Magn af snjó í klofnu og gyrtu landi með tilliti til veðurfars
28.6.2018 | 08:52
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
Nokkur munur er á því að ganga og labba. Núorðið labba flestir, þó fer engin í labbitúr um labbileiðir og ekki heldur á labbstéttum. Allir labba í göngutúrum um gönguleiðir og einnig á gangstéttum. Mörgum finnst labbitalið hvimleitt.
labba s. (17. öld) rölta, ganga; sbr. nno. labba þramma, sæ. máll. labba ganga þyngslalega, taka e-ð með höndunum.
So. er vísast nafnleidd, sbr. nno. labb fótur, löpp, sæ. labb stór fótur, klunnaleg hönd, fær. labbi fótur, loppa, sbr. einnig fhþ. lappo k. handarflötur, lófi; árarblað.
Af so. labba eru leidd no. labb h. rölt, og labbi k. smásnáði (gæluyrði); fjörulalli; karlmannsnafn (sbr. fsæ. Labbe, en sjá Labbi). Sjá lófi (1), lappa og löpp. malid.is.
1.
Landið klofið með tilliti til veðurs. Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er ein kjánalegast fyrirsögn sem hugsast getur og er hún þó ekki málfræðilega röng. Landið klofnar ekki vegna veðurs, veður er á landinu, ekki í. Hins vegar getur veðrið skipst í tvö horn, jafnvel fleiri enda eru veðursvæðin mörg og ólík. Sagnorðið er ekki rétt valið.
Sé litið til veðurkortsins sem fylgir fréttinni verður ekki sól á austurhlutanum heldur aðeins á norðaustanmegin, það er á aðeins fjórðungi landsins.
Með tilliti til Svona orðasamband er hér og víðar algjörlega gagnslaust og í raun algjörlega máttlaust í skrifum. Miklu betra er að skrifa sig framhjá svona klisjum og reyna að sýna svolítinn ferskleika í stað uppgjafar.
Áður en blaðamaðurinn skilar fyrirsögn þarf hann að huga að því sem verið er að segja. Áherslan á að vera á veðrinu, því er spáð að það verði ekki eins á vesturhlutanum og þeim eystri. Sem sagt, skiptist í tvö horn.
Í vísnaþætti Halldórs Blöndal á bls. 29 í Morgunblaðinu 26-06-2018 er þessi vísa eftir Magnús Geir Guðmundsson:
Nú Sunnlendingum segja ber,
svolítið af standinu.
Rétt sem snöggvast rignir hér,
röngum megin á landinu!
Vissulega má segja að hér sé skemmtilega að orði komist um meintan klofning landsins með tilliti til veðurs, svo gripið sé til málfars blaðamannsins.
Og nú er að spreyta sig og koma með þokkalega tillögu um fyrirsögn.
Tillaga: Sól fyrir norðaustan annars staðar rigning
2.
Maðurinn var svo fluttur í Emstruskála af björgunarsveitarfólki sem gaf honum heitt að borða og drekka.
Úr frétt á visir.is.
Athugasemd: Hjá fréttamiðlinum Vísi sinnir enginn prófarkalestri og kannar gæði frétta fyrir birtingu þeirra. Þar af leiðandi fáum við lesendur afar oft skemmdar fréttir. Matvara má aldrei vera skemmd, um það gilda lög. Hins vegar er öllum sama þó fréttir sé þrælskemmdar og myglaðar.
Í ofangreindri málsgrein er ekki sagt að björgunarsveit hafi flutt manninn í Emstruskála (sem er í svonefndum Botnum), heldur að hann hafi verið fluttur af henni. Röng orðaröð í málsgrein byggir á þolmynd en ekki germynd eins og eðlilegra væri og fyrir það líður fréttin.
Í þessari stuttu frétt segir líka:
Ferðamaðurinn var á göngu á Syðra-Fjallabaki og hafði villst á milli Hvanngils og Emstra.
Þetta getur varla staðist. Emstrur eru landsvæði og ná frá Bláfjallakvísl að Emstruá fremri. Gönguleiðin um Laugaveginn liggur að hluta til um Hvanngil en mynni þess nær að Kaldaklofskvísl, sumir segja að Bláfjallakvísl. Ólíklegt er að einhver hafi villst á þeirri stuttu leið og miklu nær að sá sem skrifaði fréttina þekki ekki til staðhátta. Er þó fréttin komin frá Landsbjörgu og blaðamaður Moggans birtir hana gagnrýnislaust, veit ekkert betur. Þetta var nú útúrdúr um landafræði en ekki málfar.
Ennfremur segir í fréttinni:
Björgunarsveitarfólkið vissi af aðila á vegum Ferðafélags Íslands á svæðinu og bað hann um að keyra slóðann á því svæði sem talið var að maðurinn væri á, en hann hafði tengst farsímasendi og þannig var unnið að því að finna staðsetningu hans.
Þetta er nú meira langlokan. Hver er aðili, var það maður af holdi og blóði, Faxaflóahafnir eða Stjórnarráð Íslands? Spyr sá sem ekki veit.
Auðvitað átti blaðamaðurinn að skipta þessari 42 orða málsgrein og 243 áslátta í tvær eða fleiri. Þá hefði þetta litið svona út:
Björgunarsveitarfólkið vissi af manni á vegum Ferðafélags Íslands á svæðinu. Hann var beðinn um að aka um Emstrur, en þar var talið að ferðamaðurinn væri. Endurvarpsstöðvar farsíma á þessum slóðum höfðu tekið við símtali mannsins og var þannig reynt að finna út staðsetningu hans.
Auðvitað er hægt að gera miklu betur en þetta. Skylda blaðamannsins er að skrifa frétt sem skilst.
Fyrirsögn fréttarinnar er þessi:
Björgunarsveitir aðstoðuðu ferðamann í vandræðum á hálendinu.
Miklu betur fer á því að segja að ferðamaðurinn hafi verið í vandræðum í Emstrum. Hálendið er víðfeðmt en Emstrur miklu minni.
Tillaga: Björgunarsveitarfólkið flutti manninn í Emstruskála í Botnum og gaf honum að heitt að borða og drekka.
3.
Snjókoma og strekkingur er á Fimmvörðuhálsi og nokkuð magn af nýföllnum snjó. Úr frétt á visir.is.
Athugasemd: Ég er að velta því fyrir mér hvort blaðamaðurinn hafi mælt nýfallinn snjó í grömmum, kílóum eða jafnvel tonnum. Úr því að hann er að tala um magn af snjó er brýnt að vita hversu mikið það var.
Í alvöru talað. Kannast einhver við orðasambandið magn af snjó?
Í fréttinni segir ennfremur:
Landsbjörg bendir á mikilvægi þess að fólk sem hugar að ferðalögum á hálendi landsins fylgist með veðurspá og kynni sér aðstæður
Er þetta nú boðlegt hjá Landsbjörgu eða Mogganum. Hrikalega stirt stofnanamál. Fyrir hverja er verið að skrifa? Ráðuneytisstjóra? Af hverju ekki svona:
Mikilvægt er að fólk á ferð um hálendið fylgist með veðurspá og kynni sér aðstæður og hafi góðan útbúnað meðferðis
Í tilvitnuninni er ekki orð um útbúnað. Skrýtið.
Loks skal hér getið um enn eitt ruglið í fréttinni:
Göngumaðurinn er örmagna en heldur kyrru fyrir við ákveðna stiku og talið er að hann finnist fljótlega.
Svo vill nú til að sá sem hér skrifar tók þátt í að stika gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls, að minnsta kosti að hluta. Engin stika er númeruð og þær eru ótalmargar. Sé ferðamaðurinn við ákveðna stiku getur það eflaust átt við alla 1231 eða hvað þær eru nú margar. Þó er gott að vita að hann er á gönguleiðinni nema því aðeins að stikan hafi fokið og hann sé einhver staðar vestan við gönguleiðina og bíði þar til eilífðarnóns. Með stikuna í fanginu, járn-, plast- eða tréstiku Verst væri þó ef stikan væri óákveðin!
Ekki aðeins blaðamönnum Moggans er veitt opin heimild til að skrifa tómt bull í fréttadálka og víðar. Engum er bent, ekkert er kennt. Þar eru framin skemmdarverk á íslensku máli.
Tillaga: Björgunarsveitarfólkið flutti manninn í Emstruskála í Botnum og gaf honum að heitt að borða og drekka.
4.
Gyrtu sig af frá ferðamönnum á Látrabjargi. Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Þessi fyrirsögn og fréttin sjálf ollu mér heilabrotum. Og þegar ég er ekki viss þá leita ég í málfarsbankann, malid.is. þar segir á einfaldlega:
Athuga að rugla ekki saman sögnunum gyrða og girða.
- Sögnin gyrða merkir: spenna belti eða ól um.
- Sögnin girða merkir: gera girðingu eða garð.
Þarna fékk ég staðfestingu á því sem ég hélt. Fréttin segir frá rannsóknum vísindamanna á fuglum í Látrabjargi. Þeir (vísindamennirnir, ekki fuglarnir) fengu ekki frið í störfum sínum vegna forvitni ferðamanna. Svo mikill var ágangurinn að vísindamennirnir þeir girtu rannsóknarsvæði sitt svo þeir fengju frið.
Hins vegar gyrtu þeir sig ekki, og allra síst í brók, nema hugsanlega í óeiginlegri merkingu, þegar allar aðrar bjargir voru bannaðar.
Ég er ekki alveg sáttur við orðalagið að vísindamennirnir hafi girt sig af. Sögnin að girða felur það óhjákvæmilega í sér að þeir sem eru innan girðingar blandist ekki við þá sem eru utan hennar.
Líklega fer betur á því að segja það sem fram kemur í tillögunni hér fyrir neðan (hún er þó rækilega ofstuðluð, sem líklega gerir ekkert til).
Lokaorð: Ekki veit ég hvernig vinnubrögðin eru á Mogganum. Ég sendi í gærkvöldi blaðamanninum sem skrifað fréttina stutta ábendingu, raunar ekkert annað en það sem segir hér að ofan og er fengið frá malid.is. Ekkert svar hefur borist. Hins vegar var fréttin lagfærð níu klukkustundum síðar og nú er stendur skrifað girt í stað gyrt.
Tillaga: Settu upp girðingu til að fá frið fyrir ferðamönnum.
5.
Þorleifur ásamt íbúa Norður-Kóreu. Í bakgrunni má sjá akur þar sem ræktun fer fram. Myndatexti á bls. 24 í Morgunblaðinu 28.06.2018.
Athugasemd: Vart er hægt að hugsa sér akur á annan hátt en að þar sé eitthvað matarkyns ræktað. Takið eftir, þar er ræktað miklu eðlilegra orðalag á íslensku en að þar fari ræktun fram.
Ræktun er nafnorð en sagnorðið er að rækta. Íslenska byggir á sagnorðum en þeir sem hafa slaka hugsun eða minni þekkingu og ætla sér að vinna sig í álit skrifa svokallaðan nafnorðastíl. Hann virðist oft formlegri og svona stofnanalegri en er einfaldlega stirðbusalegur og uppfullur af tilgerð.
Annars staðar í sömu grein stendur skrifað:
Að sögn Þorleifs voru leiðsögumenn hópsins í Norður-Kóreu afar hjálpsamir og reyndu hvað þeir gátu að láta óskir ferðamanna verða að veruleika.
Hér kemur enn eitt tilbrigðið um nafnorðastílinn. Yfirleitt fer betur á því að uppfylla óskir en reyna að láta þær verða að veruleika. Hægt er að gera fleiri athugasemdir við málfar og orðanotkun í greininni.
Hér er áhugaverð tenging við það sem á undan hefur verið sagt:
Sagnorð gegna mikilvægu hlutverki í tungumálum. Á það við um íslensku ekki síður en önnur mál. Sagnir eru þó missterkar. Því er mikilvægt að huga vel að vali þeirra þegar við viljum orða hugsanir okkar á áhrifamikinn hátt.
Sumir telja að sagnorð séu á undanhaldi í máli manna. Fólk hneigist þá til að skeyta saman nafnorði og merkingarlítilli sögn, svokallaðri hækju, fremur en að nota eitt kjarngott sagnorð til að tjá hugsunina. Textinn lengist við þetta og við segjum það sama af minni krafti. Málið missir bæði hraða og hnitmiðun. Það er ekki til bóta.
Með þessu er þó ekki sagt að aldrei eigi að nota merkingarlitlar sagnir og nafnorðastíl. Hins vegar má fullyrða að sagnorðastíllinn sé yfirleitt æskilegri.
Skoðum eftirfarandi dæmi
Sagnorðastíll: Stofnunin kallaði Íbúum hefur fjölgað Varan batnaði
Nafnorðastíll, hækjur: Stofnunin gerði könnun á Íbúafjöldi hefur vaxið Gæði vörunnar jukust
Þetta er úr vefnum Málgagnið, en þar er fjallað á einfaldan hátt um íslenskt mál.
Tillaga: Þorleifur ásamt íbúa Norður-Kóreu. Í bakgrunni má sjá akur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:09 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.