Bendir aukinn órói til Heklugoss?
27.4.2017 | 17:50
Sagt er að Hekla sé kominn á fremsta hlunn með að gjósa. Ég er nú ekkert að velta mikið vöngum út af svona sögusögnum. Árlega er næstum því farið að gjósa einhvers staðar.
Lengi hélt ég að fjölgun jarðskjálfta væri glöggt merki um væntanlegt eldgos. Svo er nú ekki, að minnsta kosti ekki nema í undantekningatilfellum.
Þá var mér sagt frá því undri að jarðfræðingar hlustuðu á hljóð úr iðrum jarðar. Með hliðsjón af þeim og öðrum rannsóknum og athugununum geta þeir metið hvort eldgos sé líklegt.
Jarðarhljóðin kalla jarðfræðingar óróa. Beggja vegna við Heklu eru tæki sem mæla óróa.
Annar staðurinn er norðan við Heklu, við móbergshryggi sem nefnast Feðgar og eru skammt frá fjallsrótunum. Hinn er sunnan við fjallið þar sem heitir Mjóaskarð og er á milli Fremri- og Innri-Vatnafjalla. Sjá kortið sem ég fékk hjá Landmælingum Íslands.
Lítum nú á óróamælingar frá því í byrjun mánaðarins eins og þær eru birtar á vef Veðurstofu Íslands.
Hér til vinstri eru mælingar frá Feðgum sem gerðar voru 4. apríl og hægra megin eru mælingar frá Mjóaskarði.
Tek það fram að þarna er óróinn orðinn miklu meiri en hann var til dæmis í mars, en því miður var ég ekki farinn að safna þessum mælingum og á vef Veðurstofunnar er engin leið að skoða þær aftur í tímann. Hins vegar er ég með nokkrar mælingar frá því í apríl.
Skoðum nú mælingar dagsins í dag og berum þær saman við mælingarnar hér að ofan.
Lesandinn þarf ekki að vera sérfræðingur í jarðfræði til að átta sig á að talsvert mikið hefur breyst.
Getið er um tíðnisvið mælinganna efst í vinstra horninu. Það er einna helst bláa tíðnin sem vekur athygli. Mikill munur er á tveimur efri kortunum og þeim neðri. Það er ekki eini munurinn heldur er umtalsvert meiri órói sem mælist í Mjóaskarði en við Feðga, norðan við Heklu.
Skoðum þá hvað þetta gæti þýtt. Þessir þrír litir skilst mér að geti sýnt gosóróa sem verða vegna kvikuhreyfinga djúpt í jörðu eða þá ... kviku sem rennur í upp að yfirborði jarðar. Óróinn er mestur í bláu línunni. Þar skjótast upp óhljóð með mjög reglubundnum fresti sem hugsanlega má túlka sem afleiðingar ruðnings kvikunnar upp í móti. Hversu hratt kvikan fer veit ég ekki.
Um tuttugu og þrír dagar eru á milli þessara mælinga. Má vera að þær haldi áfram með sama vaxandi hraða sem endi með eldgosi ... einhvern tímann. Hugsanlega eftir nokkra daga eða einni mánuð eða ár.
Mér skilst að jarðfræðingar viti ekki enn hvað það er sem kveikir í Heklu. Má vera að jarðskjálftar, jafnvel mjög litlir, geti komið gosi af stað. Það er hins vegar staðreynd að þegar Hekla ætlar að gjósa fylgja margir litlir skjálftar.
En munurinn á milli Feðga og Mjóaskarðs? Ég veðja á að verði gos á næstunni verði það sunnan Heklu, frekar en í toppgígnum. Mælingarnar í Mjóaskarði benda til að þar sé skemmra í hugsanlegar kvikuhreyfingar en norðan fjallsins. Nóg er nú af gígum á þessum slóðum, bæði í Hekluhlíðum og í nágrenni; í Vatnafjöllum og raunar út um allar trissur þarna.
Að endingu vil ég taka það fram að ég er ekki jarðfræðingur og hef ekki hundsvit á þessari virðulegu fræðigrein. Ég hef samt ánægju af ferðalögum um landið okkar, helst gangandi. Sérfræðiþekking mín er aðeins bundin við að hafa gengið nokkuð oft á Heklu.
Myndina hér að ofan tók ég í síðustu Heklugöngu, í júlí 2015. Þyrla Landhelgisgæslunnar fylgdist grannt með því að ég reyndi ekki að koma af stað eldgosi.
Neðri myndin er af toppgígnum. Horft í vestur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Eina fólkið sem veit hvenær er von á heklugosi eru bændurnir í nágrenni Heklu. Þeir þekkja Heklu gömlu.
Sigurður Helgi Magnússon (IP-tala skráð) 27.4.2017 kl. 23:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.