Gangsett viðbrögð, hlaðnir og handhlaðnir veggir og skyndihugdetta
19.11.2018 | 11:01
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Þá settum við mikið viðbragð í gang.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þetta orðalag gengur varla upp. Viðbragð er eitthvað sem ekki er skipulagt fyrirfram, það gerist bara, er ósjálfrátt.
Hins vegar ætti að vera hægt að búa sig undir eitthvað, til dæmis að synda. Þegar syndur maður fellur í vatn bregst hann við á þann hátt að grípa sundtökin. Æfing getur framkallað ákveðið viðbragð.
Oft er talað um rétt viðbrögð, þá eru þau ósjálfráð, hafa þau verið æfð. Maður grípur ósjálfrátt andann eftir að hafa komið úr kafi, það er fyrsta viðbragðið, annað er að synda.
Í fréttinni segir:
Ágúst Leó Sigurðsson, svæðisstjóri björgunarsveita, segir að boð hafi komið frá lögreglu um að 25 manna hópur hefði verið í Reynisfjöru og að einn úr hópnum væri týndur. Þá settum við mikið viðbragð í gang, segir Ágúst.
Björgunarsveitin gekk að ákveðnu skipulagi sem hún hafði undirbúið ef álíka tilfelli kæmu upp.
Vinsælt er nú hjá blaðamönnum að tala um viðbragðsaðila. Þetta er nýtt en getur varla heldur gengið upp því notkun þess getur verið óljós. Hver er viðbragðsaðilinn þegar eldur kemur upp í bíl. Vel getur verið að eigandinn, nágrannar eða vegfarendur hafi slökkt eldinn eða aðstoðað við það. Eru þeir þá viðbragðsaðilar?
Vera má að lögreglan hafi séð um slökkvistarfið líka. Er þá ekki rangt að kalla hana viðbragðsaðila því lesendur eða hlustendur fréttarinnar gætu haldið að þarna hefði slökkvilið kæft eldinn?
Niðurstaðan er því sú að best er að nota heiti þeirra sem koma að málum. Lítill sparnaður er í því að kalla lögreglu, slökkvilið, sjúkraflutningsfólk eða björgunarsveitir einhverju öðru nafni en þau bera. Ekki rugla með þetta.
Hvað gera viðbragðsaðilar þegar maður nokkur setur viðbragð í gang er hann sér heimilisfólk yfirgefa húsið? Eflaust frétta fyrrnefndir viðbragðsaðilar að síðari viðbragðsaðilinn hafi með viðbragði sínu farið óboðinn inn í húsið til að fjarlægja verðmæti.
Einhver stofnaði ísbúð sem heitir Valdís (orðið skiptist svona, Vald-ís en ekki Vald-ís). Brögð eru að því að mörg ísbrögð séu þarna á boðstólum en óvíst hvort hægt sé að fá ís með viðbragði.
Svona er hægt að rugla með málið en til skilnings er best að breyta ekki merkingu orða. Stundum getur það tekist en í mörgum tilfellum bendir misheppnuð tilraun til vanþekkingar.
Svæðisstjórinn segir einnig þetta í fréttinni:
Við ætluðum að einblína á ströndina og leita í fjörunni.
Ekki er ég alveg sáttur við það að björgunarsveitin ætli að stara á ströndina hreyfingarlítið. Vera má að sá sem stjórni drónanum einblíni á skjáinn, hinir, stjórnandinn meðtalinn, einbeita sér að því að leita í fjörunni, það er frá Reynisfjalli og vestur að Dyrhólaey, hún er þrír km á lengd.
Tillaga: Þá unnum við samkvæmt fyrirframgerðu skipulagi.
2.
Það eru eflaust ekki margar mæðgur sem vinna við það hér á landi að hlaða veggi en í Mývatnssveit hafa þó einar slíkar unnið undanfarna mánuði við að koma upp handhlöðnum veggjum upp við hótel við Mývatn.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Hver er munurinn á hlöðnum vegg og handhlöðnum vegg? Fyrri hluti málsgreinarinnar skilst ágætlega, mægður sem hlaða veggi. Í senni hlutanum er veggurinn skyndilega orðinn handhlaðinn. Hvers vegna er þetta með vegginn tvítekið í einni málsgrein? Á mínum blaðamannsferli hefði sá sem sem svona skrifar verið kallaður á teppið.
Auðvitað er þetta tóm vitleysa hjá blaðamanninum. Hann les ekki textann sinn yfir og virðist þar að auki algjörlega gagnrýnislaus á eigin skrif.
Berum saman tilvitnaða textann við þann sem hér er gerð tillaga um. Þá má fljótt sjá að miklu betur er hægt að gera ef einhver hugsun er til staðar.
Tillaga: Eflaust vinna ekki margar konur við að hlaða veggi. Í Mývatnssveit hafa mæðgur unnið að hleðslu við Icelandair hótel.
3.
Í umfjöllun Mail Online er bent á að Albanía sé einn af miðpunktum Evrópu þegar kemur að fíkniefnasmygli.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Svona skrif kallast einfaldlega tuð með óþarfa málalengingum. Margir ungir blaðamenn átta sig ekki á því að með tuði þannig verður frásögn óljós og leiðingleg.
... einn af miðpunktum Evrópu þegar kemur að ...
Svona má bara ekki skrifta. Þetta er þvílík steypa að ekki tekur nokkru tali.
Eftir að hafa skoðað fréttamiðilinn Mail Online er óhætt að gera neðangreinda tillögu.
Tillaga: Í Mail Online er fullyrt að Albanía sé ein af miðstöðvum fíkniefniasmygls í Evrópu.
4.
Fjölskylda talin hafa myrt átta meðlimi annarrar fjölskyldu.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Ekki er þetta gott. Meðlimur er líklegast orðið gilt íslenskt orð en oft fer betur á því að nota önnur. Allir eru hluti af fjölskyldu, auðveldast sleppa öllum málalengingum og segja beinlínis að Jón og Gunna séu í sömu fjölskyldu. Pétur vinur þeirra er í annarri fjölskyldu. Skipsverji er í áhöfn. Sá sem spilar á gítar kann að vera í hljómsveit. Best er að sleppa dönskuslettunni, være medlem af familien ....
Berum svo saman fyrirsögnina hér að ofan og tillöguna hér að neðan. Af því má sá að orðið meðlimur er algjörlega ofaukið.
Tillaga: Myrtu átta manns í annarri fjölskyldu.
5.
Hinn fimmtán ára gamli Gauti Steinþórsson gerði sér lítið fyrir í síðasta mánuði og varð yngsti Íslendingurinn til þess að klífa Island Peak, 6.200 metra háan tind í Himalajafjöllum, eftir skyndihugdettu og ársundirbúning.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hér að ofan er slæmt dæmi um stílbrot í frásögn, mætti jafnvel heita stílleysa. Takið eftir orðasambandinu að gera sér lítið fyrir. Hvað þýðir það? Jú, eflaust að gera eitthvað án mikillar fyrirhafnar.
Síðast í fréttinni segir hins vegar:
Þetta var það erfiðasta sem ég hef gert í lífinu og tók hrikalega á, bæði líkamlega og andlega, segir Gauti.
Drengurinn gerið sér ekki lítið fyrir, með erfiði og þrautseigju tókst honum ætlunarverk sitt.
Annað stílbrot í fréttinni er niðurlagið:
eftir skyndihugdettu og ársundirbúning.
Drengurinn er sagður hafa gengið á fjallið eftir árs undirbúning, tvö orð, ekki eitt.
Þessi tvö orð eiga ekki erindi í sömu setninguna án nánari skýringar, rekast á og rugla. Ekki er nóg að henda inn sennilegum orðum og kalla frásögn.
Hvað er svo skyndihugdetta annað en hugdetta? Hið fyrrnefnda er líklega ekki til. Hvort tveggja verður til á stundinni og sumir láta verða af slíkri dettu, aðrir ekki. Hugdetta má segja að sé hugmynd sem í fyrstu var snjöll en útheimti síðar mikið erfiði.
Lítum á tillöguna hér fyrir neðan. Hún er dálítið ólík enskuskotnu tilvitnuninni (The fifteen years old ... Den femten år gamle ...) Þannig er ekki tekið til orða á íslensku.
Tillaga: Gauti Steinþórsson, fimmtán ára gamall, er yngsti Íslendingurinn til þess að klífa Island Peak, 6.200 metra háan tind í Himalajafjöllum. Hugdettan kostaði hann heilt ár í undirbúning.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:07 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.