku og undirbúningur eldfjalla
3.12.2018 | 09:44
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
Í netfréttum um helgina sagði að vindasamt hefði verið í miðborginni þangað sem fólk fjölmennti á fullveldishátíð á laugardag. Víkverji kann ekki við þetta undarlega orðskrípi því til eru fyrir góð og hljómmikil orð um þetta sama. Best hefði farið á því að tala um strekking og skítakulda.
Víkverji, bls. 15 í Morgunblaðinu 3.12.2018
Sjá upptalningu um vindasöm orð í lok þessa pistils.
1.
Stjórnarformaður Icelandair: Erum bara að vinna þessa vinnu af heilindum.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Fróðlegt, einhver er að vinna vinnu Svona tvítekning er auðvitað slæm, eflaust sagt í hugsunarleysi, rétt eins og sá sem hljóp hlaup eða stökk stökk.
Verkefni blaðamanns að færa orð viðmælenda sinna í rétt málfræðilegt horf. Til hvers að skrifa mismæli og ambögur orðrétt upp og bera þær á borð fyrir lesendur? Það hefur gjörsamlega engan tilgang.
Tillaga: Stjórnarformaður Icelandair: Erum að vinna af heilindum.
2.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu haldlagði í síðustu viku talsvert magn af verkfærum og fleiri muni er fundust við húsleit.
Innlegg Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á Facebook.
Athugasemd: Hald merkir handfesta eða tak. Að leggja hald á eitthvað er nokkuð vel gegnsætt orðasamband og merkir að kyrrsetja eða taka eitthvað frá. Mörg orðasambönd eru þó skárri.
Sagnorðið haldleggja er afspyrnu ljótt, hluti af stofnanamállýsku sem blaðamenn og lögreglan hefur tekið innilegu ástfóstri við. Þeir halda að við neytendur fjölmiðla skiljum ekki mælt mál nema það sé sem mest uppskrúfað. Af sama toga eru ofnotuð orð og orðasambönd eins og um að ræða, vista í fangageymslu, vettvangur, brotaþoli og fleiri.
Í gamla daga gerði lögreglan þjófstolna muni upptæka og allir skildu hvað hafði gerst. Stundum var sagt að löggan hefði tekið þýfi í sína vörslu og það skildist og gerir ábyggilega enn.
Nú virðast fáar kröfur gerðar til þeirra sem skrifa fyrir hönd lögreglunnar aðrar en þær að kunna að kveikja eða slökkva á tölvu.
Alltaf er ástæða til að hvetja til fjölbreytni, ekki festast í ákveðnu orðalagi þegar skrifa skal um lögregluna. Ekkert eitt er réttara en annað.
Tillaga: Í síðustu viku gerði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þýfi upptækt eftir húsleit.
3.
Ingileif og María slegnar með blautri tusku í Bíó Paradís.
Fyrirsögn á dv.is.
Athugasemd: Afsakið, en þetta er eiginlega vitlausasta fyrirsögn sem dæmi eru um. Nei, nei, þær voru ekki slegnar með blautri tusku, þær urðu ekki fyrir ofbeldi af einu eða neinu tagi Hins vegar urðu þær fyrir miklum áhrifum af heimildarmynd sem þær voru að hofa á í bíóinu, þær voru slegnar en þó ekki barðar.
Sá sem er sleginn getur líka þýtt að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum, áfalli eða álíka. Annar sem er sleginn gæti þó hafa fengið kjaftshögg.
Þegar fólk verður eins og slegið með blautri tusku er átt við að það verði forviða, eitthvað komi á skelfilega á óvart, jafnvel fyrir áfalli vegna einhvers sem það sér. Síst af öllu er átt við einhver hafi verið sleginn með blautri tusku. Þjóðin varð slegin eftir að hafa heyrt ummæli klausturþingmannanna og þau voru sem blaut tuska í andlit kvenna.
Blaðamaðurinn hefur ekki málið á valdi sínu en hefur þó heyrt um ofangreint orðasamband en kann ekki að nota það rétt. Almennt er reglan sú í blaðamennsku að forðast klisjukennd orðasambönd. Jónas Kristjánsson sem raunar var einn af stofnendum DV skrifaði:
Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni. Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
Og hann skrifaði þetta líka:
Góður stíll einkennist af stuttum málsgreinum og -liðum. Af sagnorðum á kostnað nafnorða, lýsingarorða, atviksorða, smáorða og klisjusetninga. Af frumlagi nafnorða og germynd sagnorða. Einkum þó einkennist hann af harðri útstrikun hvers konar truflana.
Blaðamaðurinn sem skrifaði tilvitnunina sem hér er fjallað um um þarf nauðsynlega að lesa sér til á vefnum jonas.is. Hann þyrfti líka að iðka lestur góðra bókmennta í tómstundum sínum og auka þannig orðaforða sinn, vonandi er það ekki of seint.
Tillaga: Ingileif og María urðu fyrir miklum áhrifum á sýningu í Bíó Paradís.
4.
Vaxandi þrýstingur undir Bárðarbungu Hekla, Grímsvötn og Öræfajökull eru einnig að undirbúa gos.
Fyrirsögn á dv.is.
Athugasemd: Eldstöðin er að undirbúa sig fyrir gos, segja jarðfræðingar. Einhvern veginn finnst mér þetta ekki alveg rétt orðað þó ekki sé það beinlínis rangt enda er hér um yfirfærða merkingu. Orðalagið segir fyrir um ákveðinn atburð sem erfitt er að skýra á annan hátt. Þó er ekki rétt að tönglast sífellt á þessu, hér vantar fjölbreytnina.
Með undirbúning er átt við að verið sé að gera ráðstafanir. Til dæmis undirbýr nemandi sig fyrir próf með því að lesa skólabækur. Íþróttamenn undirbúa sig á fjölbreyttan hátt fyrir keppni. Ræðumaður undirbýr sig fyrir fund með því að skrifa ræðuna. Yfirleitt er orðið undirbúningur bundið við sjálfráðan eða ósjálfráðan vilja.
Sjaldnast er talað um að kýr undirbúi sig fyrir mjaltir þó eflaust séu einhver teikn í þá átt. Fuglar búa í haginn fyrir sig og byggja sér hreiður. Hið sama er að segja um mörg dýr, ketti, hunda, refi og svo framvegis. Vanfær kona er ekki að undirbúa sig fyrir fæðingu, náttúrlegur þróun veldur fæðingunni og yfirleitt án íhlutunar móður.
Ekki nokkur maður myndi taka svo til orða að fjall í Hítardal hafi verið að undirbúa gríðarlegt berghlaup þó eftir á séð hafi aðdragandinn verið nokkuð ljós. Náttúran hefur engan sjálfstæðan vilja.
Eldstöð hefur ekki neinn sjálfstæðan vilja. Ýmislegt getur þó bent til að það kunni að eldgos sé í nánd.
Ég hef farið á afar fróðleg námskeið um eldfjöll og jarðskjálfta hjá Páli Einarssyni, jarðeðlisfræðingi, í Endurmenntun Háskóla Íslands og fengið þar að vita hversu ótrúlega vel vísindamenn fylgjast með eldstöðvum. Fróðlegt er til dæmis sú staðreynd að eldstöð rís eftir því sem meira safnast fyrir í kvikuþró undir henni, en ekki nóg með það. Stórt land umhverfis fjallið rís fyrir gos og hnígur að því loknu.
Þetta eru bara vangaveltur og pælingar.
Tillaga: Vaxandi þrýstingur undir Bárðarbungu Hekla, Grímsvötn og Öræfajökull eru einnig í gosham.
5.
Ofstækisfullur faðir lággjaldalíkansins freistar þess að bjarga WOW Air.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Furðuleg orðanotkun blaðamanna á Vísi vekur oft meiri athygli en fréttirnar sjálfar. Ofnagreind fyrirsögn er óskiljanleg. Hvernig á að skilja lýsingarorðið ofstækisfullur og hvað er faðir lággjaldalíkans?
Í fréttinni er ekkert sem skýrir orðavalið eða merkingu þess. Þar er meðal annars þetta:
Honum er lýst sem klókum kaupsýslumanni, hörðum í horn að taka - og ofstækisfullum í viðhorfi sínu til verðlagningar.
Hvað er ofstækisfullt viðhorf til verðlagningar? Hér hefur blaðamaðurinn bersýnilega klúðrað frétt sem hann hefur líklega þýtt úr útlensku máli en áhöld eru um hvort hann skilji það mál eitthvað skár en íslensku.
Tillaga: Ekki hægt að gera tillögu.
Á íslensku eru aðeins 112 orð um vind
Pistill frá því 2016.
Stundum hvarflar að manni að orðaforði margra sem starfa í fjölmiðlum sé ansi rýr. Þetta datt mér í hug þegar ungi veðurfræðingurinn sagði að á landinu væri vindasamt. Þeir eldri hefðu líklega sagt að víða væri hvasst enda fjölmörg orð og orðasambönd til sem lýsa veðri, ekki síst vindasemi.
Raunar eru til á annað hundrað orð sem lýsa vindi. Nefna má þessi:
- aftakaveður
- andblær
- andi
- andvari
- áhlaup
- bál
- bál
- bálviðri
- belgingur
- blástur
- blær
- blæs
- brimleysa
- derringur
- drif
- dúnalogn
- dús
- fellibylur
- fjúk
- fok
- foráttuveður
- galdraveður
- gambur
- garri
- gerringur
- gjóla
- gjóna
- gjóstur
- gol
- gola
- gráð
- gustur
- hrakviðri
- hregg
- hríð
- hroði
- hrök
- hundaveður
- hvassviðri
- hviða
- hvirfilbylur
- hægviðri
- illviðri
- kaldi
- kali
- kári
- kul
- kuldastormur
- kuldastrekkingur
- kylja
- kyrrviðri
- kæla
- lágdeyða
- ljón
- logn
- lægi
- manndrápsveður
- mannskaðaveður
- músarbylur
- nepja
- næðingur
- næpingur
- ofsarok
- ofsaveður
- ofsi
- ofviðri
- ókjör
- óveður
- remba
- rembingur
- rok
- rokstormur
- rumba
- runta
- ræna
- skakviðri
- slagveður
- snarvindur
- snerra
- snerta
- sperra
- sperringur
- stilla
- stormur
- stólparok
- stólpi
- stórastormur
- stórveður
- stórviðri
- strekkingur
- strengur
- streyta
- streytingur
- stroka
- strykur
- súgur
- svak
- svali
- svalr
- sveljandi
- svipur
- tíkargjóla
- túða
- veðrahamur
- veðurofsi
- vindblær
- vindkul
- vindsvali
- vindur
- vonskuveður
- ördeyða
- öskurok
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:51 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.