Um sprengingu sem er sprengd og vistun sökum ástands

Hér eru nokkrar athugasemdir við málfar í fjölmiðlum frá 10. til 21. september 2017.

 

1.

„Að veikjast hefur haft gríðarlega mikil áhrif á líf mitt.“ 

Viðtal í á bls. 25 í Morgunblaðinu 21. september 2017.    

Athugasemd: Hér er eðlilegri orðaröð snúið við og fyrir vikið er setningin „ljót“, stíllaus. Má vera að viðmælandinn hafi tekið svona til orða en það er verkefni blaðamanns að umorða, gera frásögnina skýrari. Forðast ber að byrja setningu á sögn í nafnhætti.

Tillaga: Veikindin hafa haft gríðarlega mikil áhrif á líf mitt.

2.

„Þú uppfærðir prófíl þinn síðast fyrir tveim vikum síðan.“ 

Sjálfvirk tilkynning til notanda á Facebook.

Athugasemd: Eðlilegt orðalag er til dæmi: Langt er síðan ég kom hingaðRangt er hins vegar að segja: Ég kom hingað fyrir tveimur vikum síðan. Síðasta orðinu er ofaukið og því betra að segja: Ég kom hingað fyrir tveimur vikum. Þetta orð‚ síðan‘, er gagnslaust í mörgum tilvikum eins og hér hefur verið lýst.

Í tilvitnuninni er „prófíll“ íslenskuð enska og getur þýtt lýsing á einstaklingi eða vangamynd. Má vera að orðið sé búið að ná fótfestu í íslensku, þannig er það í öllum norðurlandamálunum og víðar. Ekki þar með sagt að það sé góð þróun. Hins vegar er langt síðan orðið ‚persóna‘ náði fótfestu í málinu. Það gerðist fyrir löngu (og hér er rangt að bæta við ‚síðan‘).

Tillaga: Þú uppfærðir persónulýsingu þína fyrir tveimur vikum.

3.

„Takk, Bose, fyrir kyrrðina og róna sem þú gafst mér. En gætirðu skilað mér syninum kannski?“ 

Pistill á bls. 18 í Morgunblaðinu 12. september 2017.

Athugasemd: Höfundur þessara orða er að tala um heyrnartól og Bose er framleiðandinn. Með þeim hefur hann fengið kyrrð og ró á heimili sitt. Ég las þetta þannig að róni hefði komið inn á heimilið. Kvenkynsnafnorðið ró er í þolfalli með greini ‚róna‘ þannig að þetta er síst af öllu rangt en kann að vera broslegt við fyrstu sýn. Engu að síður er þessi málgrein frekar stirð og hefði að ósekju mátt orða á annan hátt.

Hins vegar er orðaröðunin í næstu setningu röng. Máltilfinning flestra segi að atviksorðið ‚kannski‘ sé ekki a réttum stað. Æ meir ber á því sem nefna má skakka eða bjagaða orðaröð í fjölmiðlum. Margir hafa af því áhyggjur. Einnig er „ljótt“ að byrja setningu á samtengingu eins og þarna er gert. Svo er það bókstaflega allt annað mál að nota 'kannski' sem er ekkert annað en danskan 'kan ske'. Kannski er vonlaust að útrýma því úr málinu.

Tillaga: Gætirðu kannski skilað mér syninum?

4.

„Strætisvagn keyrði yfir fót þrettán ára pilts í Reykjanesbæ.“ 

Fyrirsögn í vefritinu Pressan.

Athugasemd: Var fóturinn áfastur drengnum þegar þetta gerðist? Grínlaust, þetta er ómöguleg fyrirsögn, viðvaningsleg. Réttara væri að segja að strætisvagn hafi keyrt á piltinn. Það er  síðan í sjálfri fréttinni sem nánari upplýsingar um slysið eiga að koma fram. Hins vegar er fréttatextinn jafn ómögulegur og fyrirsögnin.

Tillaga: Strætisvagn ók á pilt í Reykjanesbæ.

5.

„Ráðherra sprengdi fyrstu sprenginguna í Dýrafjarðargöngunum.“ 

Frétt í Ríkisútvarpinu 14. september 2017 (skráð eftir minni)

Athugasemd: Ráðherrann sprengdi sprengingu. Þarf að ræða þetta nokkuð frekar? Væntanlega skilja allir vitleysuna í tilvitnuninni. Svona rassbaga er samt orðin æði algengt. Íþróttamenn stökkva stökk og hlaupa hlaup, rithöfundar skrifa skrif, geltandi hundar gelta …

Tillaga: Vinna við Dýrafjarðargöng hófst með sprengingu samgönguráðherra.

6.

„… veittu dæmdum nauðgara meðmæli vegna uppreist æru.“ 

Fyrirsögn á visir.is

Athugasemd: „Vegna“ er forsetning sem stjórnar eignarfalli. Þess vegna er sagt: „mín vegna“ eða „vegna mín“, ekki ‚ég vegna' eða álíka. Orðið uppreist er eins í öllum föllum nema eignarfalli. 

Í barnaskóla var ráðlagt að setja eitthvað annað orð í stað nafnorðsins sem maður þekkir ekki fallið á. Þannig getur verið hjálplegt að setja orðið ‚svín‘ í stað ‚æra‘. Útkoman er ‚vegna svíns‘ og þá er greinilegt að um er að ræða eignarfall.

Tillaga: … veittu dæmdum nauðgara meðmæli vegna uppreistar æru.

7.

„Tryggj­um að trampólín tak­ist ekki á loft.“ 

Fyrirsögn á mbl.is

Athugasemd: Eitthvað undarlegt er að gerast í frásögnum fjölmiðla af veðri, þvert á allar venjur. Blaðmenn mala stöðugt um vind, hann sé lítill, mikill eða eitthvað þar á milli. Aldrei er lengur tekið þannig til orða að logn sé, hægviðri, hvasst eða stormur. Þetta er einhvers konar „veigrunartal“, ekki má nefna neitt sínu rétta nafni sem hefur þó fylgt þjóðinni í þúsund ár.

Sama er með ofangreinda fyrirsögn og raunar alla fréttina. Sé hún túlkuð er átt við að leiktæki kunni að fjúka í veðrinu sem er spáð. Af hverju má þá ekki segja það? Hins vegar hefðu margir áhuga á því að sjá trampólín taka á loft en það mun vart gerast. Þau munu líklega fjúka í ærlegu hvassviðri, roki, stormi eða fárviðri og veltast um undan vindi þar til þau festast eða eru fest. 

Tillaga: Tryggjum að trampólín fjúki ekki.

8.

„Fjórðungur allra umferðarslysa á Íslandi má rekja beint til snjallsíma.“ 

Fyrirsögn á pressan.is

Athugasemd: Hvað er verra en blaðamaður sem kann ekki að fjallbeygja nafnorð? Dómgreindalaus byrjar blaðamaður á að skrifa „fjórðungur’ og hann hugsar ekki út í framhaldið. Verst er þó að annað hvort les hann ekki yfir eða les yfir og kemur ekki auga á villuna. Þá á fjölmiðillinn sem hann starfar í verulegum vanda.

Sé svo að hægt sé að rekja fjórðung allra umferðaslysa beint til snjallsíma þá er einfaldlega hægt að stytta fyrirsögnina og gera hana kjarnyrtari. Um leið breytist fallið á nafnorðinu ‚fjórðungur‘.

Tillaga: Fjórðungur allra umferðaslysa er vegna snjallsíma.

9.

„Stúlk­an var hand­tek­in og flutt á lög­reglu­stöðina Hverf­is­götu þar sem hún er vistuð í fanga­geymslu sök­um ástands.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.  

Athugasemd: Enn og aftur er fólk „vistað“ í fangageymslu. Orðalagið er án efa ættað frá lögreglunni og því kyngt gagnrýnislaust af flestum fjölmiðlum. Orðið virðist vera til þess að milda orðalagið 'að setja fólk í fangelsi'. Bent hefur verið á að ekki sé heilbrigt að vista fólk í geymslu. Sá sem þetta ritar, sem bæði hefur starfað sem lögreglumaður og blaðamaður, kýs að orða þetta á þann hátt sem hér er gerð tillaga um.

Svo segir í tilvitnuninni að stúlkan hafi verið sett inn ‚sökum ástands‘. Letin er alveg að drepa blaðamanninn. Er útilokað að klára setninguna? Ástand fólks er ekki tilefni til að handtaka fólk og setja í fangelsi. Þannig er að ég er smávægilega kvefaður, Nonni vinur minn er haltur og gamall félagi minn, Brynjar Níelsson, þingmaður, var rekinn sem  formaður nefndar á Alþingi. Ástand okkar er með mismunandi hætti, vonandi verðum við ekki settir í steininn … afskaði ég á við ‚vistaðir í híbýlum löggæslunnar‘ „vegna ástands“. Þetta er nú ljóti „kanselístíllinn“.

Tillaga: Stúlk­an var hand­tek­in sett í fangaklefa í lög­reglu­stöðinni við Hverf­is­götu vegna þess að hún var full, dópuð eða hvort tveggja.

10.

„Unnið er að því brottvísa manninum frá Íslandi …“ 

Frétt á dv.is.   

Athugasemd: Þvílík della er þessi tilvintaða setning. Greinilegt er að reynslulitlir blaðamenn fá ekki það aðhald sem þeir þurfa, enginn lesi yfir það sem þeir semja. Fyrir vikið halda þeir að allt sé í stakasta lagi með textann sinn og málfar. Hafa ekki hugmynd um hversu illa þeir misþyrma málinu. Verst er þó að ístöðulítið fólk heldur að texti sem reynslulitlir blaðamenn semja sé bara hið besta mál (bókstaflega). Þannig breiðist ósóminn út fyrir algjöra leti og aumingjaskap ritstjóra og útgefenda.

Tillaga: Unnið er að því að vísa manninum úr landi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

" Ráðherrann sprengdi sprengingu."

Andi Michaels Bay svífur yfir vötnum.

Ásgrímur Hartmannsson, 22.9.2017 kl. 21:33

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

"Læknanir", "fréttamenninir" og "sérfræðinganir" fer ávallt í taugarnar á mér, þega málhaltir fréttabjálfar mæla. Óhæft, vel út lítandi, en illa og trauðala talandi andlit, með mínus fjóra í framsögn. Fallegt fólk, með góða meiningu, en algerlega án málþroska.

 Þetta er Ísland í dag, enda umræðan samkvæmt því.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 23.9.2017 kl. 03:02

3 identicon

Ég er ekki sérfræðingur svo því sé til haga haldið en það er ekki orðið fólki bjóðandi hvernig aflaga málfar og málleysi er orðið hérna í fjölmiðlum/vefmiðlum, þarna virðist sem einhverjum krökkum sé hleypt inn í bakvinnsluna á fréttasviðinu, eða er kennslan orðin svona á fjölmiðlasviðum skólanna, um daginn sá maður á DV.is skrifað um stól með einu n-i en þar var átt við stóll, á Vísi.is var skrifað um logandi eldtungur, nokkur húsnæði, svipuð dæmi mátti sjá líka á fullkomna Rúv, hvernig má þetta vera að enginn beri ábyrgð eða hafi metnað til þess að skrifuð sé góð íslenska á miðlum?

Kristján Jón Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 23.9.2017 kl. 14:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband