Á fjallabílnum Yaris í kringum landið
11.2.2017 | 10:49
Til tíðinda bar í þessari viku að ég ók hringinn í kringum landið (kringinn í hringum, eins og sagt er á barnamáli). Tilgangurinn var að vísitera sýslumannsembættin á landinu sem er hluti af nýju starfi mínu. Það er nú ekki aðalatriðið heldur hitt að ég ók alla þessa leið á Toyota Yaris ... Trúi því hver sem vill.
Í febrúar árið 1981 ók ég síðast hringinn um landið. Þá hafði ég til afnota forláta Lada Sport jeppa sem var léttur og tiltölulega lipur í fjallaferðum. Á þeim tíma var vetur á Íslandi, en ekki eilíft haust eins og núna. Þá lenti ég í fyrstu alvarlegu vandræðunum á Holtavörðuheiði sem var illfær. Sem betur fer hafði ég haft vit á því að taka skóflu með og ég bókstaflega mokaði mig í yfir heiðina.
Svo vel stóð ég mig að þegar ég var nær komin ofan í Hrútafjörð dró snjómokari Vegagerðarinnar mig uppi enda var starf hans snöggtum léttara eftir að ég hafði rutt úr vegi erfiðustu sköflunum (minni mitt er auðvitað brigðult en ég ýki nú ekki mikið).
Þá ók ég til Siglufjarðar, mokaði mig um Lágheiði til Ólafsfjarðar, til Akureyrar, Húsavíkur, Kópaskers, Raufarhafnar, Þórshafnar, Bakkafjarðar og loks til Vopnafjarðar. Á þessum árum var ekki akfært að vetrarlagi yfir Möðrudalsöræfi svo ég fékk flutning með strandferðaskipinu Esju frá Vopnafirði til Seyðisfjarðar. Þaðan var leiðin greið um helstu bæi suður um og til Reykjavíkur þó ekki væri nú snjólaust. Ég þóttist mikil hetja eftir ferðina en fáir tóku undir, en það skiptir litlu, því eins og kallinn sagði, ef enginn hælir mér geri ég það bara sjálfur.
Nú ók ég yfir Holtavörðuheiði eins og sumar væri. Enginn snjór á heiðinni. Flennifæri um Húnavatnssýslurnar og raunar austur fyrir Mývatn. Hálka var frá Víðidal á Fjöllum og nær því ofan í Jökuldal en fyrir Yaris á nagladekkjum var þetta lítið mál. Krapi var á Fjarðarheiði en í Seyðisfirði var grænn litur ráðandi. Ég hefði ábyggilega getað farið í golf, svo fagurlega grænn var völlurinn.
Þar sem ég hef aldrei verið þekktur fyrir að velja auðvelda leið ef erfiðari er í boði þá ákvað ég að aka um Öxi. Ég var dálítið smeykur þegar þangað upp var komið enda liggur vegurinn upp í rúmlega fimm hundruð metra hæð. Þar var fyrst slabb og svo dálítill snjór. Ég óð hins vegar í gegnum þetta á fjallabílnum Yaris og hann ruddi ansi vel frá sér svo upphækkuðu jepparnir sem komu á eftir mér sluppu við festur og komust klakkalaust ofan í hinn fagra Berufjörð.
Eftirleikurinn var auðveldur. Auðir vegir til Hafnar og um allt Suðurland allt til höfuðborgarinnar.
Og svo eru það vangavelturnar eftir ferðina.
Hvers vegna í andsk... snjóar ekki lengur almennilega hér á landi að vetri til? Nafn landsins bendir til að hér eigi að vera snjór og kalt og þannig vil ég hafa það að vetrarlagi.
Eflaust eru útlendu ferðamennirnir kátir með aðstæður. Nær allir bílar sem ég mætti voru auðsjáanlega með útlendum ökumönnum. Þeir þekkjast úr.
Sérstaklega var mikil umferð á Suðurlandi, fjöldi bíla við Breiðamerkurlón. Þar sem ég gisti var nokkuð um útlendinga, þó ekki væri nú öll gisting full. Hrúga af bílum á Sólheimasandi, allir að skoða flugvélarflakið. Ótrúlegt.
Samanburðurinn á vetraraðstæðum fyrir þrjátíu og sex árum og í dag er sláandi. Vekur mann óhjákvæmilega til umhugsunar um umhverfismál og afleiðingar gerða mannsins.
Myndir:
Efsta myndin er af Spákonufelli í Austur-Húnavatnssýslu en það vakir yfir Skagaströnd. Eitt af mínum uppáhaldsfjöllum.
Önnur myndin er tekin skammt austan við Mývatn. Nær fullt tungl og sérkennilega vindskafin ský.
Þriðja myndin er tekin í blíðunni á Seyðisfirði. Grænn golfvöllurinn vekur athygli.
Fjórða myndin er frá Öxi, þeim alræmda fjallvegi. Eins og sjá má hef ég rutt hann alveg ágætlega ... nei þetta eru ný ýkjur. Færin var nú ekki verri en þetta.
Fimmta myndin er tekin í Hvalnesskriðum og horft til Austurhorns og Hvalness. Hún er tekin síðla dags, um fimm leytið.
Útlit fyrir hitamet um helgina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.