Ohmæ gawd, líkamsleifar á Faxaflóa og menn hólkast upp

1.

„Kominn tími til þess að það taki allir af­stöðu til þess hvort þeir treysti dóms­mála­ráð­herra eða ekki.“ 

Fyrirsögn á visir.is.     

Athugasemd: Blaðamenn á visir.is og Fréttablaðinu eru frekar slakir í gerð fyrirsagna. Þær eru oft alltof langar og efnislega rýrar. Þessi fyrirsögn fer varla í úrvalsflokk því hún er of löng og stirð.

Orðin eru höfð eftir viðmælanda vefsins. Mjög einfalt er að laga hana, fækka orðum og þar með flækjustiginu. Þá myndi hún vera eitthvað á þessa leið: Kominn tími til að kanna hvort þingmenn treysti dómsmálaráðherra? Þessi tillaga er ekki nógu góð og hægt að gera hana mun betri jog jafnvel hafa hana innan gæsalappa því efnislega er þetta það sem viðmælandinn segir.

Tillaga: Treysta þingmenn dómsmálaráðherra? 

 

2.

„Kis­urn­ar trekkja að á kaffi­húsið.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.     

Athugasemd: Einhvern veginn er fyrirsögnin frekar stirðbusaleg, má þó vera að hún sé málfræðilega rétt. Þó má velta fyrir sér hvort ekki hefði verið hægt að nota annað orð en þessa mislyndu sögn „að trekkja“. Hún 

Tillaga: Kisurnar laða gesti að kaffihúsinu.

 

3.

„Ragnarök Fram.“ 

Fyrirsögn á bls. 4 í Íþróttablaði Morgunblaðsins 12. mars 2018    

Athugasemd: Íþróttablaðamenn Moggans eru ekki allir jafngóðir að semja fyrirsagnir. Nú bregður svo við að þegar Fram tapar í illa í handbolta gegn ÍBV er samin ágætis fyrirsögn. Líklega má jafna átta marka tap í úrslitaleik við ragnarök. Af mikilli hugarleikfimi fellir blaðamaðurinn nafn eins leikmans, Agnars, inn í orðið „ragnarök“ og ritar það með rauðu. Þar bregst honum bogalistin. 

Doldið fyndið, það verður að viðurkennast en blaðamaðurinn skilur ekki orðið ragnarök né hvernig það er myndað. Orðið er tvískipt, annars vegar er það „regin“ og hins vegar „rök“. Merkingin er dauði guðanna í ásatrú, heimsendir, sem lýsir vel niðurlægjandi tapi Frammara. Kosturinn við fyrirsögnina er að blaðamaðurinn getur endurnýtt hana þegar einhver Ragnar stendur sig vel. Þegar hluti orðisins er ritaður með rauðu verða afgangarnir tóm vitleysa, eitt R og svo ök sem má leggja saman, en þannig leik á ekki að stunda á fjölmiðlum. Hlutverk þeirra er að segja fréttir á einfaldan og skýran hátt. Sú er bogalistin.

Mesta slysahættan á ritstjórnarskrifstofum er í fyrirsögnum. Fyrirsagnagerð krefst langrar þjálfunar og mikillar málþekkingar. Svo fá orð eru í fyrirsögnum, að þau geta óvart gefið ranga mynd af innihaldi fréttar. Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri.

Margir munu ábyggilega halda því fram að rauða innskotið með nafni leikmannsins ekki eiga heima þarna. Sá sem þetta ritar var lengi að átta sig á beyglunni, las „rök Fram“ og skildi ekkert. Þar með sannast það sem Jónas segir í tilvitnunni hér að ofan að fá orð í fyrirsögn geta óvart gefið ranga mynd af innihaldi fréttar.

Tillaga: Ragnarök Frammara [svart á hvítu].

 

4.

„Brian Cox vinnur að þætti um Mars á Ísland. “ 

Fyrirsögn visir.is.   

Athugasemd: Orðaröð skiptir gríðarlega miklu máli í töluðu og rituðu máli. Í ofangreindri fyrirsögn mætti halda að Mars væri fyrirtæki á Íslandi og það sé verkefnið.

Fyrir nokkrum árum birtist þessi fyrirsögn í einhverjum fjölmiðli: 

Jón Gnarr breytir nafni sínu í Huston.

Allir vita hver Jón Gnarr er og hafði hann fram að þessu borið nafn sitt með stolti. Mér fannst þó hálfskrýtið að hann vildi framvegis heita Huston. Auðvitað kom í ljós við lestur fréttarinnar að maðurinn ætlaði ekki að heita Huston heldur væri hann að breyta nafni sínu í borginni Huston í Texas. Óneitanlega má skilja fyrirsögnina á tvo vegu.

Tillaga: Brian Cox gerir þætti á Ísland um Mars.

 

5.

„Fyrir 4 klukkutímum síðan: Þakklátur að geta borgað allar skuldirnar “ 

Fyrirsögn forsíðu dv.is.     

Athugasemd: Vefsíðan dv.is hefur fengið nýtt útlit og því fylgir að í yfirfyrirsögn með hverri frétt er sagt hversu langt er síðan fréttin var birt. Þar klikkar ritstjórnin á málfræðinni. Vefsíðan hefur raunar aldrei verið þekkt fyrir að rita fréttir sínar á góðri íslensku.

Síðan“ er atviksorð og er hér vegna þekkingaskorts.Tökum hér lítið dæmi um notkun atviksorðsins.

Þegar tveir hittast sem hafa ekki sést lengi segir annar: Mikið er langt síðan ég hef séð þig. 

Hinn svarar: Já, nú eru ábyggilega tvö ár síðan.

Sá fyrri bætir við: Fyrir tveimur árum hittumst við á Akureyri [Takið eftir að hér er ekkert „síðan“].

Berum þetta saman og síðan við fyrirsögnina. Þá kemur berlega í ljóst að atviksorðinu „síðan“ er ofaukið. Hjálpar ekkert, er bara óþarfi. Engu að síður afar mikið notað, misnotað.

Tillaga: Fyrir 4 klukktímum: Þakkátur að geta borgað allar skuldirnar.

 

6.

„Ekki þarf að bregða sér lengra en inn á Twitter til að sjá að íslenskir íþróttaáhuga- menn hólkast upp við endurkomu Tigers Woods og eyða nú kvöldunum fyrir framan skjáinn.“ 

Úr dálkinum Ljósvakinn á bls. 30 í Morgunblaðinu 19. mars 2018.     

Athugasemd: Ljósvakinn í Mogganum er oft skemmtilegur og fróðlegur. Blaðamenn Morgunblaðsins skiptast á að skrifa í hann hugleiðingar um Sjónvarp. Oft er farið víða um völl í stuttu máli og sitt sýnist hverjum.

Ekki veit ég hvað orðasambandið að hólkast upp þýðir í þessu sambandi og því fletti ég í vefsíðunni malid.is. Þar er er þetta sagt: „vera óklæðilega víður (um flík)“. Þar af leiðandi er ég engu nær um hvað blaðamaðurinn á við, er hann þó yfirleitt ágætlega máli farinn. Þetta virkar samt einhvern veginn sem déskoti töff talsmáti …

Tillaga: Ekki þarf að bregða sér lengra en inn á Twitter til að sjá að íslenskir íþróttaáhugamenn eru fullir eftivæntingar vegna endurkomu Tigers Woods og eyða nú kvöldunum fyrir framan skjáinn.

 

7.

„Heils­ustaður­inn Yoga­food hef­ur lokað á Grens­ás­vegi.“ 

Frétt á mbl.is.      

Athugasemd:  Þetta er hrikalega ljót villa vegna þess að heilsustaðurinn hefur ekki lokað neinu, hann getur það ekki. Þess í stað hefur honum verið lokað, líklega hefur eigandinn gert það.

Blaða- og fréttamenn eiga óskaplega erfitt með að átta sig á því að almennt framkvæma dauðir hlutir ekki neitt, lifandi fólk gerir það hins vegar. Hús geta ekki opnað eða lokað, hreyft við dyrum eða lagt niður rekstur.

Víða opnast dyr þegar skynjari verður var við hreyfingu í nánd. Ofmælt er að segja að húsið hafi opnað. Þegar rekstri hefur verið hætt er húsnæðinu lokað þar sem hann var starfræktur.

Tillaga: Heilsustaðnum Yogafood á Grensásvegi hefur verið lokað.

 

8.

„Bylgja Guðjónsdóttir hafði ekki hreyft sig í að ganga þrjú ár, vegna taugaáfalls sem hún varð fyrir.“ 

Frétt á vefritinu bleikt.pressan.is.       

Athugasemd: Þvílíkt bull sem er hér birt. Vonandi er tilvitnunin lélegum prófarkalestri að kenna frekar en að blaðamaðurinn sé svona hræðilega illa skrifandi. 

Síðar í sömu grein segir: 

Bylgja segir að upphafið á hreyfingu hennar hafi byrjað á Yoga námskeiði sem hún var í í 6 vikur.

Takið eftir tveimur forsetningum hlið við hlið í lok málsgreinarinnar; „… sem hún var í í 6 vikur.“ Svona gerir enginn sem er vanur skriftum. Og svo þetta: „upphafið á hreyfngu hennar“. Ekki stendur steinn yfir steini hjá blessuðum blaðamanninum. Trúir einhver því að Bylgja hafi ekki hreyft sig í þrjú ár? Blaðamaðurinn bullar.

Tillaga: Bylgja Guðjónsdóttir hafði ekki hreyft sig né gengið í þrjú ár vegna taugaáfalls sem hún varð fyrir.

 

9.

„Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu hef­ur til rann­sókn­ar lík­ams­leif­ar sem fund­ust á Faxa­flóa ný­verið …“ 

Úr frétt á mbl.is.        

Athugasemd: Faxaflói er hafsvæði og hvort sem eitthvað finnst fljótandi eða sokkið í sjó þá er jafnan notuð forsetningin „í“, ekki „á“. Í fréttinni sjálfri er hvort tveggja notað. Í myndatextanum er sagt „í Faxaflóa“.

Í annarri frétt á sömu vefsíðu er sagt að líkamsleifar hafi fundist „við Snæfellsnes“ jafnvel þó fram komi að þær hafi fundist á 120 metra dýpi í Faxaflóa.

Varla er til nein regla um þetta. Hins vegar eru skip oft á siglingu eða veiðum við Snæfellsnes. Kafbátar kunna að vera á ferðinni í Faxaflóa og skipsflök og ýmislegt annað kann að finnast á botni Faxaflóa. Mogginn þarf endilega að samræma fréttaflutning. 

Flóabardagi er sagður hafa verið háður árið 1244. Viðbúið er að einhverjir hafi þá hrokkið útbyrðis og drukknað. Sokkið í Húnaflóa. Hvíli nú í votri gröf í Húnaflóa.

Í gamla daga sagði íslenskukennarinn að það væri illskárra að gera alltaf sömu villuna heldur en að vera svona ýmist eða.

Tillaga: Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu hef­ur til rann­sókn­ar líkams­leif­ar sem fund­ust í Faxa­flóa ný­verið …

 

10.

„Vísir greindi frá viðbrögðum Páls vegna pistilsins, og í gærkvöldi tjáði svo Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, annar ritstjóra Stundarinnar, um fúkyrðaflaum sem dunið hefur á Stundinni, meðal annars á vegg Páls.“ 

Úr frétt á visir.is.       

Athugasemd: Prófarkalesturinn á visir.is er ekki lagi, líklega er hann enginn. Reyndur blaðamaður sem skrifar fréttina las ekki lesið yfir eða honum hefur yfirsést.

Í stuttu máli vantar afturbeygða fornafnið í þessa löngu málsgrein. Fyrir vikið er málsgreinin hálf hölt. Jónas Kristjánsson, fyrrum ritstjóri, hvetur blaðamenn til að skrifa stuttar málsgreinar, setja punkt sem oftast. 

Blaðamanni liggur svo mikið á að hann virðist engu skeyta um stíl. Punkt notar hann sparlega. Hann setur inn leiðinlegan hortitt, atviksorðið „svo“ sem þarna á ekkert erindi. Ótrúleg nástaða verður til, nafn fjölmiðilsins er tvítekið sem er óþarfi.

Blaðamenn eiga að vanda sig, lesa yfir og vera gagnrýnir á eigin skrif. Halda mætti að þessi blaðamaður sé vanur en orðalagið bendir ekki til þess. Og enginn les yfir.

Tillaga: Vísir greindi frá viðbrögðm Páls vegna pistilsins. Í gærkvöldi tjáði Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, annar ritstjóra Stundarinnar, sig um fúkyrðaflauminn sem dunið hefur á fjölmiðlinum, meðal annars á vegg Páls.

 

11.

„Þau eiga meðal ann­ars tvö af­kvæmi sam­an en Hild­ur átti eitt fyr­ir þegar þau hnutu um hvort annað en hjóna­leys­in búa sam­an í Vest­ur­bæ Reykja­vík­ur.“ 

Úr frétt á mbl.is.       

Athuasemd: Afkvæmi fólks eru nefnd börn. Oft er sagt að fólk eigi krakka saman eða jafnvel gríslinga. Afkvæmi annarra spendýra bera ólík nöfn, kálfar, folöld, hvolpar og svo framvegis.

Afar sjaldgæft er tala aðeins um afkvæmi. Þegar um fólk er að ræða þykir það dálítið niðurlægjandi eða … bara svolítið „töff“ eins og í þessu tilviki. Þetta er þó ekki til eftirbreytni í frétt jafnvel þó blaðamaðurinn kunni að vera vinur þeirra sem um er rætt.

Annars er það dálítið skondið hvernig blaðamaðurinn orðar upphaf samdráttar hjónaleysanna. Þau „hnutu“ um hvort annað. Dálaglega orðað, það verður að viðurkennast. Hins vegar batna allar fréttir ef þegar punktur er notaður ósparlega af mikilli kunnáttu.

Tillaga: Þau eiga meðal ann­ars tvö börn sam­an, Hild­ur átti eitt fyr­ir þegar þau hnutu um hvort annað. Hjóna­leys­in búa sam­an í Vest­ur­bæ Reykja­vík­ur.

 

12.

„Mbl.is greindi frá því vik­unni að Trump hefði ákveðið að reka McMa­ster en ætlað sér að taka sér tíma í að fram­kvæma ákvörðun­ina.“ 

Úr frétt á mbl.is.       

Athuasemd: Furðulegur talsmáti, „… að taka sér tíma í að framkvæma ákvörðunina“. Greinilega geld þýðing úr ensku eftir einhvern sem ekki hefur lesið yfir og hefur þar að auki ekki góða máltilfinningu.

Í endursögn hefur forsetinn líklega ekki ætla að reka hann strax. Af hverju er ekki hægt að segja það? Eða þá að McMaster myndi ekki hætta strax? Ákvörðunin var tekin, maðurinn var rekinn en vann áfram svo lengi sem forsetanum þóknaðist.

Tillaga: Mbl.is greindi frá því vik­unni að Trump hefði ákveðið að reka McMa­ster en þó ekki strax.

 

13.

Að Landsnet hafi ekki sýnt fram á að jarðstreng­ur sé raun­hæf­ur í sam­an­b­urði við loftlínu er veiga­mik­il ástæða þess að Úrsk­urðar­nefnd um­hverf­is- og auðlinda­mála felldi í gær úr gildi fram­kvæmda­leyfi Hafn­ar­fjarðarbæj­ar fyr­ir svo­nefndri Lykla­fells­línu.“ 

Úr aðalfrétt á forsíðu á mbl.is.       

Athuasemd: Ofangreind tilvitnun er alltof löng. Punktur hefði verið til bóta.

Algjört stílleysi að byrja setningu á nafnháttarmerkinu „að“. Má vera að það sé ekki málfræðilega rangt en málgreinin verður afar undarleg fyrir vikið. 

Hið þriðja sem verður að finna að er orðalagið „… er veigamikil ástæða þess …“ Þetta þykir ekki heldur góður stíll.

Tillaga: Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi í gær úr gildi framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðarbæjar fyrir svonefndri Lyklafellslínu. Í ákvörðuninni vó þung að Landsnet hafi ekki sýnt fram á að jarðstrengur sé raunhæfur í samanburði við loftlínu.

 

 

 

 

Vinsæl gæluorð blaðamanna

  • Bíllinn hafnaði út af

Jafngilt eða betra: Lenti, endasentist, endaði, valt, rann …

  • Jón hafnaði í fyrsta sæti

Jafngott eða betra: Sigraði, lenti, náði

  • Stína hafnaði tilboðinu

Þetta er gott. Stína hefði líka getað neitað að samþykkja, synjað um samþykki vegna þess að hún var orðin afhuga því.

Klessa:

  • Hún klessti á bíllinn

Jafngilt eða betra: Ók á, rakst á …

  • Báturinn klessti á brúnna

Jafngilt eða betra: Sigldi á, rakst á, hann rak stjórnlaust á brúnna …

  • Hún barði eiginmann sinn í klessu:

Gott hjá henni, hafi hann átt það skilið.

 

Málið

Örlítill dálkur í Morgunblaðinu grípur daglega athygli þess sem hér ritar enda er þar fjallað af mikilli fagmennsku um tungumálið enda nefnist hann Málið. Hér er dæmi (greinaskilum hefur verið bætt við):

Hálf- er aumt að sjá þýtt svona bókstaflega: „enda ekki úr karakter“ (um mann grunaðan um misferli) í stað t.d. enda ekki ólíkt honum. 

In character (with sth) / out of character þýðir í þessu sambandi í samræmi / ósamræmi við eðli – þess sem um ræðir. Þ.e.a.s.: þetta var svo sem eftir manninum.

 

Nokkuð sem bragð er er að

Nú er til dæmis aflagt að segja Hamingjan sanna og Hægan hægan, sem einu sinni var vinsælt í leikritaþýðingum og vel mátti missa sig, en líka: Ég á ekki orð!, Ég er alveg bit!, Þú segir ekki!?!, Guð hjálpi mér, og ein tuttugu önnur orðatiltæki, jafnvel bara gamla góða: Ja, hérna! 

Nei, það sem unglingarnir hrópa upp í tíma og ótíma er Ohmæ gawd. Það er sem sagt nauðsynlegt að ávarpa Guð á ensku, þegar mikið liggur við. Um áhrifamátt þess skal ég ekki fjölyrða, því að ég hef aldrei prófað það.

Úr greininni „Ohmæ gawd“ eftir Svein Einarsson, leikhússtjóra, birt á bls. 19 í Morgunblaðinu 6. mars 2018. (Geinaskil og feitletranir eru á ábyrgð SS)

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband