Vindgangur, samstuð og skemmdar fréttir

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

 

1.

Gul viðvörun vegna vinds og úrkomu.“ 

Veðurfréttir á rás eitt í Ríkisútvarpinu kl. 10:03 29.08.2018.      

Athugasemd: Mikið hefur breyst hjá Veðurstofu Íslands á síðustu árum. Nýjar kynslóðir veðurfræðinga tala sínkt og heilagt um vind, hann sé lítill eða mikill. Sjaldnast er gefin einhver viðmiðun og því er engin hjálp í þessu tali. 

Í íslensku máli eru til á annað hundrað orð sem lýsa vindstyrk. Sjá pistil á þessu bloggi. Jafnvel á sjálfri Veðurstofunni er listi yfir mat á vindhraða samkvæmt gamla kerfinu og einnig gefnir upp metrar á sekúndu (m/s), sjá hér. Svo virðist sem nýju veðurfræðingarnir þekki ekki þessi orð, að minnsta kosti eru þau þeim ekki tungutöm.

Stundum er sagt að ekkert hættulegt sé að falla fram af háu bjargi, hins vegar sé það lendingin sem skaði. Sama má segja um vindinn. Hann skaðar engan nema því aðeins að hraðinn sé mikill.

Andvari er ekki hættulegur og ekki heldur kul, gola, stinningsgola, kaldi og stinningskaldi. Eftir það verða aðstæður æ varasamari. Þá er hraðinn orðinn um það bil 14 m/s (7 gömul vindstig) og nefnist það allhvass vindur. Hvassvirði er frá  17 m/s (8 vindstig), stormur 21 m/s (9 vindstig) og upp frá því er vissara að gefa út rauða viðvörun.

Mikill skaði væri ef gömul og gild íslensk orð um vindstyrk séu sett til hliðar. Barnalegt og raunar gagnslaust er að nota „mikill vindur“ eða „lítill vindur“. Þetta er eins og að leggja af mælikvarða um lengd eða þyngd og segja í staðinn að laxinn sé langur eða stuttur, þungur eða léttur, nýfætt barn mikið þungt eða lítið þungt og svo framvegis. Nei, þetta gengi ekki upp. 

Vari veðurstofan við hvassviðri ber henni að tilgreina eins nákvæmt og henni er unnt hvað sé í vændum. Hvað í ósköpunum er mikill eða lítill vindur?

Tillaga: Gul viðvörun vegna hvassviðris og úrkomu.

2.

Hús íslenskunnar hefur þurft að bíða of lengi í grunni sínum.“ 

Grein eftir Vilhjálm Bjarnason, fyrrverandi alþingsmann í Morgunblaðinu 31.08.2018.      

Athugasemd: Í vel skrifaðri grein í Mogganum fjallar Vilhjálmur um gjafir þjóðarinnar til sjálfrar sín af ýmsu tilefni. 

Ofangreind tilvitnun er eitthvað biluð. Ekki er enn farið að byggja hús í grunninum og þar af leiðandi bíður þar ekkert hús.

Margt skondið er í greininni enda Vilhjálmur ágætlega ritfær:

Vert er þó að minnast orða hagyrðingsins; „sælla er að gefa en þiggja, á kjaftinn“.

Í mörgum tilfellum er þetta ábyggilega rétt. 

Vilhjálmur gagnrýnir að ekki sé byggt hús fyrir rannsóknir í hafi og vötnum en byggja frekar hafrannsóknarskip. Honum finnst þetta ekki neinn sérstakur rausnarskapur og segir:

Þjóðina getur allt eins vantað veghefil, jarðýtu eða vélskóflu!

Kaldhæðnin er yfirþyrmandi og vel að orði komist.

Tillaga: Hús íslenskunnar hefur ekki enn risið, alltof lengi hefur grunnurinn verið tómur.

3.

Urðu að stöðva tónleika eftir að Bono missti röddina.“ 

Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina hefur takmarkaðan skilning og lélegan orðaforða. Hann áttar sig ekki á muninum á sögnunum að stöðva, hætta og aflýsa.

Hljómsveit sem lendir í vandræðum af þessu tagi hættir tónleikunum, stöðvar þá ekki, þeim er einfaldlega sjálfhætt. Hægt er að stöðva bíl, stöðva skemmdarverk, stöðva vatnsrennsli, átt er við að eitthvað sem heldur áfram þangað til einhver grípur inn í. Hægt er að hætta leik en fótboltaleik er stundum aflýst vegna veðurs. Lögregla hefur stundum stöðvað tónleika en það er allt önnur saga.

Í fréttinni er vísað í norska dagblaðið VG. Þar segir í fyrirsögn:

Bono mistet stemmen i Berlin, U2 måtte avlyse

Þarna stendur að U2 hafi þurft að aflýsa tónleikunum.

Í malid.is segir:

aflýsa sagnorð 
fallstjórn: þágufall
hætta við (t.d. samkomu, tónleika)
fundinum var aflýst vegna veðurs
kennarar aflýstu verkfallinu

Bono missti röddina og þar af leiðandi hætti hljómsveitin við tónleikana, aflýsti þeim, hún lék ekki áfram.

Sama frétt er á mbl.is en þar eru skrifin miklu skárri þó ýmislegt megi við þau að athuga. Þarna segir að tónleikunum hafi verið aflýst. Heimild Moggans er BBC.

Tillaga: Urðu að hætta við tónleikanna eftir að Bono missti röddina.

4.

Lögregla í Washington í Bandaríkjunum leitar nú að ökumanni sem trylltist eftir að hafa lent í samstuði við rútu.“ 

Frétt á visir.is.       

Athugasemd: Ofangreint er úr hroðvirknislega frétt sem er einfaldlega blaðamanninum og Vísi til skammar.

Hvað er samstuð ökumanns og rútu?

Hér er ein vitleysan enn:

Ökumaðurinn, ung kona, keyrði ítrekað á rútubílstjórann sem reyndi að hefta för hennar eftir áreksturinn.

Ekki er einu sinni hægt að giska á hvað blaðamaðurinn á við. Hvað þýðir til dæmis „ítrekað“? Merkir orðið þarna oft eða aftur og aftur? Af hverju er það þá ekki sagt frekar en að nota orð sem ekki þýðir það sama? Ökumaður og bílstjóri! Voru þeir á hlaupum eða ... ?

Hér er enn eitt:

Sest hún því næst upp í bíl sinn og ógnar ökumanni rútunnar sem tekið hafði sér stöðu fyrir framan bíl hennar á meðan hann hringdi á lögreglu.

Og í fjórða sinn bullar blaðamaðurinn svona:

Sjá má hvernig konan hótar því að keyra á rútubílstjórann áður en hún stígur bensíngjöfina í botn með þeim afleiðingum að rútubílstjórinn kastast upp á bíl hennar áður en hann kastast af honum eftir nokkra vegalengd.

Enginn, ekki nokkur maður á ritstjórn visir.is les yfir það sem skussarnir skrifa. Ritstjóri og fréttastjórar eru líklega engu skárri vegna þess að aftur og aftur („ítrekað“) er neytendum Vísis, Fréttablaðsins og Stöðvar2 boðið upp á skemmdar fréttir. Þetta ætlar engan enda að taka.

Tillaga: Ekki er hægt að leiðrétta bullið á Vísi, betra að endurskrifa.

5.

Myndbrot af fyrrverandi Bandaríkjaforseta George W. Bush að lauma sælgætismola í lófa fyrrverandi forsetafrúr Bandaríkjanna, Michelle Obama, við jarðarför þingmannsins Johns McCain í gær hefur vakið nokkra athygli á samfélagsmiðlum.“

Frétt á visir.is.       

Athugasemd: Á íslensku er reglan sú að stöðuheiti fólks kemur á eftir nafni þess, ekki á undan eins og reglan er í ensku. 

Nóg hefði verið að nefna landið einu sinni í þessari löngu málsgrein. Þó því hefði verið sleppt hefði það ekki truflað neinn.

Einföldun á málsgreininni hefði ekki skaðað hana á neinn hátt. 

Blaðamaður sem ekki kann að fallbeygja er ekki mikils virði. Þarna er orðið frú kolrangt. 

Annars staðar í fréttinni stendur þetta:

Er nokkur betri leið til þess að eiga síðasta orðið en að láta okkur George ausa hann lofi frammi fyrir alþjóðlegum áhorfendahópi?

Þetta er ekki rangt orðalag en afar slæmt. Til dæmis þetta að ausa lofi. Þess í stað má nota sagnirnar að lofa eða hrósa og ef ætlunin er að auka enn við má lofa í hástert, lofa óspart og ábyggilega margt fleira.

Reglan Jónasar heitins Kristjánssonar fyrrum ritstjóra, er hins vegar þessi: Stuttar setningar. Setja punkt sem víðast. Til viðbótar er að stafsheiti eða stöðuheiti er haft á eftir nafni.

Tillaga: Myndbrot af George W. Bush sem laumar sælgætismola í lófa Michelle Obama í jarðarför Johns McCain í gær hefur vakið nokkra athygli á samfélagsmiðlum.

6.

Flateyjargátan er lýst sem ...

Frétt á visir.is.       

Athugasemd: Margir eiga það oft til að gleyma fallbeygingu nafnorða sérstaklega þegar nafnorðið stendur fremst í setningu og sögnin sem stýrir fallinu er einhvers staðar aftar.

Hér á auðvitað að hafa nafnorðið í þágufalli.

Tillaga: Flateyjargátunni er lýst sem ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sigurður.

Skemmdar kartöflur < > illa skrifaðar fréttir.

Húsari. (IP-tala skráð) 3.9.2018 kl. 19:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband