Skemmdar fréttir fjölmiðla og öllum er sama

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.


1.

Þó ISIS-liðar hafi hlotið hvern ósigurinn á fætur öðrum er baráttuvilji ISIS-liða enn til staðar samkvæmt höfundum skýrslunnar.“ 

Frétt á visir.is.        

Athugasemd: Þetta er viðvaningslegt og slæmt orðalag. Enginn hlýtur ósigur, hins vegar bíða sumir ósigur, tapa, fara halloka, gjalda afhroð og svo framvegis, allt eftir samhenginu.

Í raun er þetta ómöguleg málsgrein. Í henni eru villur og nástaða. Hvers vegna er í henni tvisvar getið um ISIS-liða? Dugar ekki eitt skipti eða er höfundurinn hræddur um að lesandinn missi þráðinn á milli setninga?

Svo er þessi klifun á orðasambandinu til staðar. Hefur blaðamaðurinn enga tilfinningu fyrir stíl eða er markmiðið að moka út orðum án tillits til máfars eða efnis? Greinin er illa skrifuð, margar málfarsvillur og nástöður. Blaðamaðurinn þarf að hugsa sinn gang.

Tillaga: Þó ISIS-liðar hafi beðið mikið afhroð er baráttuvilji þeirra enn mikill segja höfundar skýrslunnar.

2.

Gjóskulag var mun þykkara en áður var talið sem gefur vísbendingar um að fyrri eldgos hafi verið öflugri en áður var talið.“ 

Myndatexti á visir.is.        

Athugasemd: Fljótfærni, hugsunarleysi og hroðvirkni blaðamanna á visir.is er oft hrikaleg og það sem verra er, enginn lesi yfir. Takið eftir klifinu hér í myndatextanum. Þetta er afar algengt á fréttamiðlinum.

Þetta er einfaldlega skemmd frétt og því ekki bjóðandi neytendum, ekki frekar en skemmdur matur í verslunum eða á veitingastað.

Einfalt mál er að lagfæra svona, sé blaðamaðurinn eða ritstjórnin á annað borð með meðvitund.

Tillaga: Gjóskulag var mun þykkara en vitað var sem gefur vísbendingar um að fyrri eldgos hafi verið öflugri en áður var talið.

3.

Messi íhug­ar að kalla þetta gott.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.        

Athugasemd: Hvað er Lionel Messi, fótboltamaður hjá Barcelóna, að hugsa? Fyrirsögnin segir ekkert um það.

Af hverju geta íþróttablaðamenn á Mogganum ekki tjáð sig á einföldu máli?

Ef eitthvað er til í þessari frétt er Messi að velta því fyrir sér að hætta í fótbolta.

Blaðamenn þekkja margir ekki sögnina að hætta, þess í stað nota þeir einhver illa samanin skrautyrði. Enginn hættir lengur. Menn stíga til hliðar, stíga til baka, draga sig í hlé, víkja fyrir öðrum og svo framvegis.

Hvað kallar Messi hvað gott? Hundinn sinn, morgunverðarborðið, mömmu sína? Við skulum segja þetta gott er stundum sagt þegar til dæmis er komið að verklokum.

Tillaga: Messi íhugar að hætta.

4.

Konan, sem var daglegur stjórnandi fyrirtækisins, stóð ekki skil á virðisaukaskattskýrslum fyrirtækisins á lögmætum tíma á þessum árum og stóð ekki skil á virðisaukaskatti á sama tímabili sem nam rúmum 16 milljónum króna.“ 

Frétt á visir.is.        

Athugasemd: Ef vinnubrögðin eru svona á visir.is er sökin alfarið stjórnenda vefsins, ritstjóra. Ofangreint er algjörlega óboðlegt, dæmi um skemmda frétt. Ritstjórninni er greinilega sama um neytendur, aðalatriðið að magn „frétta“, ekki gæði.

Hvað þýðir svo skil á lögmætum tíma á þessum árum?

Þvílík ókurteisi og vanvirða við neytendur. Skrifa börn á visir.is?

Tillaga: Ekki hægt að laga svona vitleysu.

5.

Bergsveinn Birgisson rithöfundur svarar í símann, svolítið móður og ég sé hann fyrir mér skokkandi á norskum skógarstíg “ 

Frétt á visir.is.        

Athugasemd: Hvað kemur persónulegt álit eða skoðun blaðamanns lesendum við? Hvers konar blaðamennska er það að skrifa frétt í 1. persónu í eintölu?

Auðvitað er þetta tóm vitleysa enda er fréttin algjörlega úr takti við hefðbundin fréttaskrift. Sýnir bara barnslegan einfaldleika hjá visir.is

Tillaga: Ekki hægt að laga svona vitleysu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband