Eldgos á hælunum, hús sem opnar og merkingarlaus leppur

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

Málsbætur

Mitigating eða extenuating circumstances heitir það á ensku þegar um er að ræða eitthvert atriði eða aðstæður sem dregið gætu úr sekt sakbornings. 

Í stað þess að kalla það „mildandi kringumstæður“ er tilvalið að nota málsbætur. Sumir geta fært sér e-ð til málsbóta. Aðrir eiga sér engar málsbætur. 

Málið á bls. 28 í Morgunblaðinu 9. október 2018.

 

1.

Kl. 8.30 - Húsið opnar.“ 

Auglýsing Samgöngustofu um umferðaþing      

Athugasemd: Vel fer á því að byrja daginn á umferðaþingi Samgöngustofu á þeim galdri er hús opnar eitthvað. Enn er óljóst hvað húsið mun opna en gera má ráð fyrir að það skýrist á fundinum.

Grínlaust, hús opna ekki neitt. Fólk opnar hús, jafnvel kemur fyrir að fólk opnar sig. Það er mikil ávirðing á virðulega stofnun eins og Samgöngustofu að hún geti ekki komið frá sér einni auglýsingu án þess að klúðra málfarinu.

Tillaga: Húsið verður opnað.

2.

Eldgos á hælunum á jarðskjálftum og flóðbylgju.“ 

Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Þetta er óboðleg fyrirsögn. Blaðamaðurinn skilur ekki hvað það þýðir að vera á hælunum á einhverjum. Oft er gott að nota málshætti eða orðtök til að skýra mál sitt en hér virðist blaðamaðurinn vera fljótfær eða hann áttar sig ekki á því sem hann skrifar og það sem verra er enginn bendir honum á yfirsjónina. Góður blaðamaður má ekki skrifa samhengislaust.

Lögreglan er á hælunum á þjófnum, það merkir einfaldlega að löggan er við það að ná honum. Sá sem kemur inn á hælunum á Jóni er rétt á eftir manninum. Skammt er frá tám eins að hælum annars. Eftir að jarðskjálftar riðu yfir kom flóðbylgja og síðan örskömmu síðar eldgos.

Stundum á ekki við að persónugera atburði í náttúrunni þó vissulega sé það hægt og stundum fari vel á því. Eldgos er, það er staðbundið, hreyfist ekkert úr stað, kemur ekki þegar einhver önnur óáran er farin.

Þó er skaðlaust að segja að Katla bæri á sér. Jón Helgason, skáld, segir frá hraunflóði í kvæði sínu Áfangar: „… þegar hin rámu regindjúp ræskja sig upp um Laka“, sem er frábær lýsing en auðvitað er þessu ekki saman að jafna.

Varnaðarorðin hér eru þessi: Fái lesandinn það á tilfinninguna að fréttin sé illa skrifuð, takmörkuð að einhverju leyti eða sá sem skrifar viti ekki nóg er hún gölluð. Til að bæta úr þarf blaðamaðurinn alltaf að vera gagnrýninn á sjálfan sig. Oftast er best að endurskrifa. Sá sem aldrei gagnrýnir eigin skrif og telur sig ekki þurfa að endurskrifa á bágt.

Á mbl.is segir svo í fyrirsögn: „Eldgos í kjölfar jarðskjálftans.“ Vel gert hjá Mogganum.

Tillaga: Eldgos í kjölfar jarðskjálfta og flóðbylgju.

3.

Sérstakri makrílvertíð lokið.“ 

Hluti af undirfyrirsögn á bls. 18 í Morgunblaðinu 4. október 2018.   

Athugasemd: Pétur er alvega sérstakur maður er oft sagt. Enginn segir að Jón sé sérstakari maður og aldrei er tekið svo til orðs að Ólafur sé sérstakasti maðurinn. Ástæðan er að Pétur sker sig frá öðrum fyrir eitthvað, oftast jákvætt.

Að mínu mati merkir lýsingarorðið sérstakur undantekningu, eitthvað eða einhvern sem sker sig úr vegna einhvers. Þegar sagt er um Pétur að hann hafi verið sérstakur maður og ekkert látið fylgja eru lesendur eða hlustendur í lausu lofti. Þarna verið að gera lítið úr manninum. Þó verður að segja að þegar þannig er kann fólk að segja: Pétur er dálítið sérstakur. Þá skilst að Pétur er jafnvel ekki eins og fólk er flest. Í því tilfelli væri réttara að segja Pétur sérkennilegan

Sama er með makrílvertíðina. Hún hefur líklega verið sérkennileg, óvenjuleg, einkennileg eða ólík öllum öðrum fyrir margra hluta sakir.

Sá sem hefur yfir þokkalegum orðaforða að ráða velur orð við hæfi, reynir að vera skýr. Sá sem er fátækari eða ekki viss í sinni sök leitar ráða. Íslenskt orðanet hefur oft reynst mér drjúgt í villum mínum eða vitleysisgangi.

Tillaga: Óvenjulegri makrílvertíð lokið.

4.

Óþekktar hræringar á leikmannamarkaði.“ 

Fyrirsögn á bls. 2 í íþróttablaði Morgunblaðsins 4. október 2018.   

Athugasemd: Þessi fyrirsögn skilst ekki vegna þess að í fréttinni rekur blaðamaðurinn allar breytingar sem hafa orðið á milli körfuboltafélaga að undanförnum. Ekki er getið um neinar óþekktar hreyfingar/breytingar (hræringar), líklega vegna þess að þær þekkjast ekki, eru óþekktar.

Má vera að blaðamaðurinn sé orðvilltur, gerir sér ekki grein fyrir því hvað lýsingarorðið óþekktur merkir, hugsi jafnvel á ensku (unknown). Sá eða það sem er óþekkt þekkist ekki, er ekki tíðkað(ur).

Tungutak íþróttafréttamanna er ekki óþekkt, með erfiðismunum má ráða í það. Fyrirsögnin þýðir bókstaflega að ekkert sé vitað um kaup og sölu á leikmönnum í körfubolta. Hugsanlega á höfundurinn við að kaupin og salan eigi sér fá eða engin fordæmi.

Vont er þegar lesendur skilja ekki fyrirsagnir.

Tillaga: Ekki hægt að átta sig á hvað blaðamaðurinn á við.

5.

Það voru að koma mikilvæg skilaboð frá strákunum!“ 

Kostuð skilaboð á Facebook-síðu KSÍ   

Athugasemd: Má vera að starfsfólkið á KSÍ kunni sitthvað fyrir sér í fótbolta en sendingar á íslensku mætti það lesa yfir á gagnrýnan hátt. Annars staðar á FB-síðu sinni segir starfsfólk KSÍ:

Það er leikur á morgun!

Hrikalega er þetta ljót setning. Hægt er að gera miklu, miklu betur.

Berum saman fyrri tilvitnunina hér fyrir ofan við tillöguna fyrir neðan. Hver skyldi vera munurinn? Jú, leppurinn, fornafnið „það“ er horfinn.

Ástæðan er einfaldlega sú að „það“ hefur engan tilgang í setningunni, hjálpar ekkert og er því almennt kalla merkingarsnautt orð. Íslenskufræðingar hafa nefnt orðið aukafrumlag og flestum sem stunda skrif er eiginlega meinilla við það, nota að minnsta kosti í miklu hófi.

Eiríkur Rögnvaldsson, íslenskufræðingur, segir í grein um þetta (feitletranir eru mínar):

Notkun það er nefnilega mjög stílbundin, og margfalt meiri í talmáli og óformlegu ritmáli, s.s. einkabréfum, en í formlegri textum. Oft hefur líka verið amast við notkun þess. 

Þannig segir Jakob Jóh. Smáir (1920:19): „Fallegast er að nota þetta aukafrumlag sem minst“; og Björn Guðfinnsson (1943:8) tekur í sama streng: 

Bezt fer á að nota þetta aukafrumlag sem minnst“. 

Þessu er ég sammála og vitna um þetta efni til pistils á bloggsíðu minni.

Miklu meiri reisn er yfir tillögunni hér að neðan en tilvitnuninni. Góður skrifari, rithöfundur, blaðamaður eða einhver annar þarf að skrifa sig framhjá „það“ og þá gerist galdurinn, textinn verður yfirleitt margfalt betri og skiljanlegri.

Hvernig væri þá best að orða seinni tilvitnunina og losna við merkingarleysið. Lesandinn getur reynt sig við það en ég hefði skrifað: „Fótboltaleikur á morgun.“ Ekkert fer hér á milli mála.

Tillaga: Mikilvæg skilaboð voru að berast frá strákunum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband