Kyrkislanga barðist við mann og afgreiðslukassinn sem frosnaði
12.10.2017 | 14:41
Hér eru nokkrar athugsemdir við málfar í fjölmiðlum og víðar upp á síðkastið.
1.
Árangurslaust fjárnám var síðast gert í Pressunni og DV 17. ágúst síðastliðinn.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Orðaröð í setningu skiptir miklu. Í ofangreindu segir máltilfinningi atviksorðið síðast ætti eigi að fylgja dagsetningunni. Svo er það álitamál hvort fjárnám sé gert hjá einhverju fyrirtæki eða í því.
Tillaga: Árangurslaust fjárnám hjá Pressunni og DV var síðast gert 17. ágúst síðastliðinn.
2.
Stjórnvöld eyjaklasans segjast ekki vilja taka neina áhættu og hafa því farið fram á að allir 11 þúsund íbúar eyjunnar Ambae flýi við fyrsta tækifæri. Stjórnvöld munu leggja til báta við björgunina en búist er við að aðgerðirnar gætu staðið yfir til 6. október.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Nástaða er æpandi sérstaklega þegar auðvelt er að skrifa framhjá henni. Vanuatu er sjálfstætt ríki, þar er lýðræðislega kjörið þing og ríkisstjórn sem væntanlega er hluti af stjórnvöldum.
Tillaga: Ríkisstjórn eyjanna segjast ekki vilja taka neina áhættu og hafa því farið fram á að allir ellefnu þúsund íbúar eyjunnar Ambae flýi við fyrsta tækifæri. Stjórnvöld munu leggja til báta við björgunina en búist er við að aðgerðirnar gætu staðið yfir til 6. október.
3.
Búið er að hækka viðvörunarstigið á eyjunni sem stendur nú í fjórum stigum af fimm. Hæsta stigið gerir ráð fyrir meiriháttar eldhræringum.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Hér er birt orðið eldhræringar sem er alls ekki neitt nýyrði, ekki ólíkt orðinu jarðhræringar. Orðið hræra þýðir að hreyfa, nefna má hræra í potti og hrærivél. Með vísnasöng ég vögguna þína hræri, segir í fögru ljóði Einars Sigurðssonar frá Heydölum, sem nefnist Nóttin var sú ágæt ein og er sungið um hver jól við lag Sigvalda Kaldalóns.
Af samhenginu má ráða að enginn hrærir í eldi á Ambae eyju í Vanatu eyjaklasanum. Ekki frekar en að jarðhræringar eru af mannavöldum. Þessi tvö orð eru lík og eiga við um jarðfræðileg fyrirbrigði, skjálfa og eldgos.
Tillaga: Engin tillaga, góður texti.
4.
Því miður, afgreiðslukassinn frosnaði.
Afgreiðslustúlka í ónefndri verslun.
Athugasemd: Ég var úti í búð og stúlkan sem ætlaði að taka við greiðslunni sagði þetta. Til hliðar var annar afgreiðslukassi og ég benti henni á að við gætum flutt okkur að honum og klárað viðskiptin. Nei, sagði stúlkan kurteislega og brosti fallega: Þegar einn kassi frosnar þá frosna allir hinir líka.
Í hvert skipti sem hún sagði frosnaði, frosnar eða frosna, sagði ég fraus, frýs og frjósa í réttu samhengi, en brosti bara og flissaði yfir framhleypni minni. Og loks hrökk upp úr henni við síðustu leiðréttinguna: Já, eða það
Raunar fraus afgreiðslukassinn ekki heldur forritið í honum eða tengingin við móðurtölvuna. Engu að síður er það ábyggilega ekki rangt að segja kassann hafa frosið - sérstaklega ef fallegt bros fylgir.
Tillaga: ... en sú andskotans óheppni, kassinn fraus.
5.
komst ég á þá skoðun að sú hegðun sem Mark viðhafði hjá Bristol City
Frétt á bls. 4 í íþróttablaði Morgunblaðsins 4. október 2017.
Athugasemd: Varla getur verið rétt að segja að einhver viðhafi ákveðna hegðun. Hér þarf að umorða tilvitnaða setningu. Auðsjáanlega er þetta þýddur texti sem ekki hefur verið unninn nægilega vel.
Tillaga: komst ég á þá skoðun að hegðun Marks hafi ekki verið
6.
Kvika væntanlega falið að selja Lyfju aftur.
Fyrirsögn á bls. 2 í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 5. október 2017.
Athugasemd: Helst dettur manni í hug að mistök hafi orðið og nafnið Kvika óvart sett í nefnifall í stað þágufalls. Hins vegar vita fæstir dauðlegir hvaða reglum nöfn í íslensku viðskiptalífi lúta.
Kvika kvenkynsnafnorð og fallbeygist svona í eintölu: Kvika, kviku, kviku, kviku.
Merking orðins er hreyfing eða iða, getur þýtt bráðið berg, ókyrrð í lofti og öldugangur eða iða í sjó og jafnvel meira.
Tillaga: Kviku væntanlega falið að selja Lyfju aftur.
6.
