Á 100 ára fullveldisafmæli fer íslenskunni hratt hnignandi
1.12.2018 | 13:50
Niðurstaðan er þá þessi: Það er vegna skáldskapar og bókmennta sem Ísland er sjálfstætt. Vissulega eru þetta ekki ný tíðindi og kallast oft goðsögn. Þetta er goðsögnin okkar um íslenska menningu, um tilurð íslenskrar menningar, enda tungumálið að sjálfsögðu hornsteinn íslenskrar menningar.
Þannig skrifar Þórarinn Eldjárn í dálkinum Tungutak í Morgunblaði dagsins. Ég er sammála honum þó miklu meira hljóti að hafa komið til. En Þórarinn segir líka þetta:
Þess vegna er það hlutverk okkar sem nú erum á dögum að halda áfram að sanna þessa goðsögn, sjá til þess að hún breytist hvorki í lygi né hálflygi. Það gerum við með því að beita þessu máli, sem okkur var trúað fyrir, alltaf og alstaðar á öllum sviðum samfélagsins, iðka skáldskap og hlúa að bókmenntum og þar með menningu og öðlast á þann hátt dýpri skilning á því hver við erum og viljum vera.
Ég er ekki svartsýnn að eðlisfari en íslenskan á því miður ekki framtíð fyrir sér, jafnvel þó allir rithöfundar, skáld og jafnvel skáldjöfrar leggi sig fram. Íslenska er að verða hitt tungumálið ... Ég skal rökstyðja það hér.
Nýjar kynslóðir lesa ekki bókmenntir á borð við það sem við gerðum sem nú erum komnir fram yfir miðjan aldur svo ekki sé talað um gengnar kynslóðir.
Enskan er við það að bylta íslenskunni. Þetta sést berlega í fjölmiðlum. Nafnorðastíllinn ryðst þar yfir hinn íslenska sagnorðastíl, fjöldi íslenskra orða hafa fengið furðulegar merkingar, orðaröðin er að breytast, stíll er orðinn hroðvirknislegur og óskipulagður.
Margt ungt fólk hefur aldrei ótilneytt lesið bækur eða fjölmiðla. Af því leiðir að orðfátæktin er áberandi í fjölmiðlum, heimasíðum á netinu, skýrslum og jafnvel bókum.
Jafnslæmt er að ferðaþjónustan hefur byrjað á því að þýða íslensk örnefni á ensku og jafnvel nefna staði í náttúru landsins enskum nöfnum.
Lítum síðan á fyrirtækjamenningu þjóðarinnar. Svo virðist vera að þjóðin fyrirverði sig fyrir íslenskuna og noti frekar ensku í heitum verslana, veitingahúsa, framleiðslu- og eignarhaldsfyrirtækja. Tilgangurinn er auðvitað sá að höfða til útlendinga, ferðamanna og fyrirtækjastórvelda í öðrum löndum. Auðvitað er það ekki hægt með íslenskunni. Eða hvað? Koma útlendingar hingað til lands til að skilja íslenska eða enska menningu?
Á aldarminningu fullveldisins og sjötíu og fjögurra ára sjálfstæði er stolt landsmanna á þjóðerni sínu frekar í orði en á borði. Við erum sunnudagsþjóð, aðeins á tyllidögum erum við Íslendingar, þess á milli erum við ísl-ensk eins og svo margir hafa sagt á undan mér.
Ég horfi á yngstu kynslóðirnar og heyri viðhorf þeirra til bóka. Það er ekkert gaman að því að lesa, það er svo erfitt. Miklu meira gaman að stara á símann sinn og njóta léttmetisins sem fæstir skilja vegna þess að það er á ensku.
Hvað í ósköpunum er að gerast hjá þjóðinni. Yfirfærsla þekkingar frá einni kynslóð til annarrar virðist hafa mistekist. Við foreldrar höfum brugðist, skólinn hefur brugðist. Hornsteinn íslenskra menningar sem Þórarinn Eldjárn segir tungumálið vera, er við það að bresta.
Íslensk tunga stefnir í að vera hitt tungumálið, rétt eins og hjá vestur-Íslendingum. Ofmælt er að segja að öllum sé sama en við ofurefli er að etja. Leiðin er mörkuð.
Ágæti lesandi, sorry about all this but congratulations on the centenary of sovereignty.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:20 | Facebook
Athugasemdir
Eitt síðasta vígið í skákinni er fallið, - afsakið, runnið út.
Allt tíð hefur það verið sagt að í tímahraki falli menn á tíma.
Þetta hefur verið afar viðeigandi, því að í íslensku glímunni fellur annar glímumaðurinn.
Hann fellir andstæðinginn á klofbragði og hann fellur jafnvel á eigin bragði.
En í síðustu skákinni í heimsmeistaraeinvíginu síðasta var áskorandinn ekki að falla á tíma, heldur að renna út á tíma að sögn fjölmiðla.
Á sama hátt er íslenskan ekki að falla tíma, heldur að renna út á tíma.
Og þá er alveg eins gott að orða þessa ensku hugsun á ensku, chess is running out of time.
Ómar Ragnarsson, 1.12.2018 kl. 21:16
æ,æ, ætlaði að hafa þetta siðasta: "the icelandic language is running out of time.
Ómar Ragnarsson, 1.12.2018 kl. 21:18
Bestu þakkir, Ómar. Ég held að þjóðin sé fallin á tíma. Er ekki best að hafa staðreyndin á ensku svo hún skiljist: We have reached the point of no return.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 1.12.2018 kl. 21:28
Beittasta vopnið
https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2018/11/30/islenskan_er_beittasta_vopnid/
En ekki nógu beitt til að hafa íslenskt nafn á fyrirtækinu...
ls (IP-tala skráð) 1.12.2018 kl. 21:38
"Fallið á tíma.." finnst mér nú í lagi ef horft er til skákklukkunnar. Þar fellurðu sannarlega á tíma. - Fínn pistill Sigurður, að venju.
P.S. Keep on the good work...
Már Elíson, 2.12.2018 kl. 21:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.