Vök Baths, bleikjan að gefa sig og Cliff clifftur út
23.7.2018 | 10:50
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Mikil fækkun Íslendinga í danska fótboltanum. Fyrirsögn á bls. 1 í íþróttablaði Morgunblaðsins 17.07.2018.
Athugasemd: Íslenska byggist á sagnorðum, ekki nafnorðum.
Í upphafi fréttarinnar stendur svo þetta:
Aðeins þrír Íslendingar leika með liðunum fjórtán í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu
Þetta er einfaldlega rangt því leikmennirnir geta ekki leikið með fjórtán liðum, hámarkið er þrjú lið.
Tillaga: Íslendingum fækkar í danska fótboltanum.
2.
En Steingrímur óð með bróður sínum yfir Meyjará sem var í miklum vöxtum vegna úrhellis rigningar til að sækja aðstoð. Fréttá visir.is.
Athugasemd: Ár eru stundum í vexti, peningar geta legið í banka á vöxtum, flest börn vaxa, vöxtur þeirra er oftast góður, svo eru þeir til sem eru vel vaxnir og maður getur líka verið mikið mikill vöxtum.
Um eina, tvær eða fleiri ár sem vaxa vegna þess að í þeim er meira vatn en endranær er sagt að þær séu í vexti. Þetta er venjan, held þó að ekki sé rangt að segja ár í miklu vöxtum. Þó heyrist aldrei að ár séu í litlum vöxtum.
Höldum okkur bara við að segja að ár séu í vexti
Tillaga: En Steingrímur óð með bróður sínum yfir Meyjará sem var í miklum vexti vegna úrhellis rigningar til að sækja aðstoð.
3.
Vök Baths. Nafn á fyrirtæki í Fellabæ.
Athugasemd: Ég bið lesendur forláts en ég held því fram að fólkið sem nefnir fyrirtækið sitt Vök Baths séu haldin alvarlegum skorti á heilbrigðri skynsemi.
Á vefnum austurland.is segir:
Heitið er sótt í vakir sem mynduðust á Urriðavatni sem urðu tilefni í þjóðsögur og síðar þess að látið var á það reyna að bora þar eftir heitu vatni á svæði sem áður var talið kalt með góðum árangri.
Ekki er nóg að tilgangurinn sé góður, íslensk mál er misnotað og sóðað út eins af algjörri óvirðingu. Furðulegt er að blanda svona saman íslensku og ensku. Útkoman verður þar af leiðandi hvorki fugl né fiskur, bastarður. Miklu nær er að mynda heiti fyrirtækis á íslensku og hafa ensk heiti neðanmáls. Svo má velta því fyrir sér hvort Vök Baths sé nafnið á eigandanum, þorir einhver í'ana. Hver veit hvort Bath ættin sé til á Austurlandi og hafi tórt þar frá landnámi?
Má vera að eigendurnir séu að hugsa um markaðsmál en um leið missa þeir sjónar á þeirri virðingu sem eigendur fyrirtækja eiga að sýna íslensku máli, þjóðinni og ekki síður útlendingum sem heimsækja landið. Enginn útlendingur ætlast til að heiti fyrirtæki, örnefni, vara, vegvísar eða annað sé á ensku. Sá sem heimsækir annað land gerir einfaldlega ráð fyrir því að þar sé tungumál innfæddra ráðandi. Þetta er að minnsta kosti það sem ég hugsa þegar ég ferðast um Grikkland, Spán, Ítalíu, Þýskaland og Frakkland svo dæmi séu tekin.
Síðast en ekki síst varðar þetta sóma þeirra sem reka fyrirtæki hér á landi. Við getum einfaldlega ekki fylgt í kjölfar þess sóðalega fyrirtækis sem nú heitir Air Iceland Connect en hét áður Flugfélag Íslands, eða Fontana, og álíka fyrirtækja með skrípaheiti í íslensku samfélagi.
Síst af öllu er þetta spurning um markaðsmál. Bláa lónið lifir góðu lífi, einnig Eimskip, Samskip og fjöldi annarra fyrirtækja sem sýna tungu þjóðarinnar tilhlýðilega virðingu.