Tæplega átta metra löng kyrkislanga sem barðist við mann á dögunum
Frétt á pressan.is.
Athugasemd: Pressan fer oft illa með íslenskuna. Fréttin um kyrkislönguna er furðuleg, í henni segir: Maðurinn sem sigraði slönguna í bardaga slasaðist illa og Þegar þorpsbúarnir voru búnir að bera slönguna augum .
Venjulegast er það þannig að menn berjast við dýr, ekki öfugt. Þau ráðast á fólk ekki til að verða sér út um góða snerru heldur eru þetta annað hvort varnarviðbrögð dýra eða þau telja fólk vera vænlegan málsverð. Algengt er að menn berjist hvorir við aðra en sjaldgæfara að þeir reyni sig við dýr.
Blaðamanni verður það á að tala um að bera einhvern augu en á eflaust við að berja einhvern augum.
Tillaga: Maður berst við átta metra langa kyrkislöngu
7.
Rannsakendur Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, hittu breskan fyrrverandi leyniþjónustumann sem samdi skýrslu um tengsl Rússa og Donalds Trump í sumar.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Af hverju að orða málin á einfaldan hátt þegar svo auðvelt er að flækja þau? Þetta er grundvallarspurning í blaðamennsku. Held ég.
Rannsakendur rannsakandans Hvað er eiginlega að gerast? Er er verið að rannsaka þennan Mueller eða eru fyrrnefndu rannsakendurnir starfsmenn síðarnefnda rannsakandans?
Þetta minnir á brandarann um njósnara KBG í gömlu Sovétríkjunum og ótta Stalíns um að þeir stæðu sig ekki nógu vel og því þyrfti að njósna um þá. Á kaldsstríðsárunum var sagt að í Ungverjalandi gengu lögreglumenn alltaf þrír saman. Einn sem kunni að lesa, annar sem kunni að skrifa og sá þriðji þurfti að hafa auga með þessum andskotans menntamönnum.
Tillaga: Starfsmenn Roberts Muellers, saksóknara dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna
8.
KR-ingar áttu ás upp í erm(ól)inni.
Fyrirsögn á bls. 2 í Íþróttablaði Morgunblaðsins 6. október 2017.
Athugasemd: Einn leikmanna KR í körfubolta heitir Pavel Ermolinskij og var lykilmaður þegar spilað var við Njarðvíkinga.
Fátt er hallærislegra en lélegir orðaleikjabrandarar í fjölmiðlum ekki síst í fyrirsögnum. Þessi geigar algjörlega enda svo langsóttur og barnalegur að fæstir nenna að lesa. Góð regla í blaðamennsku er að skrifa hreint mál, sleppa skrúði og flækjum.
Tillaga: Pavel var frábær á móti Njarðvíkingum.
9.
Finnskur ísbrjótur mættur.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Dauðir hlutir rata ekki án íhlutunar manna og því afar lélegt að segja að ísbrjótur hafi mætt á einhvern stað. Hann kom til hafnar, sigldi þangað, lagðist að bryggju, eins og raunar kemur fram í fréttinni.
Tillaga: Finnskur ísbrjótur kominn.
10.
Jóhannes gerði góða hluti með HK á leiktíðinni og hafnaði liðið í 4. sæti í 1. deildinni.
Úr frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hafi Jóhannes gert góða hluti má þá gerta ráð fyrir að hann hafi staðið sig vel? Sé svo er ekkert að því að segja það þannig. Maðurinn stóð sig vel sem þjálfari.
Rétt er að segja að liðið hafnaði í þessu sæti. Hins vegar er sagnorðið að hafna frekar ofnotað og ekkert að því að segja og skrifa að liðið hafi lent í fjórða sæti. Mikilvægt er að breyta til, tjá sig á allan mögulegan hátt.
Tillaga: Jóhannes stóð sig vel hjá HK á Íslandsmótinu og lenti liðið í 4. sæti í fyrstu deildinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.10.2017 kl. 08:07 | Facebook
Athugasemdir
Góð færsla hjá þér og ekki vanþörf á að tukta þessa blaðamenn til. Ég hef þó tekið eftir fáeinum ritvillum hjá þér, flestar sennilega innsláttarvillur, nema sú sem er í sambandi við leikmann KR. Hann heitir Pawel en ekki Pavel. Bókstafurinn v er ekki til í pólsku, en w er yfirleitt borinn fram eins og íslenzkt v.
Svo eru tvær málfræðivillur; "hrærir" í (3) og "unnin" í (5) í stað "hræri" og "unninn".
Pétur D. (IP-tala skráð) 13.10.2017 kl. 01:03
Þakka þér fyrir Pétur. Þó ótrúlegt kunni að virðast geri ég yfirleitt fjölda villna þegar ég skrifa. Mér hefur hins vegar reynst vel að lesa yfir.
Tilgangurinn með þessum pistlum er hins vegar ekki að tugta neinn til. Mér hefur bara blöskrað upp á síðkastið að geta ekki lesið blaðagrein vegna málfarsvillna og skrifa því fyrir sjálfan mig. Það er róandi.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 13.10.2017 kl. 08:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.