Salerni sem fríka, margir meirihlutar og horn Mörkarinnar

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

En hið sögulega við tap flokksins er það að hann getur ekki lengur myndað einn meirihluta í fylkinu eins og hann hefur getað í nærri sjö áratugi.“ 

Forystugrein á bls. 18 í Morgunblaðinu 16.10.2018.     

Athugasemd: Hér hefur eitthvað skolast til. Höfundurinn á varla við að hægt sé að mynda fleiri en einn meirihluta í Bæjaralandi. Hægt er að orða þetta betur og jafnframt einfalda framsetninguna, draga úr málalenginu og komast hjá nástöðu.

Síðar í sömu grein segir:

Merkel kanslari virtist ekki ætla að taka úrslitunum í Bæjaralandi blindandi, þótt umfjöllun hennar væri af alkunnri varfærni.

Mér er alveg hulin ráðgáta hvað það merkir að „taka úrslitunum blindandi“. Þekki ekki þetta orðfæri og dreg í efa að það sé þekkt. Einna helst gæti verið að höfundurinn sem er greinilega ekki ritstjóri blaðsins, hafi fyrir sér texta úr þýskum eða enskum fjölmiðlum.

Tillaga: Flokkurinn getur ekki lengur myndað hreinan meirihluta í fylkinu eins og hann hefur gert í nærri sjö áratugi.

2.

Metradjúpt vatn þegar mest var í miklum vatns­leka í Vals­heimilinu.“ 

Fyrirsögn á visir.is.     

Athugasemd: Við fyrstu sýn kann lesandinn að halda að blaðamaðurinn kunni ekki að fallbeygja nafnorðið metri (meter á ensku og fleiri málum). Fyrirsögnin er hins vegar rétt. 

Metri beygist svo: Metri, metra, metra, metra. Og í fleirtölu: Metrar, metra, metrum, metra.

Þar af leiðir að metradjúp vatn þýðir að dýptin hafi verið einn metri eða jafnvel meira. Einhvern tímann hefði maður skrifað „metersdjúpt vatn“ en það er ekki rétt. Hins vegar hefði ég haft fyrirsögnina eins og segir í tillögunni hér fyrir neðan, óþarfi að tvítaka vatn.

Svo oft hefur visir.is verið gagnrýndur hér og það með réttu að ástæða er til að hæla fréttavefnum og blaðamanninum þegar vel er gert.

Tillaga: Allt að metradjúpt vatn þegar mest var í Valsheimilinu.

3.

10 salerni gerð til þess að fríka þig út.“ 

Fyrirsögn á dv.is.    

Athugasemd: Íslenskri tungu mun smám saman hnigna vegna þess að ekkert aðhald er á ritstjórnum. Illa skrifandi „blaðamenn“ leika lausum hala og niðurstaðan eru skemmdar fréttir. Af hverju er ekki meiri agi á dv.is? Hvað í ósköpunum er nýi útgefandinn að hugsa svo ekki sé talað um ritstjórann?

Hvað þýðir til dæmis eftirfarandi í fréttinni sem um ræðir:

Margar hverjar þeirra eru eflaust beint stignar úr martröðum sumra.

Fólk með reynslu, þekkingu svo ekki sé talað um vit hefði orðað þetta á annan hátt.

Tillaga: Tíu salerni sem flestum kann að hrylla við

4.

Við Fella­hvarf í Kópa­vogi stend­ur ákaf­lega vel heppnuð og fal­leg íbúð …“ 

Frétt á mbl.is.    

Athugasemd: Flestir eru þeirrar skoðunar að hús standi á grunni sínum en íbúðir séu í húsum. Frekar ofmælt er að segja að íbúð standi við götu. Einfalt er að lagfæra þetta-, bara skipta út einu sagnorði.

Hér verður að segjast eins og er að dálkurinn sem tilvitnunin er fengin úr hefur farið batnandi, málfar er miklu betra og villur sjaldgæfar.

Tillaga: Við Fellahvarf í Kópavogi er ákaflega vel heppnuð og falleg íbúð …

5.

Margir hafa velt vöngum yfir nokkuð dularfullu skilti sem er við gatnamót Suðurlandsbrautar og Markarnnar.“ 

Frétt á dv.is.     

Athugasemd: Mörk er kvenkynsnafnorð. Gata í Reykjavík nefnist Mörkin, það er með ákveðnum greini. Ferðafélag Íslands er með skrifstofur í Mörkinni.  Af þessu leiðir að götuheitið fallbeygist svo: Mörkin, Mörkina, Mörkinni, Markarinnar/Merkurinnar, sjá hér.

Ekki eru allir blaðamenn DV góðir í íslensku máli né heldur er málfar þeirra margra gott og síðast en ekki síst eru þeir ekki góðir í að segja frá. Hið síðarnefnda er þó afar mikilvægt fyrir blaðamenn.

Áður en þessi klúðurslega fallbeyging á götuheitinu birtist á DV hafði enn verri útgáfa sést: 

… Suðurlandsbraut og Mörkarinnar.

Eðlilegt er að lesandinn brosi eða hlægi yfir vitleysunni. Skemmdar fréttir eru hins vegar ekkert grín.

Tillaga: Margir hafa velt vöngum yfir nokkuð dularfullu skilti sem er við gatnamót Suðurlandsbrautar og Merkurinnar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband