Virkur í athugasemdum undir áhrifum

Heimskan, illskan og stafsetningin (þessi ótæka og snarbrjálaða) eru hin heilaga þrenning virkra í athugasemdum. [...]

Í athugasemdakerfunum beita heimskustu 0,01% þjóðarinnar okkur hin, 99,99%, andlegu og félagslegu ofbeldi. Eiga þessir grunnhyggnu, illa þenkjandi og enn verr skrifandi alvitringar ekki aðstandendur sem geta bent þeim á að hætta þessu. Eða vísað þeim á viðeigandi stofnun?

Þetta segir Þórarinn Þórarinsson í Bakþönkum helgarblaðs Fréttablaðsins 4. nóvember 2017. Hann er að gefa þeim einkunn sem þekktir eru undir heitinu „virkir í athugasemdum“, liðið sem skrifar athugasemdir með fréttum vefmiðla eins og Vísis, DV, Pressunnar og Eyjunnar. Og hann segir:

Óþverralýðurinn sem rottar sig saman í athugasemdakerfum vefmiðlanna veit sjálfsagt jafn lítið og ég. Sennilega minna enda benda athugasemdir þeirra iðulega til þess að þau hafi ekki lesið þær fréttir sem þau gjamma undir. Kunni í það minnsta alls ekki að lesa sér til gagns.

Ég hef stundum lagt það á mig að lesa athugasemdir sem fylgja fréttum ofangreindra fjölmiðla. Vissulega eru þeir til sem ræða af viti, þekkingu og skynsemi. Þeir eru þó miklu fleiri sem láta vaða alls kyns óþverra og dónaskap og þeir sem reyna að malda í móinn fá samskonar yfirhalningu og þeir sem fréttir fjalla um.

Oftast eru þetta fyrirsagnahausar, fólk sem étur upp það sem aðrir segja og hefur ekki fyrir því að kynna sér málin. Í athugasemdunum er iðkað að hreyta ónotum í náungann og helst að tvinna saman óhróðri og leiðindum svo undan svíði. Fátt af þessu fólki myndi tala á þann hátt um þá sem eru því nákomnir.

Það sem „virkur í athugasemdum“ myndi aldrei voga sér að segja um skyldmenni eða vini smyr hann miskunarlaust á fólk sem hann hefur aldrei séð, aldrei hitt eða veit eiginlega ekkert um.

Ég þekki sumt af þessu fólki, hreyki mér ekki af því en gæti þess að leggja fátt til í þessum athugasemdakerfum, jafnvel þegar ég sé að fólk fer rangt með staðreyndir. 

Síðasta föstudag fór ég með vinum á krá og fengum okkur bjór sem gerist alltof sjaldan fyrir núorðið. Og þar sem við stóðum við barborðið í troðningi rak ég augun í einn af „virkum í athugasemdum“, gamlan kunningja, sem er þekktur fyrir rökleysur sínar.

Þegar hann sá mig vippaði hann sér í gegnum mannþröngina til mín með þvílíku offorsi að bjórinn minn skvettist yfir mig og nærstadda. Hann ætlaði að tala við mig með „tveimur hrútshornum“ eins og stundum er sagt og kippti sér ekki upp við skaðann.

Ég spurði hann tíðinda. Hann hlustaði ekki, vildi bara tala um hinn vonda Sjálfstæðisflokk. Ég spurði hann á móti um heilsuna. Hann hlustaði ekki og hrópaði eitthvað um Bjarna Benediktsson og ríkisstjórn hans. Fæst gat ég greint vegna hávaða var maðurinn þó óþægilega nálægt andliti mínu. Af öllu var þarna ekki staður né stund til að ræða um pólitík, það sáu allir. Hver nennir annars að rökræða í þrengslum á krá þar sem hávaðinn var um 60 desibel. 

Annars misskildi ég hann illilega. Hann var ekki að rökræða, hann hellti sér yfir mig og hellti úr glasinu mínu. Hversu oft sem ég náði að snúa baki í manninn tókst honum jafnóðum að komast fram fyrir mig og alltaf hélt hann áfram tuðinu. Svo greip hann í úlpuna mína og hélt mér föstum.

Þessi maður kann enga háttvísi, hvorki á prenti né augliti til auglitis. Honum fannst staðurinn og stundin góð fyrir ofbeldið, ausa yfir mig einhverjum óþverra sem ég hafði ekki nokkurn áhug á að heyra..

Ég fékk nóg og gekk út. „Virkur í athugasemdum“ elti mig ekki út í norðan strekkinginn á Klapparstígnum. 

Í tilvitnuninni hér að ofan segir Þórarinn Þórarinsson í Bakþönkum Fréttablaðsins þennan lýð beita 99,9% þjóðarinnar andlegu og félagslegu ofbeldi. Verra er þegar lýðurinn fer að láta hendur skipta og tukta þá til sem hann er ósammála. Dómstóll götunnar dæmir og refsar.

Þá er eiginlega nóg komið.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sigurður

Virkir eru líklega ekki bara virkir í kommentakerfum, eins og fram kemur hjá þér. Það þarf samt að fara varlega í að einangra hópinn og háttarlagið, því þetta er ekki eini hópurinn í þjóðfélaginu sem að notar kefisbundið ofbeldi og þá er ég ekki að tala um fangelsað fólk.

Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 7.11.2017 kl. 12:30

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Rétt hjá þér, samkvæmt mínum skilningi, Sigþór. ég leyfi mér að fjalla um einn hóp án þess að þurfa að nefna hina líka. Ofbeldi er rangt.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 7.11.2017 kl. 13:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband