Íslensk tunga verður útdauð eftir tuttugu ár

Það þarf að fara fram einhvers konar vitundarvakning sem felur í sér að fólk átti sig á því að íslenskan á alltaf við, alls staðar. Ef við höldum því ekki til streitu þá erum við komin á hættulega braut. Jafnframt þurfum við að leggja áherslu á það að auðvitað er enskan mikilvæg og það er sjálfsögð kurteisi og þjónusta við fólk sem heimsækir okkur að nota hana. Enskan má bara ekki útrýma íslenskunni.

Þegar virtur fræðimaður eins og Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor, tekur svona til máls (í viðtali á bls. 10 í Morgunblaði dagsins), veltir maður því fyrir sér hverjir hérlendir eigi að taka að sér vörn fyrir íslenskuna fyrst fræðimennirnir sitji hjá. Í orðum hans er felst ekkert annað en uppgjöf, enginn eldmóður engar hugmyndir eða tillögur.

Raunar eru uppgjöfin enn víðar. Ferðaþjónustan hefur engan áhuga á viðgangi íslenskunnar. Fyrirtæki eru kölluð enskum nöfnum, meira að segja skráð þannig athugasemdalaust í fyrirtækjaskrá. 

Banki heitir Arion, flugfélag Iceland Air Connect, rútufyrirtæki Iceland Excursions, rekstraraðili flugvalla Isavia, hvalaskoðunarfyrirtæki Gentle Giant, rukkunarfyrirtæki Motus, fataframleiðandi Cintamani, veitingahús Lemmon, gleraunasala Eyesland, bókhaldsfyrirtæki Accountant, tískuverslun Black Pepper Fasion og svo framvegis í langan tíma. 

Almenningur er algjörlega sofandi, ekki heyrist múkk vegna yfirgangs enskunnar. Fólki virðist almennt sama.

Fjölmiðlarnir gera lítið í að vekja athygli á þessu. Blaðamenn, fréttamenn og dagskrárgerðarfólk í útvarpi og sjónvarpi af yngri kynslóðinni eru margir hverjir illa skrifandi á íslensku, hafa lítinn orðaforða og geta ekki skammlaust þýtt greinar af ensku án þess að brúka enska orðaröð. Verst er að útgefndum, ritstjórum og öðrum er algjörlega sama.

Hvað segir þetta um menntakerfið, kennaranna? Ábyrgð þeirra er mikil rétt eins og okkar foreldra. Við erum að ala upp enskumælandi kynslóðir.

Stjórmálamenn er flestir steinsofandi, þeir vilja að vísu vel, en gera þó ekkert. Og hvað ættu þeir svo sem að gera þegar fræðasamfélagið virðist hafa gefist upp rétt eins og Eiríkur Rögnvaldsson.

Eldmóður fyrir íslenskunni fyrirfinnst ekki. Örfáir tuðarar eins og sá sem hér skrifar eru hingað og þangað en það er allt of sumt.

Í ár fagnar þjóðin 100 ára afmælis fullveldisins. Hvers virði er heil öld ef við erum að glata tungunni.

Jarðfræðingar hafa bent á að fari sem horfir munu allir íslenskir jöklar verða horfnir eftir um 150 ára. Ég spái því að eftir tuttugu ár verði íslenskt mál horfið og þjóðin tali ensku.

Allar líkur benda til þess. Viðspyrnan er engin. Skýr merki um uppgjöf er allt í kringum okkur.


mbl.is Enskan orðin sjálfsögð á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aztec

Ég er ekki sammála þér í svartsýninni. Á meðan einhver talar íslenzku, þá deyr hún ekki út. Enska á skiltum lundabúðanna eða sms-skeyti unglinga breytir þar engu um. Þegar túristarnir eru hættir að koma (vegna okurs, slæms veðurfars og leiðinda) og öll nýju, ljótu hótelin, lundabúðirnar og veitingastaðirnir eru farin á hausinn, þá mun íslenzku orðin aftur rata á skiltin.

Ef íslenzkunni stafaði einhver hætta af ensku þá ætti það sama við um pólsku. Margar auglýsingar eru birtar á pólsku og margir strætóbílstjórar (80% af þeim eru Pólverjar) tala enga íslenzku (og sumir hverjir heldur enga ensku), sem hlýtur að vera einsdæmi í veröldinni (þ.e. að opinberir starfsmenn í þjónustustörfum tali ekki mál innfæddra). Ég áætla að það séu búsettir (skráðir og óskráðir) um 30.000 Pólverjar á Íslandi, en að vísu er ekki hægt að bera saman því að Íslendingar tala ekki pólsku.

Á meðan íslendingar eru ekki farnir að tala ensku sín á milli (með hræðilegum framburði), þá verður íslenzkan aldrei útdauð. Þær þjóðir sem annað hvort hafa tapað tungumáli sínu (margar Afríkuþjóðir og Írar) eða þar sem enskan er jafnrétthá (t.d. Indland) hafa allar verið nýlendur öldum saman þegar þetta varð raunveruleikinn. Á sama hátt var veruleg hætta á að íslenzka myndi lúta í lægra haldi fyrir dönskunni, en komið var í veg fyrir það af Rask og íslenzkum málverndunarsinnum þrátt fyrir yfirgang danskra embættismanna. Svo að á meðan Ísland er sjálfstæð þjóð og einhver er eftir á þessari eyju, þá mun íslenzkan ekki verða enskunni að bráð.

Auðvitað er öllum Íslendingum (svo og öðrum) hollt að læra ensku, sem er eina virka alþjóðatungumálið sem til er (og þá helzt ekki með íslenzkum framburði). Því að þeir sem kunna ekki ensku eru illa settir. Svo að þð má segja að hatur Þjóðverja og Frakka á enskunni stendur þeim sjálfum fyrir þrifum. Þeir sem einungis kunna sitt eigið tungumál, ef það er ekki enska, eru verulega einangraðir. Sem betur fer eru bíómyndir og sjónvarpsþættir á Norðurlöndum (og Hollandi) textaðir, sem útskýrir sæmilega góða enskukunnáttu þessara þjóða frá blautu barnsbeini. Þannig ætti það líka að vera í t.d. Póllandi, þar sem enskukunnátta Pólverja er verulega áfátt.

Það er öllum skylt að standa vörð um íslenzka tungu sem er flóknasta tungumálið af öllum lifandi germönskum og rómönskum málum. En alveg eins og aðrar marklausar dómsdagsspár um endalok heimsins, þá er íslenzkan ekkert á förum.

Hins vegar mætti verulega bæta ritun (stafsetningu og málfræði) skólabarna, sérstaklega hvað varðar ypsilon. Því að íslenzkan er ekki bara talmál, heldur einnig ritmál, sem er jafn mikilvægt.

Aztec, 2.7.2018 kl. 11:37

2 Smámynd: Aztec

En ég er viss um að margir ESB-sinnar vildu helzt að þýzkan yrðri aðaltungumálið hér á landi í anda foringjans í Berlín, en það er önnur umræða.

Aztec, 2.7.2018 kl. 11:39

3 Smámynd: Hjörtur Herbertsson

Ég er algjörlega sammála Sigurði að íslenskan hverfur með tímanum, hvort heldur það verða 20 ár eða 50 ár. Í dag er svo komið að maður fer ekki inn á þjónustustöðvar svo sem veitingastaði, sjoppur, bensínstöðvar o.s.f.v. öðruvísi en að hitta á erlent starfsfólk sem talar ekki eitt einasta orð í íslensku. Þetta þarf að stöðva, því mín skoðun er sú að starfsfólk á opinberum stöðum eigi að vera skilt að tjá sig á íslensku. Erlent vinnuafl á bara ekki að fá atvinnuleyfi hér, fyrr en það er búið að læra eitthvað í íslensku.

Hjörtur Herbertsson, 2.7.2018 kl. 14:28

4 identicon

Ég á það til að ganga út úr versluninni ef starfsmaðurinn skilur ekki íslensku.

Jóhannes (IP-tala skráð) 2.7.2018 kl. 18:25

5 identicon

Það er allt of mikill kraftur í íslenskum fræðum til að þetta gangi eftir. Þetta er rangt metið með unga fólkið þ.e. Það fær ekki almennilegan áhuga á íslensku fyrr en fólk hefur aldur til. Íslendingar eru mjög "cool," svo svalir að þeir voru á HM. Unga fólkið fattar þetta síðar, enda tungumálið ekki auðvelt svo sem.

Ég held að vandamálið sé kennslan, hún er líklega vanhugsuð. Til viðbótar við að kenna orðin með páfagauksstíl þá þarf að fara meira í uppruna orðanna og samsetningar. Kenna að búa til ný orð til að verði einhver nýsköpun í tungumálinu. 

Þegar ég lærði þetta á sínum tíma þá var þetta kennt eins og þetta væri einkamál/eign einhvers annars. Það gerði það að verkum að áhugi minn vaknaði ekki fyrr en um 25-30 ára aldurinn.

Íslenska er ekki augljóslega svöl fyrir þá yngri, það má laga nokkuð auðveldlega.

Þetta sem margir segja hér um verslanir hefur lítið sem ekkert með þetta að gera. Fólk talar ekki sína bestu íslensku út í búð!

Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 2.7.2018 kl. 19:16

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hefurðu tekið eftir að fólk virðist ekki lengur geta gert greinarmun á samsettum og ósamsettum orðum? Mér finnst það vera sterkasta merkið um að enskan er að ganga af málinu dauðu.

stafsetnign er eitt en orðfæri og orðfærni annað. Ég fæ stundum pósta frá sprengmenntuðum háskölaborgurum sem gætu alveg eins verið frá grunnskólabarni ef maður vissi ekki betur.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.7.2018 kl. 21:07

7 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Íslenska deyr ekki út. Hvaða rugl er þetta eiginlega? Íslenska er töluð á Íslandi. Tungutak og talsmáti mun án efa breytast, hefur ávallt gert, en þarf það að koma einhverjum á óvart? Varla ætlast menn til þess að nútíma Íslendingar tali um aldur og ævi eins og Snorri Sturluson? 

 Tek undir með síðuhafa að þeir sem komnir eru með prófessorstign í Íslensku ættu að vera í fylkingarbrjósti fyrir málið okkar. Móttækilegir fyrir óumflýjanlegum breytingum, en ekki vælukjóar á hliðarlínunni. 

 Hver er tilgangurinn með prófessor í Íslensku, ef hann telur að aðrir eigi að sjá um viðhald Íslenskrar tungu? Prófessor í Íslensku er prófessor í Íslensku og þar með málsvari tungunnar. Að varpa ábyrgðinni á aðra rýrir tignina að stórum hluta.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 3.7.2018 kl. 01:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband