Bifreiðamalarbílastæðisplan ... stæði
24.10.2018 | 10:53
Bílaplan sem lagt er möl kallast í frétt á mbl.is malarbílaplan. Skrýtnir menn velta því fyrir sér hvort það sé rangnefni og planið eigi að kallast bílamalarplan. Enn skrýtnari menn myndu kalla fyrirbrigðið bílamalarbílaplan, samanber bílaleigubíll.
Hreintungumenn freistar þá til að hnýta í orðið plan, sem þó er fullgild íslenska, og kalla malarborið bílastæði malarbifreiðastæði eða jafnvel bifreiðamalarstæði.
Virkir í athugasemdum sem yfirleitt eru hvorki skrifandi né hugsandi myndu ábyggilega velja orðið malarplanbílastæði eða bílastæðismalarplan.
Hér má spyrja hvort bílar mali og þá um leið hvort þeir mali plan og hvað skyldi svoleiðis nefnast? Jú, vissulega mala góðir bílar, stundum blíðlega eins og allir bílaáhugamenn vita. Í gamla daga stóðu leigubílar í röðum á bílastæðum og margir þeirra voru hafðir í gangi, þá möluðu þeir á plani. Tilgangurinn var sá að þegar kallið kom hlupu bílstjórarnir út og þurftu ekki að hafa fyrir því að starta. Þetta var auðvitað löngu fyrir þá tíð að útblástur bíla þótti hættulegur. Ilmurinn úr púströrinu þótti beinlínis indæll rétt eins og margir aldraðir fullyrða.
Hins vegar mala bílar ekki möl, til þess eru önnur tæki.
Yfirleitt er það þannig að sá staður er margir bílar standa er sjaldnast kallaður annað en bílastæði. Fágætt er að bílum sé lagt á bílaplani.
Nú er hugsun mín tekin að verða ærið þokukennd og þess vegna er skynsamlegra að láta hér staðar numið og óska eftir tillögum frá lesendum. Er þetta rétt á mbl.is eða hvað heita þeir staðir er bílar eru geymdir á möl. Kostirnir eru eftirfarandi:
- Malarbílaplan
- Bílamalarplan
- Bílamalarbílaplan
- Malarbifreiðastæði
- Bifreiðarmalarstæði
- Malarplansbílastæði
- Bílastæðismalarplan
- Malarplanbifreiðastæði
- Bifreiðastæðismalarplan
- Bifreiðamalarbílastæðisplan
Detti lesendum önnur orð í hug eru þeir hvattir til að koma þeim hér á framfæri. Þetta er sko þjóðþrifamál.
Brýnt er að sem flestir leggi orð í belg svo síðasta malarplansbifreiðastæðið fái nú eitthvurt nafn áður en öllu er lokið, hið síðasta hverfi undir malbik.
Síðasta malarbílaplanið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.