Fleiri slys hljótast af hreyfingarleysi en fjallgöngum

Íslendingar eru skyldugir til að leggja stund á göngur og skíðaíþrótt, þá vaxa þeim ekki fjarlægðir í augum. Sund, leikfimi og fleiri íþróttir eru ágætur undirbúningur fyrir fjallgöngumann jafnframt því, að hann beri virðingu fyrir líkama sínum. Ég veit, að fyrstu tilraunum fylgir nokkur hætta, ef ekki er reynt fólk með í för. En það aftrar mér ekki frá að hvetja fólk til að ganga á fjöll. Fleiri og voðalegri slys hljótast af hreyfingarleysi en fjallgöngum. Ég hef séð kunningja minn hrapa til dauða í Alpafjöllunum, en það fékk mér ekki eins mikillar sorgar og að sjá fjölda fólks, sem ég þekki, grotna niður af fitu, leti og óreglu.

MogginnÞessi tilvitnun flaug mér í hug þegar ég frétti af því að fjallamaður hefði látið lífið í snjóflóði undir Hátindi í Esju. Þetta er sorglegur atburður, átakanlegt slys. Þrír hraustir menn eru að ganga niður af fjallinu lenda í óvæntu snjóflóði, einn deyr og tveir slasast.

Aðeins miklir og traustir fjallamenn leggja í Hátind um þetta leyti árs. Þremenningarnir eru hetjur, ekki sá hluti mannkyns sem „grotna niður í fitu, leti og óreglu“, eins og Guðmundur Einarsson frá Miðdal orðaði það í bók sinni „Fjallamenn“. Tilvitnunin hér að ofan er úr þeirri bók.

Guðmundur var sjálfur hreystimenni, stundaði útiveru og ferðalög, gekk á fjöll og stundaði skíði. Hann var einn af stofnendum Fjallamanna, hóps sem byggði skála á Fimmvörðuhálsi 1949 og ferðafélagið Útivist endurbyggði 1991. Skálinn er tileinkaður minningu frumherjanna í fjallamennsku hér á landi.

ÞverárkotshálsÁsýnd Esju eru margvísleg. Árstíðirnar setja mark sitt á hana, veðurfar og ekki síst markast viðhorf göngufólks til hennar á því hvernig til tekst. Flestir ganga aftur og aftur á Esju og fá aldrei nóg. Sá sem þetta skrifar er einn þeirra.

Gönguleiðir eru fjölmargar. Ég hef að vetrarlagi séð ummerki um snjóflóð nokkuð víða og örugglega falla mörg snjóflóð í fjallinu, fleiri en tölu verður á komið. Eðlilega falla snjóflóð einkum í brattlendi en brattinn þarf ekki að vera mjög mikill og ekki heldur þarf mikinn snjó til að flóð skríði af stað.

Kort EsjaVont er að lenda í litlu snjóflóði. Um það get ég borið og get því ímyndað mér hvílík ógnaröfl börðu á þremenningunum undir Hátindi. Það er ekki aðeins snjórinn sem veldur skaða, líka grjót og möl sem flóðið rífur með sér. 

Ég er ábyggilega einn af hinum kærulausu fjallamönnum. Nær aldrei höfum við ferðafélagar kannað snjóalög áður en lagt er í brattlendi. Líklega erum flestir þannig. Hins vegar vita margir hvernig á að bera sig að til að kanna þau.

Grafin er lítill þverskurður, nokkuð djúpur. Síðan er rýnt í snjóalögin. Þá kemur oft í ljós að lögin eru mismunandi. Sum er fínkorna og þett, önnur grófari. Vandamálið lýtur að því hvernig þessi snjóalög bindast hverju öðru. Séu aðstæður þannig að hnífi megi auðveldlega koma á milli laga má telja það merki um að snjóflóðahætta sé fyrir hendi. Auðvitað eru þessi vísindi talsvert flóknari en hér má skilja.

Myndir

Efri myndin er úr frétt mbl.is, hana tók Kristinn Magnússon.

Hin myndin er tók ég af svipuðum slóðum fyrir nokkrum árum. Lengst til hægri eru Móskarðshnúkar sem teygja sig upp yfir Þverárkotsháls. Hæst ber svo Hátind, 909 m.

Á kortið hef ég svo merkt þau svæði sem ég minnist að hafa séð ummerki um snjóflóð á gönguferðum mínum.

Ég vitna oft í Guðmund Einarsson frá Miðdal. Hann var afar vel ritfær og mikill forystumaður í útiveru og ferðalögum, löngu fyrir minn tíma. Jafnvel voru margir sem lögðu honum það til lasts að hann skuli hafa ferðast um landið, skildu ekkert í þessari áráttu.

Hluti af orðum Guðmundar hér að ofan eru mér afar hugstæð. Vil gera þau að lokaorðum þessa pistils, þau eiga ekki síst við daginn í dag en þá tíð er Guðmundur lifði. Munum samt að við eigum aldrei að sætta okkur við slysin:

Fleiri og voðalegri slys hljótast af hreyfingarleysi en fjallgöngum.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband