Vangaveltur um forna ljósmynd

BærVeit einhver hvar þessi bær stóð?

Myndin er fengin af Facbook síðunni „Gamlar myndir“ og birtist þar í síðustu viku. Myndin var tekin um 1897 af Johannes Klein, dönskum málara sem var hér á ferð og sögð tekin í Austur-Húnavatnssýslu.

Fornar myndir eru oft afar áhugaverðar. Þær sýna mannlíf, búskaparhætti, vinnubrögð, klæðnað fólks og svo margt annað sem fæstir þekkja í dag. Þó landslagið hafi lítið breyst er ekki alltaf ljóst hvar myndir hafa verið teknar.

Þá verða til vangaveltur, ekki aðeins hjá mér heldur fjölda annarra. Hjá mér fór helgin í pælingar um myndina.

Bær2Upphaflega var ég staðfastlega á þeirri skoðun að í fjarska mætti sjá þrjú fjöll. Var um leið viss á því að þau eru ekki að finna í Austur-Húnavatnssýslu.

Sá jafnvel líkindi með því að fjallið lengst til hægri væri austurhliðin á Mælifelli í Skagafirði. Þetta er hins vegar ákaflega ósennileg tilgáta vegna þess að ekkert strýtumyndað fjalli er til sunnan við Mælifell. Dálítið óheppilegt þegar blákaldar staðreyndir eyðileggja sennilega tilgátu.

Í ljósi þess að erfitt er að átta sig á fjarlægð í myndinni hafa sumir bent á að þetta gætu einfaldlega verið hólar, ekki fjöll. Á milli eru einhverjar hæðir og svo virðist sem að fyrir neðan þær sé á eða lækur. Sumir hafa bent á skýjaslæðuna, það sé þoka sem læðist stundum inn Húnaflóa og því sé þarna stutt til sjávar.

Nú kann vel að vera að bærinn sé löngu sokkinn í jörð, gróið yfir hann. Þá er fátt orðið eftir til skilnings á staðháttum. Eitt kann þó að vera áhugavert og það er litla klettabeltið hægra megin við miðja mynd. Má vera að það kveiki í hugsuninni hjá einhverjum.

Af einhverjum ástæðum kunna sumar gamlar myndir hafa verið skannaðar rangt inn, þær séu einfaldlega speglaðar. Hér eru því birtar tvær útgáfur af myndinni. Væntanlega er bara önnur rétt.

Og til hvers er maður að leggja á sig pælingar af þessu tagi? Manni vefst tunga um höfuð því skýringin er erfið. Þetta er bara eins og hver annar leikur; krossgáta, föndur eða eitthvað álíka. Má vera að þetta sé tóm vitleysa og tímanum betur varið í að yrkja ljóð, semja skáldsögur eða syngja í kór. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband