Börn öfgavædd og Birgitta bakar lag en ekki köku
12.4.2018 | 12:19
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum:
1.
Það er skrítið að vera í þessu þegar maður er búinn með sex ára háskólanám í tannlækningum sem borga vel.
Úr frétt á visir.is.
Athugasemd: Hvað borga tannlækningar? Blaðamaðurinn er líklega þarna að þýða enska orðatiltækið It pays well en ferst það frekar óhönduglega vegna þess að íslenskan viðurkennir ekki þessa þýðingu, hún verður einfaldlega asnaleg.
Byggi blaðamaðurinn yfir drjúgum orðaforða eftir að hafa stundað bóka- og blaðalestur frá barnæsku ætti honum að vera auðvelt að þýða á góða íslensku. Jafnframt vissi hann að bein þýðing gengur oft ekki upp. Slíkar eru oft kenndar við Google-Translate og þykja ekki merkilegar.
It's strange to be in this when you have a six-year university study in dentistry that is paying well.
Þannig þýðir Google-Translate ofangreinda tilvitnun og gerir það bara býsna vel.
Tillaga: Það er skrýtið að vera í þessu eftir sex ára háskólanám í tannlækningum sem er ábatasamt nám.
2.
hafi hann haft aðgang að 110 börnum á aldrinum ellefu til fjórtán ára. Talið er að honum hafi tekist að öfgavæða einhver þeirra.
Úr frétt á visir.is.
Athugasemd: Held að blaðamaðurinn sem skrifaði þessa grein hafi verið furðuvæddur eða þá að hann hafi verið vitleysisvæddur. Ofangreint meikar ekki sens, svo gripið sé til enskuvæðingar á íslenskri tungu.
Tillaga: Talið er að hann hafi innrætt sumum börnunum öfgafullar skoðanir.
3.
Zlatan Ibrahimovic var að eiga hreint út sagt ótrúlega frumraun með LA Galaxy
Úr frétt á mbl.is.
Athugasemd: Blaðamaðurinn skrifar um það sem þegar hefur gerst. Í flestum tungumálum er slíkt nefnd þátíð og hún er bara ansi góð til síns brúks. Þar með hefði hann einfaldlega getað skrifað eins og hér er gerð tillaga um og er miklu, miklu betra og skýrara.
Tillaga: Zlatan Ibrahimovic átti hreint út sagt ótrúlega frumraun með LA Galaxy
4.
Erkifjendurnir frá Los Angeles komust í 3:0-forystu áður en heimamenn klóruðu í bakkann eftir klukkutíma leik og þá steig Svíinn á stokk af varamannabekknum.
Úr frétt á mbl.is.
Athugasemd: Skelfing er að þurfa að lesa svona þvælu um fótboltaleik. Svíinn sem um er rætt, Zlatan Ibrahimovic, steig ekkert á stokk. Slíkt gerir enginn í íþróttaleik. Maðurinn var varamaður og gekk eða hljóp inn á völlinn og gjörbreytti gangi mál fyrir liðið sitt.
Íþróttablaðamenn eiga að skrifa um það sem hefur gerst án alls skrauts. Sé ætlunin að nota orðatiltæki eða málshætti er krafan sú að það sé gert rétt. Höfundur fréttarinnar gjörsamlega klúðrar henni með of langri málsgrein og orðatiltækjum sem passa ekki nokkurn skapaðan hlut inn í frásögnina. Stíga á stokk af varamannabekk, þvílíkt bull.
Hér er ekki allt upptalið í frétt sem er aðeins þrettán línur. Svíinn skorði mark á einhverjum 36 metrum, segir í fréttinni. Hvaða á höfundurinn við með þessu? Leiki einhver vafi á vegalengdinni hefði mátt nota fjölda annarra orða, til dæmis um, á að giska eða álíka.
Tillaga: Erkifjendurnir frá Los Angeles skoruðu þrjú mörk áður en Svíinn kom inn á sem varamaður og snéri leiknum algjörlega við.
5.
Krakkarnir mínir eru í Skíðaskólanum í Bláfjöllum og ég krosslegg fingur að þau séu að skemmta sér.
Úr frétt/pistli á visir.is.
Athugasemd: Þessi málsgrein segir ekki fulla sögu vegna þess að í hana vantar sagnorð. Ekki er hægt að segja krosslegg fingur að þau séu .
Blaðamaðurinn hlýtur að hafa krosslagt fingur og vonað að börnin skemmti sér. Raunar er algjör óþarfi að krossleggja fingur af þessu tilefni, vonin dugar, hjátrúin gerir ekkert, ekki einu sinni fyrir stílinn. Vanur blaðmaður er hér staðinn að rugli.
Tillaga: Krakkarnir mínir eru í Skíðaskólanum í Bláfjöllum og ég vona að þau skemmti sér vel.
6.
Enginn sjúkrabíll hefur verið á vakt á Ólafsfirði frá því í fyrrasumar.
Úr frétt í 10 fréttum Ríkissjónvarpsins 3. apríl 2018.
Athugasemd: Bregður nú nýrra við þegar bílar stunda vaktavinnu. Flestir hefðu talið að slík tæki gætu ekki brugðist við nema þeim væri stjórnað af fólki.
Má þó vera að hægt sé að taka svona til orða, þó það stingi örlítið í augun. Að minnsta kosti er sagt: Bíll ók á ljósastaur, sjúkrabíll sótti slasaðan mann og flugvélin lenti á túninu. Engum dettur í hug að þessi tæki hafi verið sjálfvirk og mannshönd hvergi komið nærri.
Betra er þó að blaðamenn hafi blæbrigði málsins í huga en skrifi ekki án hugsunar og gæti jafnframt að stíl. Svo skaðar ekki að lesa yfir eða láta lesa yfir.
Tillaga: Enginn sjúkrabíll tiltækur í neyðartilvikum á Ólafsfirði.
7.
Gylfi Zoëga, meðlimur í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands og prófessor í hagfræði, hafði tvisvar á liðnu ári kosið að vextir yrðu lækkaðir meira en tillaga seðlabankastjóra hljóðaði.
Úr frétt á bls. 23 í Morgunblaðinu 7. apríl 2018.
Athugasemd: Af tvennu illu er betra að nota hið ófríða nafnorð meðlimur en hið útjaskaða og ljóta nafnorð aðili um manninn sem situr í nefnd. Hið fyrrnefnda er samt ferlega asnalegt í þessu samhengi.
Væri peningastefnunefndin hljómsveit eða Lionsklúbbur væri líklega réttlætanlegt að halda því fram að maðurinn væri meðlimur. Maður sem situr í nefnd er varla meðlimur, miklu frekar Tja, hvað skal segja?
Þeir sem skrifa mikið lenda ósjaldan úti í horni og komast ekkert áfram. Þá er um að gera að endurskrifa. Allt annað er þrákelni og vitleysa, það er að segja beri skrifarinn skynbragð á iðn sína.
Að öðru leyti er þessi málsgrein tóm tjara. Venjan er sú að á eftir nafni manns kemur titill hans, þessu næst má nefna að hann sé í peningastefnunefnd eða fótboltaliði.
Svo er það þetta með tillögu seðlabankastjóra sem hljóðaði ...
Í lok málsgreinarinnar er höfundur kominn út í horn, skilur ekki skrif sín, og lýkur við þau á ófullnægjandi hátt.
Berum nú saman ofangreinda tilvitnun úr Mogganum og tillöguna hér fyrir neðan. Held því fram að tillagan sé ólíkt rismeiri.
Tillaga: Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði, sem situr í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, vildi tvisvar á síðasta ári til að vextir yrðu lækkaðir meira en seðlabankastjóri lagði til.
8.
Segjum bless við veturinn og nei takk við svifrykið. Tökum nagladekkin úr umferð 15. apríl.
Texti á Facebook undir nafni Eykjavíkurborgar.
Athugasemd: Frekar er þetta nú barnalegur texti. Hvenær var hætt að nota sögnina að kveðja og taka um rassböguna segja bless í ofangreindu samhengi.
Undirritaður og fjöldi annarra vill ekkert með svifrykið hafa en fær engu um það ráðið. Reykjavíkurborg hefur mörg ráð til að draga úr því allt árið um kring en máttleysi hennar er í þessum málum er sárgrætilegt.
Hins vegar getur Reykjavíkurborg gert þá kröfu til þeirra sem senda út tilkynningar á hennar vegum að þeir geri það sómasamlega.
Tillaga: Kveðjum veturinn og losum okkur við svifrykið. Tökum nagladekkin úr umferð fyrir 15. apríl.
9.
Láttu freistinguna eftir þér.
Úr auglýsingu sem hljómaði á Stöð2 fyrir kvöldfréttir 7. apríl 2018.
Athugasemd: Hvað merkir orðið freisting? Líklega er uppruninn eitthvað sem laðar að en er þó rangt að falla fyrir. Suma freistar eitthvað sem þeir hafa ekki efni á og þá er hluturinn tekinn traustataki, honum stolið. Freistandi er að kaupa sælgæti en þau getur verið óholl fyrir marga.
Oft fellur maður í freistni, það er líklega ekki gott. Í stað þess að láta freistinguna eftir sér er einfaldara að standast hana. Hins vegar er margt sem hægt er að láta eftir sér án þess að maður falli í freistni.
Fólkið sem samdi auglýsinguna með ofangreindri tilvitnun er líklega að rugla þessu tvennu saman, að láta eitthvað eftir sér og freistast. Á þessu tvennu er talsverður munur að mati þess sem hér ritar. Skárra hefði verið að segja og skrifa: Láttu freistast.
Vonandi misheyrði undirritaður ekki auglýsinguna. Í minninu hljómar tilvitnunin svona. Láttu freistinguna á eftir þér. Það hefði nú verið ljót ruglið.
Tillaga: Láttu þetta eftir þér
10.
Öskrandi kettir forðuðu stórbruna.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Fyrirsögnin er beinlínis um að stórbrunanum hafi verið forðað og líklegt að kettirnir hafi bjargað honum. Hægt er að forða manni frá slysi eða forða einhverjum frá illum örlögum. Hins vegar forðar enginn stórbruna eða slysi enda er það ekki vinnandi vegur og því tómt rugl.
Sagnorðið að forða merkir að koma einhverju undan, koma í veg fyrir eitthvað eða álíka.
Blaðamaðurinn sem skrifaði fyrirsögnina skilur ekki þetta sagnorð og það sem verra er misnotar það. Fátt er lakara en rithaltur blaðamaður.
Tillaga: Öskrandi kettir komu í veg fyrir stórbruna.
11.
Birgitta og Vignir baka nýtt lag með Írafár.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Hvað þýðir að baka lag? Er verið að baka lagskipta köku? Nei, þau tvö eru í hljóðveri að semja eða taka upp lag. Hins vegar er algjörlega út í hött að breyta tungumálinu á þann hátt að misnota sögnina að baka og láta hana merkja að semja tónlist eða taka upp tónlist. Ekki þarf að fara í hljóðver til að baka köku, eldhúsið dugar. Hafi þau verið að semja eða taka upp lag, hvers vegna er það þá ekki sagt? Hvers vegna var orðið sögnin að baka notuð, af hverju ekki að frysta eða gubba ...?
Svo er það fallbeygingin. Blaðamaðurinn talar um nýtt lag með Írafár, ekki Írafári. Þetta er fyrirsögn á visir.is. Hvort skyldi hann baka fréttir á Vísir eða Vísi (varla Vísiri)? Ritari þessara orða var forðum daga blaðamaður á Vísi og skrifaði fréttir í Vísir.
Tillaga: Öskrandi kettir komu í veg fyrir stórbruna.
12.
Ribery framlengi við Bæjara.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Ribery er franskur fótboltamaður sem hefur þegar framlengt samning við fótboltafélagið Bayern München. Engu að síður er notaður viðtengingarháttur í fyrirsögninni, rétt eins og verið sé að skora á fótboltamanninn að endurnýja samning sinn.
Vonandi hefur aðeins einn stafur fallið niður í orðinu. Þess ber þó að geta að margir blaðamenn hafa átt í erfiðleikum með viðtengingarhátt og misbeitt honum illilega.
Tillaga: Ribery framlengdi við Bæjara.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:30 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.