Stjórnmálafræðingar og aðrir lífsins spámenn

StjmfrStjörnuspár þykja ekki merkilegar og síst af öllu taldar til fræðigreina, ekki heldur spilaspár, kaffibollaspár né heldur innyflaspámennska.Hins vegar er stjórnmálafræði merkileg fræðigrein og engin ástæða til að gera lítið úr henni þó hún sé hér nefnd með gagnslausum kerlingarfræðum.

Flestir eru sammála ofangreindu. Engu að síður er mannlegt eðli þannig að flestir eiga sér þá innstu ósk að geta skyggnst inn í framtíðina og vita um tilgang lífsins. Sumir telja sig berdreymna, aðrir geta ráðið í skýjafar og svo eru þeir til sem segja þegar allt er afstaðið: „Ég vissi'ða.“

Ástæðan fyrir því að ég nefni stjórnmálafræðina ásamt gervifræðum er auðvitað þessi innsta ósk hvers manns að vita eitthvað um framtíðina.

Blaða- og fréttamenn leita iðulega til stjórnmálafræðinga þeirra erinda að þvinga þá til að segja hið augljósa.

Sigmundur mun taka fylgi af Framsóknarflokknum.

Þetta segir Grétar Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði. Þessi orð koma engum á óvart og hann bætir við:

Hann [Sigmundur Davíð] á mjög góða möguleika á því að komast á þing.

Og veðurfræðingurinn lætur þetta frá sér fara og enginn tekur andköf yfir snilldinni:

Veðrið er þannig að nú rignir í höfuðborginni en svo styttir upp.

Veðurfræðingar eru ekki spámenn þó þeir geti leitt líkur að því hvernig veðrið mun þróast og það sem þeir láta frá sér fara nefnist „veðurspár“.

Einn góðan veðurdag (honum hafði verið spáð) sagði jarðfræðingur nokkur:

Jú, það er mjög líklegt að jörð skjálfi á morgun og raunar allt fram að áramótum.

Á sama hátt geta blaða- og fréttamenn ekki stillt sig um að spyrja um það sem það sem ekki hefur gerst:

„Bjarni hlýt­ur að fara til Bessastaða strax í dag. Það er óhugs­andi að Bjarni láti dag­inn líða án þess að hann geri það,“ seg­ir Ei­rík­ur Berg­mann, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði, í sam­tali við mbl.is, spurður hvað hann telji að nú taki við.

Eiríkur Bergmann er því miður ekki meiri spámaður en við hinir en hann freistast til að skyggnast inn í framtíðina, slík er pressan. Vandinn er að hann veit ekkert þó hann geti leitt að því líkum hvað gerist. Hins vegar vissu allir eftir stjórnarslitin að forsætisráðherra myndi ræða við forsetann.

Ekki nokkur maður spyr mig, hvorki um stjórnmál, veður, jarðfræði eða eitthvað annað. Veit ég þó lengra en nef mitt nær, miklu lengra. Hér er dæmi um framtíðina:

Ég get fullyrt að Sigmundur muni fá jafnmikið fylgi og Framsóknarflokkurinn í næstu kosningum. Ég er nokkuð viss á því að VG fái 16 þingmenn í sömu kosningum og formaður flokksins verði ekki forsætisráðherra. 

Auk þess er ég viss um að á næstu mánuðum mun frysta og snjóa, þess á milli sem það hlánar og rignir. Hinu fyrrnefnda mun linna eftir því sem líður á næsta vor. Það mun þó rigna um aldir alda hér á landi en stytta um af og til.

Nokkrir harðir jarðskjálftar munu ríða yfir landið á næstu vikum, fjölmargir þrjú eða fjögur stig í Bárðarbungu. Langflestir skjálftarnir verða á Reykjanesi, Suðurlandi, Mýrdalsjökli, Vatnajökli, í Öskju, í kringum Herðubreið og Öxarfirði, Skjálfanda og Grímseyjarsundi.

Segðu mér, virðulegi stjórnmálafræðingur, hver er tilgangur lífsins?

Sko, tilgangur lífsins er enginn nema hann sé annar en sá sem við höldum og jafnvel þó sumir haldi því fram að lífið sé markleysa þá eru fleiri sem fullyrða með rökum að það sé ekki hægt að skilgreina annað en það sem allir eru sammála um að sé til, en hinir halda því fram að tilgangurinn sé sá að svara spurningum eins og þessum. En hvers vegna í andsk... ertu að spyrja mig að þessu?

Nú áttarðu þig ábyggilega á því hver er tilgangurinn með þessum pistli, kæri lesandi.

 

Meðfylgjandi mynd er af stjórnmálafræðingi sem er að búa sig undir að koma í fréttatíma Ríkissjónvarpsins og tjá sig um nánustu framtíð í stjórnmálum.


mbl.is Sigmundur muni taka fylgi af Framsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sigurður

Flokksbundir stjórnmálafræðingar? Er til hlutlaus stjórnmálafræðingur á Íslandi? Það hefur mig lengi langað til að vita.

Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 26.9.2017 kl. 02:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband