Margir halda með landsliðinu en er hægt að halda á móti því?

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Gott mál

Íslenskan virðist hægt og bítandi vera að renna saman við hið alltumlykjandi tungumál ensku og æ oftar verður maður var við að fólk gerir ekki greinarmun á ensku orðalagi og íslensku. Fólk „tekur“ sturtu, svo dæmi sé tekið og fátt er eins óþolandi og þegar afgreiðslufólk segir „eigðu góðan dag“ í stað þess að segja einfaldlega „njóttu dagsins“ eða „hafðu það gott í dag“.

Úr pistlinum Ljósvakinn á bls. 34 í Morgunblaðinu 5. júní 2018. Höfundur er Helgi Snær Sigurðsson.

 

1.

„Halldór Orri Björnsson skoraði eina mark leiksins á 19. mínútu eftir að varnarmenn KA voru of lengi að stíga út á móti honum. Í raun hefði mátt flauta leikinn af þarna, enda fátt markvert sem gerðist eftir þetta.“ 

Úr frétt á bls. í íþróttblaði Morgunblaðsins 1. júní 2018.      

Athugasemd: Margir blanda sama tíðum sagnorða, þar á meðal ég. Í tilvitnuninni er sagt frá fótboltaleik sem er afstaðinn. Maður skoraði mark, greinileg þátíð. Varnarmennirnir „voru of lengi að stíga fram“, og þarna er sögnin í nafnhætti, sem auðvitað er ekki rangt.

Lítum aðeins nánar á þetta. Maðurinn skoraði af því að varnarmennirnir stigu ekki ekki nógu fljótt fram, vörðust illa eða voru of seinir. Hér eru sagnirnar í þátíð og því meira samræmi í frásögninni, sjá líka tillöguna hér fyrir neðan. Vont er ef skrifarar villast í tíðum svo úr verður barnsleg frásögn í þátíð og nafnhætti. Hér er ýkt dæmi tíðarvillu sagna. 

Jón kemur og vann til fjögur og fer þá og sést ekki meir.

Betra er að orða þetta svona: Jón kom, vann til fjögur, fór þá og sást ekki meir.

Stíll er gríðarlega mikilvægur svo skrif verði áhugaverð og þægileg aflestrar. Margs ber að gæta sem ekki liggur í augum uppi en sem betur fer er málið svo fjölbreytt að hver og einn getur mótað sinn eigin stíl, sé þekking og vilji til þess. Stílleysi er hræðileg algengt í blaðmennsku.

Að lokum má benda á ofnotkun ábendingarfornafna, vandi sem ég á oft í erfiðleikum með. Þau hafa oft ekkert gildi, skemma bara fyrir. Þar að auki eru þau oft rangt staðsett. Berum til dæmis saman tilvitnunina og tillöguna hér að neðan.

Af lestri greinarinnar virðist þó að ýmislegt markvert hafi gerst eftir að FH skoraði. Í fréttinni er sagt frá stórleik varnarmanns sem átti alls kostar við framherja KA, raunar svo að ástæða var til að geta um frammistöðu hans í fyrirsögn.

Tillaga: Halldór Orri Björnsson skoraði eina mark leiksins á nítjándu mínútu eftir seinagang varnarmana KA. Eftir markið hefði mátt flauta leikinn af enda gerðist fátt markvert það sem eftir lifði leiks.

2.

„Melania Trump fylgir eiginmanninum ekki á leiðtogafundina.“ 

Fyrirsögn á visir.is.      

Athugasemd: Orðaröð í íslensku fer oft eftir smekk þess sem skrifar og ekkert við því að gera nema þegar hún fer í bága við málkennd lesandans. 

Mér finnst ofangreind fyrirsögn ekki góð og vil hafa atviksorðið ekki á eftir sögninni. Þetta kann þó að fara eftir smekk hvers og eins

Tillaga: Melania Trump fylgir ekki eiginmanninum á leiðtogafundina.

 

3.

„Það er aðeins einn stuðningsmaður sem segist halda á móti Íslandi og það er Hollendingurinn.“ 

Úr frétt á visir.is.      

Athugasemd: Skringileg málsgrein. Hún ber blaðamanninum sem skrifaði ekki vel söguna. Sá er ekki stuðningsmaður íslenska landsliðsins sem heldur ekki með því, svo einfalt er það.

Ég held með Íslandi, segir einhver, en er hægt að „halda á móti íslenska liðinu“. Er þá ekki morgunljóst að hann heldur ekki með íslenska liðinu.

Til er orðasambandið að halda á móti. Þá er merkingin sú að styðja við, til dæmis að eitthvað falli ekki. Dæmi, ég held á móti svo bíllinn renni ekki niður brekkuna meðan þú setur hann í handbremsu.

Niðurstaðan er að þetta er barnamál, málfar sem spunnið er upp af þeim sem hefur ekki þekkingu á íslensku máli, er með takmaraðan orðaforða. Verst er þó að enginn les yfir hjá Vísi, enginn leiðbeinir blaðamanninum. Og hvernig á hann þá að geta bætt sig?

Annars er hér ágætt tækifæri til að upplýsa um leyndarmál. Þeir sem byrja  setningar eða málsgreinar á aukafrumlagi, til dæmis „það er …“ eru yfirleitt ekki góðir í skrifum. Nánar um þetta aukafrumlag sem oft er nefndur leiðindaleppur, sjá hér.

Tillaga: Aðeins einn segist ekki halda með Íslandi og það er Hollendingurinn.

4.

„Félagar hennar sendu frá sér neyðaróp eftir að konan slasaðist.“ 

Úr frétt á bls. 15 í Morgunblaðinu 6. júní 2018     

Athugasemd: Má vera að enginn munur sé á neyðarkalli eða neyðarópi. Hins vegar er löng hefð fyrir því að þegar haft er samband í gegnum talstöð er það nefnt kall, nafnorð dregið af sögninni að kalla. Þannig var það fyrir tíma gsm síma, stærri skip voru með loftskeytamenn, jafnvel flugvélar. Síðar komu talstöðvar í bíla og þá var sagt: Gufunes, Gufunes, R1456 kallar.

Í einhverjum hálfkæringi segir blaðamaður Morgunblaðsins að félagar konu sem slasaðist á norðanverðu hálendinu hafi sent frá sér neyðaróp. „Ó, gvöð“, gætu þeir hafa hrópað upp yfir sig er konan meiddi sig. Björgnarsveitir í Eyjafirði kunna að hafa haft opinn glugga, heyrt ópið og runnið á hljóðið og komið blesssaðri konunni undir læknishendur.

Hvað veit ég svo sem. Ég er bara lesandi og furða mig oft á Mogganum. Þar með er ekki sagt að ég geti ekki haft gaman af tilraunum blaðamanna til að þróa málið. Held samt að um ófyrirsjáanlega framtíð muni neyðarkall verða ráðandi og neyðaróp verði áfram haft um afmarkaðri hluti. Líklega fer best á því svo lesendur skilji við hvað er á sem raunar ætti að vera markmið ritstjórnarinnar. Því miður stendur hún ekki alltaf undir ábyrgð sinni.

Tillaga: Félagar konunnar sendu frá sér neyðarkall eftir að hún slasaðist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Frábær pistill sem endranær. Tók strax eftir að "halda á móti.." og fannst að nú væri nóg komið. - Takk fyrir, aftur, og haltu endilega áfram þessum ágætu ádrepum og tillögum til bóta.

Már Elíson, 7.6.2018 kl. 23:17

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þakka þér Már. Vantar samt rökræðu og tillögur, veit að það sem er hér nefnt er ekki algildur sannleikur heldur aðeins vangaveltur mínar.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.6.2018 kl. 10:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband