Fjöldi Sjálfstæðismanna á mót samstarfi við VG
13.11.2017 | 10:42
Auðvitað eru margir með ónot í maganum við þessa tilhugsun að fara að vinna með Sjálfstæðisflokknum og skil ég það bara mætavel. Við höfum auðvitað verið á sitthvoru rófinu í stjórnmálum en við höfum líka ábyrgð sem stjórnmálamenn og við gerðum tilraun með þessa fjóra flokka og Framsókn treysti sér ekki lengra í þeim formlegum viðræðum.
Þetta segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í viðtali við Vísi.
Á mbl.is segir Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna:
Fyrir kosningar sögðum við að við útilokuðum ekki neinn. Það væri óheiðarlegt að koma eftir kosningar og útiloka Sjálfstæðisflokkinn.
Varaformaður VG, Edward H. Huijbens, frambjóðandinn sem kjósendur höfnuðu, segir á einhverjum samfélagsmiðlinum að formaður Sjálfstæðisflokksins ætti ekki að fá að vera ráðherra!
Hvergi í fjölmiðlum er leitað til Sjálfstæðismanna vegna vangaveltna og leiðinda Vinstri grænna vegna hugsanlegrar stjórnarmyndunar með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.
Höfum það hins vegar hugfast að fjöldi Sjálfstæðismanna, þeirra á meðal sá sem hér skrifar, er ekki neitt yfir sig hrifinn af samstarfi við VG og sumir jafnvel harðir á móti.
Eitt er að Vinstri grænir hafa allt frá stofnun verið afar ómálefnalegir í ræðu og riti í garð Sjálfstæðisflokksins. Út yfir allan þjófabálk tók þó þegar VG samþykkti málshöfðun fyrir Landsdómi gegn Geir H. Haarde, fyrrum formanni flokksins. Það voru pólitískar ofsóknir sem enduðu með því að hann var sýknaður af öllum ákærum nema að hafa ekki haldið fundargerðir í aðdraganda hrunsins. Þar sýndu Vinstri grænir samstarfsmanni á þingi ódrenglyndi og ruddaskap sem seint verður fyrirgefið.
Vinstri grænir sviku síðan þjóðina um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsóknina að ESB í júlí 2009 er flokkurinn greiddi atkvæði gegn tillögu Sjálfstæðisflokksins um málið.
Sannast þá það sem Össur Skarphéðinsson, fyrrum þingmaður og ráðherra Samfylkingarinnar, segir núna að VG sé að selja sig fyrir ráðherrastóla. Hann ætti að vita það enda var hann í forystu fyrir Samfylkinguna þegar hún seldi VG aðild að ríkisstjórn vorið 2009.
Greiðslan var mikil. VG sveik stefnu sína um andstöð við aðild að ESB og fjölmargir forystumenn flokksins urðu ómerkingar orða sinna í kosningabaráttunni vorið 2009.
Nei, við erum margir Sjálfstæðismennirnir sem viljum frekar kosningar en samstarf við Vinstri græna sem eru í besta falli hentistefnuflokkur.
Vilji forystu VG er hins vegar að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Sú er ástæðan fyrir því að Katrín Jakobsdóttir talaði aldrei um vinstri stjórn fyrir kosningar og ekki heldur eftir þær.
Almannatenglar ráðlögðu henni og öðrum forystumönnum VG að forðast allt tal um vinstri stjórn eða vinstri stefnu, það væri ekki til árangurs. Þeir höfðu rétt fyrir sér. VG bætti við sig atkvæðum og einum þingmanni. Það var hins vegar ekki almannatenglunum að kenna þó flokkurinn færi úr 30% fylgi í skoðanakönnunum í 16% í kosningunum.
Þrjár ástæður til að hefja viðræður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Sigurður
Þetta verður ómöguleg stjórn um ekkert nema ráðherrastóla. Verkvitið mun lýta út eins og hjá sex ára bekk eftir hádegi. Þetta verður stöðnunarstjórn sem mun bara sitja og taka launin sín, er ekki komið nóg af því?
Persónuleg þá hef ég enga trú á að hún verði að veruleika.
Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 13.11.2017 kl. 11:04
Sæll, Sigþór. Verði þessari ríkisstjórn komið verður það krafa okkar Sjálfstæðismanna að hún komi hlutunum í verk. Annars gagnslaust að stofna til hennar.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 13.11.2017 kl. 11:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.