Falsfréttir og lygi sem mengar lýðræðið
12.7.2017 | 11:11
Bilun í dælustöð fráveitu Veitna við Faxaskjól hefur vakið athygli á borgarstjóranum og starfsaðferðum hans og vinstri meirihlutans. Nú blasir við að hann leggur mikið upp úr því að vera sjáanlegur þegar allt gengur vel. Þegar eitthvað bjátar á er hann ósýnilegur og embættismenn þurfa að svara fjölmiðlum.
Dælustöð bilaði og óhreinsuðu skolpi var í þrjár vikur dælt í Fossvog og þá gerði borgarstjóri eins og hann var vanur, hann faldi sig. Á meðan fórum við almenningur í sjósund, sulluðum með börnunum í fjörunni af því að við treystum því að allt væri í lagi.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins hreinlega dró Dag B. Eggertsson á eyrunum fram í dagsljósið og hann þurfti að svara fyrir skolphneykslið.
Auðvitað gat hann ekkert sagt annað en það sem embættismenn höfðu þegar sagt. Hann reiddist hins vegar af því að PR-deildin hafði ekki undirbúið hann eða komið í veg fyrir viðtalið.
Þetta þarfnast skýringar. Á vegum skrifstofu borgarstjóra er fjöldi manns sem hefur það verkefni eitt að láta borgarstjórann og meirihlutann líta vel út. Þetta er PR-deildin sem á að koma í veg fyrir að hægt sé að tengja borgarstjórann eða meirihlutann við svona hneykslismál.
PR-deildin lætur fjölmiðla vita um ferðir borgarstjórans, hvar hann sé, býður upp á myndatökur viðtöl við hin og þessi tækifæri. Sem sagt sinnir almannatengslum ... og áróðri. Gleymum ekki því síðara.
Eftir hrakfarir borgarstjóra vegna skolplekans er nú þeirri sögu markvisst dreift á athugasemdakerfum fjölmiðla og í samfélagsmiðlum að hreinsun strandlengju Reykjavíkur hafi byrjað með R-listanum en meirihluti Sjálfstæðiflokksins í borgarstjórn aldrei látið sig þetta mál sig neinu skipta, jafnvel verið á móti hreinsuninni.
Nú eru komnar nýjar kynslóðir sem ganga að því vísu að strandlengjan eigi að vera hrein og fólk er í raun ekkert að velta því fyrir sér hver eigi heiðurinn að þessum framkvæmdum, svo sjálfsagt þykir þetta. Þar af leiðandi er auðveldara fyrir áróðursliðið á skrifstofu borgarstjóra að dreifa falsfréttum og hælbítarnir í athugasemdakerfum fjölmiðla taka svo undir, dreifir lyginni eins og þeim sé borgað fyrir það.
Staðreyndir um fráveituna og hreinsun strandlengju Reykjavíkur má til dæmis lesa í frétt í Morgunblaðinu þann 22. maí 1990 sem og í Dv 25. janúar sama ár. Hér eru myndir af þessum fréttum og til að lesa er best að tvísmella á þær.
Skipulag fráveitunnar var unnið undir forystu meirihluta Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn og þá var Davíð Oddsson borgarstjóri. Raunar ber þess að geta að enginn stjórnmálaflokkur lagðist gegn málinu, allir voru sammála um að þetta væri bókstaflega þjóðþrifamál. PR-deildin vill hins vegar eigna R-listanum heiðurinn og því er falsfréttum dreift.
Rétt skal vera rétt og með öllum ráðum á að berjast gegn falsfréttum. Athygli vekur þó hversu áróðurinn í dag er umfangsmikill og skipulagður en ekki síst hversu óforskammaður hann í raun og veru er. Fjórtán manns starfa í PR-deildinni fyrir meirihlutann í borgarstjórn. Auðvitað eru starfsheitin mismunandi og reynt að fela þetta eins og hægt er. Kostnaðurinn er á annað hundrað milljónir króna á ári.
PR-deildin hringir ekki í aðra en þá sem hún getur treyst og kjafta ekki frá. Fólk er hins vegar ekki fífl, ekki heldur blaðamenn. Sumir blaða- og fréttamenn eru meira í málefnum sem snerta borgina og margir eiga sér sögu úr starfi þeirra flokka sem mynda meirihluta borgarstjórnar.
Svo eru það samfélagsmiðlarnir og þeir sem skrifa í athugasemdadálka fjölmiðla. Þar er sveit vaskra manna sem hefur það markmið að dreifa óhróðri um minnihlutann. Til að auka slagkraftinn eru sumir með aukaskráningu á Facebook, það er koma fram undir fölsku nafni.
Eitt falsnafnið er Guðmund Einarsson og skráningin hans á Facebook er hér. Nafnið hans var skráð 12. október 2016 og síðan hefur hann haft sig mikið í frammi á athugasemdakerfum visir.is, dv.is og eyjunnar.is. Falsarinn sem stendur á bak við nafnið tekur engum rökum, hamrar stöðugt á falsi og óhróðri.
Fleiri svona svindlarar eru á netinu. Einkenni þeirra eru hin sömu en stundum er meira í lagt og búinn til bakgrunnur til að viðkomandi sé trúverðugri.
Svo eru það hinir sem láta sér í léttu rúmi liggja þó nafn þeirra tengist óhróðri, svívirðingum og lygi. Þeir eru ótrúlega margir og láta sér ekki segjast þó staðreyndir mála blasi við þeim. Þeir halda áfram að dreifa falsfréttum eins og þeir eru ráðnir til að gera.
Almenningur er gjörsamlega varnarlaus gegn falsfréttum og þær eru hvað hættulegastar fyrir lýðræðið og frjáls skoðanaskipti. Falsfréttir eru eins og hryðjuverk, enginn veit hvenær þær bitna á manni sjálfum.
Vart er til óhugnanlegri tilfinning en sú að maður hafi myndað sér skoðun sem meira eða minna er byggð á falsfréttum, fölsuðum upplýsingum um málefni eða einstaklinga. Jú, raunar er ein tilfinning verri og hún er sú að hafa ekki hugmynd um að logið hafi verið að manni. Hver er þá vörnin, til hvaða ráða getur maður gripið?
Þannig mengar lygin lýðræðið. Hún er eins og skolpið sem flæðir um strandlengjuna, enginn sér það og við höldum að allt sé í svo óskaplega góðu lagi og við sullum með börnunum í fjörunni.
Borgarstjórinn heldur sig hins vegar fjarri og því verður seint hægt að finna hann í fjöru.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.