Er afsökunin einlæg og fylgir henni iðrun?
29.11.2018 | 15:07
Flestum þykir auðvelt að biðjast afsökunar á ónærgætnum og jafnvel heimskulegum eða ljótum ummælum um aðra. Orð verða sjaldan aftur tekin. Í þankanum situr þó hvort beiðnin hafi verið einlægari en ummælin.
Fólk segir eflaust margt vafasamt í þröngum hópi. Þannig er stundum á kaffistofunni eða þegar félagarnir sem hittast yfir kaffibolla eða bjórglasi. Má vera að hann hafi verið djúpvitur sá sem orðað hugsunina svona:
Segðu aldrei neitt upphátt sem þú getur ekki endurtekið fyrir mömmu þinni.
Vandinn er hins vegar sá að svo ótal margir kjafta frá sér allt vit undir áhrifum áfengis og líkjast þá svokölluðum virkum í athugasemdum sem tvinna saman óhróður um nafnkennda einstaklinga í athugasemdum við fréttir á visir.is, dv.is og fleiri miðlum. Því miður hefur þetta áhrif og skiptir engu þó hundurinn Lúkas sé lifandi.
Flest fólk er kurteist í tali og fasi og sýnir náunganum virðingu. Slíkt kristallast í eftirfarandi setningu sem höfð er eftir góðum manni:
Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu.
Þetta má útleggja þannig að ekkert gott komi frá vondu fólki. Þá skýst þessi spurning upp kolli margra: Hvaða fólk er vont?
Eflaust má halda því fram að fæstir séu alvondir eða algóðir. Flest erum við einhvers staðar á einhverju nöturlegu miðjuróli. Stundum sjáum við eftir orðum eða gerðum og sjaldnast teljum við okkur nógu góð því samanburðurinn við annað fólk er alltaf erfiður.
Þetta allt saman flögraði í gegnum hugann þegar ég frétti af sameiginlegum fundi nokkurra þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins. Getur nokkuð gott komið frá þeim sem tala svona illa um vinnufélaga sína á Alþingi eða bara annað fólk?
Þingmenn eiga ekki að tala eins og virkir í athugsemdum. Þannig á það ekki að vera, þingmenn eiga að vera vandir að virðingu sinni. Dónakjaftar eiga að halda sig annars staðar.
Fréttaflutningur dagsins hefur farið í misjafnlega illa útfærðar afsakanir vegna ummæla og ósanninda. Í sumum tilvikum virðist algjörlega skýrt að einlægni fylgir ekki afsökun.
Í almannatengslum er ein reglan sú að taka á vandamálinu strax, það stækkar og verður verra viðureignar sé því er frestað. Ljóst er að þingmennirnir hafa haft þessa ágætu reglu í huga, svo snöggir voru þeir uppá dekk til að afsaka sig, sumir án einlægni og iðrunar að því er virðist.
Ekki yrði ég hissa þó ein eða tveir sjái sig tilknúna til að segja af sér þingmennsku. Í því væri einlægnin fólgin.
Svo er það allt annað mál og minni háttar í í þessum sambandi hver hleraði og hvers vegna.
Hörmung að horfa upp á | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.