Tillaga: Tuskuvakir
4.
Grænlandsbleikjan gefur sig. Fyrirsögn á mbl.is
Athugasemd: Slæmar fréttir, hrun í grænlenska bleikjustofninum Eða hvað? Í orðabók segir um merkinguna að gefa sig:
Láta undan, bresta, bila. Gamla brúin gaf sig undan vörubílnum. Vatnsrör gaf sig í frostinu. Þessir skór eru farnir að gefa sig.
Sem sagt, grænlandsbleikja er ekki að hruni komin, hún lætur veiða sig. Hvoru tveggja má fagna, held ég.
Sumir halda að málið þróist á þann hátt að orð sem hingað til hafi haft ákveðna merkingu fái nýja og gjörólíka. Slíkt er ekki þróun heldur afleiðing vanþekkingar á íslensku máli. Þannig klúður er nær daglegur viðburður í íslenskum fjölmiðlum. Sorglegt.
Tillaga: Grænlandsbleikjan veiðist vel.
5.
Framherji Watford að taka við Gylfa sem dýrasti leikmaður í sögu Everton? Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Þetta gengur ekki upp. Blaðamaðurinn skilur ekki einfald orðasamband og niðurstaðan verður bull.
Framherji tekur við Gylfa. Það þýðir að hann tekur á móti Gylfa, einhver afhendir Gylfa og hinn tekur á móti.
Má vera að blaðamaðurinn hafi ætlað að skrifa að enginn taki við af Gylfa. Sé svo bendir það til að enginn lesi yfir, enginn bendir fréttabarninu á mistök. Fyrir vikið er fréttin skemmd.
Blaðamaðurinn þykist samt hafa gert vel, er aldeilis karl í krapinu, hefur skrifað frétt. Hann veit bara ekkert um vitleysuna sem hann gerði.
Tillaga: Nýi framherjinn hjá Watford dýrari en Gylfi.
6.
Clifftir út. Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Svo bregðast krosstré Einn af betri blaðamönnum Moggans skrifar skýra og góða frétt um mál söngvarans Cliff Richards gegn BBC. Alls ekkert út á hana að setja nema fyrirsögnina. Ég hreinlega skil hana ekki. Hér er greinilega um einhvern orðaleik að ræða, einhverjir eru í málaferlinum klipptir úr.
Sú staðreynd er skýr að aldrei fer vel á því að blanda saman tveimur tungumálum í frétt, hvorki í fyrirsögn né meginmáli nema að setja hið erlenda í gæsalappir. Allt annað truflar lesendur sem í ofanálag eru margir hverjir ekki með næga tungumálaþekkingu til að skilja. Í ofanálag eru ekki allir lesendur með jafngóðan húmor hvað þá að við séum allir jafnfljótir að kveikja á skopinu.
Tillaga: Cliff Richard vinnur dómsmál gegn BBC
6.
Ef áfram heldur að kreppa að er víst að Ortega mun missa stuðning efnahagslífsins. Úr leiðara Morgunblaðsins 21.07.2018.
Athugasemd: Yfirleitt eru leiðarar Moggans ágætlega skrifaði og afar sjaldgæft að sjá stafsetninga- eða málvillur. Hvorugt er í ofangreindri tilviljun en hún er samt illskiljanleg.
Efnahagslífið er svona eins og veðrið, frekar svona sjálfráða þó hvort tveggja sé mælanlegt á ýmsan máta.
Útilokað er að halda því fram að efnahagslíf hafa sjálfstæða hugsun eða styðji einhvern ákveðinn stjórnmálamann. Ekki frekar er hægt að fullyrða að veðráttan hér á landi haldi með ljósmæðrum eins og einn gáfumaðurinn fullyrti á fundi um daginn.
Líklegast er að leiðarhöfundur hafi ætlað að skrifa um stuðning atvinnulífsins en orðið fótaskortur á lyklaborðinu.
Tillaga: Ef áfram heldur að kreppa að er víst að Ortega mun missa stuðning atvinnulífsins.
7.
Í mars var Reykjavík Konsúlat Hótel opnað í Hafnarstræti 17- 19, en í sama húsnæði var áður rekið Thomsens magasín allt frá árinu 1837. Umfjöllun á bls. 21 í Morgunblaðinu 21.07.2018.
Athugasemd: Orðalagið er til fyrirmyndar. Hótelið var opnað. Skussar orða það þannig að hótelið hafi opnað. Hús eða fyrirtæki geta ekki opnað neitt, aðeins fólk.
Hins vegar verður að hnýta í ofangreinda tilvitnun Húsið sem um ræðir, oft kallað straujárnið vegna lögunar þess, er nýbygging og því útilokað að Ditlev Thomsen hafi gengið þar um gólf. Þó gæti verið að nýbyggingin sé tengd við eldra húsið við hliðina og þar hafi Thomsen konsúll spígsporað.
Tillaga: Engin gerð.
8.
Claude Puel, stjóri Leicester Cluel Frétt á visir.is.
Athugasemd: Í fótboltaleik er heimilt að skipta um þrjá leikmenn á meðan á leik stendur. Ekkert er við því að segja. Í blaðamennsku er það hins vegar óskráð en mikilvæg regla að skipta ekki um menn í miðri frétt.
Í Vísi er þýdd frétt um framkvæmdastjóra fótboltaliðsins Leicester. Í upphafi fréttar heitir hann Puel en um miðbik fréttarinnar er einhver Cluel kominn inn á. Enskir myndu ekkert skilja í svona fréttaflutningi (e. do not have a clue (cluel)).
Má vera að hér sé um samlögun að ræða, Claude Puel verður Cluel. Þetta er bara enn eitt dæmið hroðvirkni og sannar það sem margir segja, á Vísi er enginn prófarakalestur. Magn er meira metið en gæði.
Tillaga: Engin gerð.
9.
Hinn handtekni heitir Getayawkal Ayele sem hefur stefnt að því að verða spámaður. Frétt á visir.is.
Athugasemd: Nei, fjöldi frétta er endilega ávísun á góðar fréttir. Vísir hrúgar inn ómerkilegum fréttum og framreiðir þær með hangandi hendi, hroðvirknislega. Þannig verður til léleg frétt og oftar en ekki illa skrifuð.
Þetta á tvímælalaust við fréttina sem ofangreind tilvitnun er úr. Ég lét glepjast vegna fyrirsagnarinnar sem hefði þó mátt vera styttri.
Málsgreinin er ruglandi og þá sérstaklega samtengingin sem en henni er ábyggilega ofaukið.
Annars er stórmerkilegt að maðurinn ætli að verða spámaður. Ekkert er sagt frá námi mannsins, en hann hefur líklega fallið á prófinu í að reisa upp frá dauðum. Vonandi fær hann að taka það aftur eftir að hafa náð sér eftir barsmíðarnar.
Tillaga: Hinn handtekni, Getayawkal Ayele, hefur stefnt að því að verða spámaður.
10.
Sigraði anorexíuna. Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Gott er til þess að vita að ung kona hafi unnið bug á sjúkdómi sem hefur hrjáð hana. Hins vegar er varla hægt að segja að konan hafi sigrað sjúkdóminn. Við sigrum í keppni, vinnum andstæðinga, berum sigur úr býtum, leggjum keppinautanna og svo framvegis.
Í Málfarsbankanum segir:
Talað er um að sigra andstæðing og sigra í leik en ekki sigra leik. Hins vegar er talað um að vinna leik.
Rétt er með farið að segja fara með sigur af hólmi og bera sigur úr býtum en ekki bera sigur af hólmi.
Sjúkdómur er ekki eins og keppninautur, hann hefur enga sjálfstæða hugsun, er einungis þannig gerður að hann ræðst þar á sem líkaminn er veikastur. Engu að síður má orða fyrirsögnina þannig að konan hafi sigrast á átröskuninni.
Tillaga: Sigraðist á átröskuninni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.