Raus í ræðustól Alþingis og gagnslausar upplýsingar
25.3.2017 | 13:24
Frú forseti. Það voru áhöld um hvort ég ætti yfir höfuð að vera í þessum ræðustól.
Í morgun, skömmu eftir átta, barst mér tilkynning um það að ég hefði verið númer 27 í röð háttvirtra þingmanna að komast hér á mælendaskrá. Síðan fóru nú einhverjir vísir menn að skoða málið nánar og þá kom í ljós að allmargir af þeim sem á undan mér voru á skránni höfðu tilkynnt sig inn laust fyrir klukkan átta.
Var gerð við þetta athugasemd sem endaði með því að öllu var raðað upp á nýtt og ég þurfti að fara að undirbúa að nýju hvað ég ætlaði að tala um.
Þetta sagði Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður, í ræðustól Alþingis í vikunni.
Í Staksteinum Morgunblaðs dagsins er vakin athygli á þessum orðum og eftirfarandi sagt:
Jón Steindór hafði sem sagt pantað púltið án þess að hafa nokkuð að segja. Niðurstaða hans eftir vangaveltur um hvað hann ætti að tala um var að tala um þetta, um störf þingsins.
Jón Steindór hagaði sér kjánalega í ræðustólnum. Hann hefði betur sleppt því að taka til máls og blaðra um ekki neitt. Hann er hins vegar ábyggilega ekki síðri þingmaður en margir aðrir en því miður virðist meðaltalið frekar í lægri kantinum.
Kjarni málsins á þinginu er þessi: Æ fleiri þingmenn sitja á þingi án nokkurrar stefnu, hugsjónar eða eldmóðs. Tilgangurinn er einhvers konar leikur, vekja athygli fjölmiðla á sjálfum sér og flokknum sínum, láta um leið liggja að því að spilling ráði eða hreinlega óvild gagnvart ákveðnum málaflokkum eða hópum í landinu. Minna fer fyrir skilningi þessara þingmanna á hlutverki löggjafans.
Kapphlaupið um að fá númer í ræðustóli er aðalatriðið en á eftir er pælt í því hvað á að segja.
Dæmi um leikræna tilburði er fyrirspurnartími á þinginu. Fyrir stuttu vildi þingmaður vita hversu mörg vínveitingaleyfi eru í gildi og hvað mörg leyfi hafi verið gefin út á árunum 2010 til 2916.
Þingmanninum var svarað og hann þakkaði án efa fyrir fyrir sig, sté úr ræðustól og málið hvarf út í tómið eins og svo ótal önnur mál. En hvers vegna varð þessi fyrirspurn til, hversu mikið kostaði að svara henni og hver var tilgangurinn?
Upplýsingar um leyfisveitingar liggja ekki á lausu og því hefur stjórnsýslan þurft að fela starfsmanni að leita í skjölum og telja saman. Það kann að hafa tekið einn dag og allt upp í þrjá til fjóra daga. Þessi starfsmaður gerði ekkert annað á meðan, sinnti ekki hefðbundnum störfum sínum og tafir urðu á afgreiðslu.
Samtals getur kosnaður við að svala forvitni þingmannsins verið hátt í eina milljón króna.
Við þessu er ekkert að gera. Þingið á rétt á að fá þær upplýsingar frá framkvæmdavaldinu sem það vill. Það sem hins vegar vekur athygli er að ekkert var gert með upplýsingarnar. Fyrirspurnin var bara hluti af kynningarmálum málum viðkomandi þingmanns, tilraun hans til að vekja athygli á sér.
Þegar ég var í skóla í útlandinu var afar mikil áhersla lögð á að safna upplýsingum en um leið var lögð áhersla á að upplýsingar væru í eðli sínu gagnslausar nema þær væru settar í rétt samhengi.
Tilgangurinn með upplýsingasöfnun er byggja einhvers konar mynd sem getur verið lýsandi fyrir viðfangsefnið, hjálpað til við úrlausn máls. Í sannleika sagt skiptir litlu máli hversu margir naglar eru í timburhúsi, hversu margir lítrar af málningu fóru á inn- og útviði eða hvort plast eða timbur eru í gluggafögum, nema verið sé að gera úttekt á kostnaði við byggingu húss.
Mikilvægast er að vita nokkurn veginn svarið við fyrirspurn. Geri fyrirspyrjandi sér ekki grein fyrir því hvernig svarið kemur að gagni er gagnslaust að spyrja.
Hvaða ályktun má draga að því að 1154 vínveitingaleyfi eru gild á landinu og 1273 leyfi voru samþykkt frá 2010 til 2016? Eru þessar tölu litlar eða miklar? Sannast sagna hef ég ekki hugmynd um það og dreg þá ályktun að ekkert gagn hafi verið að fyrirspurninni, hvorki fyrir þingmanninn né okkur hin.
Niðurstaðan af ofangreindu er því sú að sáralítill munur er á því að þingmaður standi og gapi um allt og ekkert í ræðustól Alþingis eða hann af vanþekkingu óskar eftir gagnslausum upplýsingum.
Af tvennu illu er þó ódýrara að þingmenn rausi í ræðustól.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:28 | Facebook
Athugasemdir
Til þess að gera þingstörf skilvirkari þá þarf að fækka þar bullustömpum.
Einfaldasta leiðinn er að stemma stigu við fjölda flokka á Alþingi íslendinga, án tillits til fjölda flokka við kjör til Alþingis, þrír væru nóg en það mætti svosem sætta sig við fimm til reynslu.
Svo þarf að fækka þingmönnum um 25% og fari Alþingis menn ekki að sinna vinnuskyldum sínum þá má prófa að hækka þá tölu í 30%. Ef það ekki dugar þá væri athugandi að auglýsa eftir framkvæmdar stjóra fyrir ísland á Bretlandseyjum eða í Bandaríkjunum.
Hrólfur Þ Hraundal, 25.3.2017 kl. 15:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.