Guðmundur Andri Thorson, strútskýrandi Íslands
16.3.2017 | 17:54
Ég andmæli svo sérstaklega tilraun Guðmundar Andra til þess að gera mér upp skoðanir varðandi hlýnun andrúmsloftsins. Lætur hann jafnvel að því liggja að ég haldi því fram að hitastig fari ekki hækkandi. Ekkert í mínum skrifum eða ræðum gefur tilefni til þess.
Þannig skrifar Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, í grein í Fréttablað dagsins. Ástæðan er sú að í síðustu viku skrifaði Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og leigupenni, rætna grein um Sigríði og gerði henni miskunarlaust upp skoðanir. Ráðherrann kom vægast sagt illa út í lýsingu skáldsins og margir ráku upp stór augu, þar á meðal ég, sem skildi ekkert í því hvers konar fasistakelling hefði náð þvílíkum metorðum innan Sjálfstæðisflokksins.
Í grein sinni segir Guðmundur Andri:
... en það er afar óheppilegt að einn eindregnasti strútur landsins sé ráðherra í ríkisstjórninni, Sigríður Andersen, og meira að segja sérstakur talsmaður Sjálfstæðisflokksins í umhverfismálum, þar sem hún gerir gys að því að flokka rusl og berst fyrir frjálsum og óheftum útblæstri bíla.
Til skýringar segir Guðmundur Andri að Strútskýringar snúast um ólíkar aðferðir afneitunarsinna við að stinga höfðinu í sandinn. Eitthvað skjöplast skáldinu í líkingartilraun sinni. Varla er hægt að stinga höfðinu í sandinn nema á eina vegu, það er að stinga því í sandinn ... Að minnst kosti verður niðurstaðan alltaf hin sama.
Látum það nú vera en einbeitum okkur að strútskýrandanum Sigríði Á. Andersen.
Guðmundur Andrei segir;
... hún gerir gys að því að flokka rusl og berst fyrir frjálsum og óheftum útblæstri bíla.
Sigríður svarar þessu:
Á síðasta kjörtímabili leyfði ég mér hins vegar að benda á að fólksbílar eru með um 4% af losun gróðurhúsalofttegunda af manna völdum hér á landi.
Yfir 70% árlegrar losunar stafa frá framræstu votlendi sem ríkisvaldið hvatti og styrkti landeigendur til að ræsa fram með þessum og fleiri neikvæðum afleiðingum. [...]
Ég hef sömuleiðis vakið athygli á því að vinstri stjórnin hans Guðmundar Andra breytti sköttum á bíla og eldsneyti til að beina fólki úr bensínbílum yfir í dísilbíla, en fram að því höfðu flestir Íslendinga kosið bensínbíl.
Nú er hins vegar almennt viðurkennt að útblástur dísilbíla er verri en bensínbíla og því er fráleitt að skattleggja bensínbíla meira en dísilbíla.
Guðmundur gefur sig ekki í skáldskapnum og segir:
Strútskýrandinn [Sigríður Andersen] segist í fyrsta lagi hafa allan rétt á að draga í efa niðurstöður vísindamanna og að fólk sem mótmæli slíku tali sé haldið pólitískri rétthugsun, vilji þöggun og ritskoðun og telji sig yfir aðra hafið góða fólkið. Í öðru lagi segir strútskýrandinn, er ekkert að hlýna í veröldinni. Í þriðja lagi, segir hann: þó að það sé að hlýna í veröldinni er það ekki vegna gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum heldur eru þetta bara eðlilegar sveiflur.
Í fjórða lagi bendir hann á að þó að það sé að hlýna á Jörðinni vegna gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum þá séu það góðar fréttir, við getum unað okkur í sólbaði, gróður vex og okkur líður vel. Í fimmta lagi segja þau að þó að hlýnunin muni hafa skelfilegar afleiðingar fyrir líf mannanna hér á Jörðu sé of seint að bregðast við [...]
Takið eftir stílbrögðunum hjá Guðmundi Andra. Hann uppnefnir Sigríði og segir í óbeinni ræðu frá því sem hún á að hafa sagt. Passar sig á að vitna hvergi orðrétt í mál hennar. Alveg klassísk aðferð vinstrimanna.
Í lok upptalningarinnar er strútskýrandinn ekki lengur hann heldur er komin fleirtala í ávirðingarnar og þau halda einhverju fram. Svona er nú orðaverksmiðjan flaustursleg og fljófærnisleg þegar ætlunin er að gera lítið úr öðrum.
Lítur nú út fyrir að Guðmundur Andri Thorson sé orðinn að hinum eina og sanna strútskýranda Íslands í tilraunum sínum til að koma höggi á Sigríði Andersen og skoðanir hennar.
Ekkert sem karlinn segir stenst skoðun. Það þýðir að hann segir ósatt ... skrökvar. Jæja, látum það vaða, hann beinlínis lýgur, býr til sögu sem ekkert er að baki. Slíkt háttalag er einfaldlega rógur, en tilgangurinn helgar víst meðalið.
Næsti þáttur í þessu undarlega háttalagi skáldsins verður eflaust sýning á því hvernig hann reynir að réttlæta ávirðingar sínar og helst margstimpla Sigríð A. Andersen sem fasista á einhvern hátt eða annan. Hann mun án efa klóra í bakkann og þá er það bara spurningin hvenær hann gefur eftir (það er bakkinn, ekki skáldið).
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta var fávísleg grein hjá honum frænda mínum og honum ekki fyllilega samboðin.
Halldór Jónsson, 16.3.2017 kl. 21:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.