Nýr forseti kjörinn
26.6.2016 | 12:53
Guðni Th. Jóhannesson er nýr forseti íslenska lýðveldisins. Hann er vel að sigrinum kominn, heiðarlegur og vandaður maður. Ég óska honum til hamingju með sigurinn.
Mér er engin launung á því að ég studdi Davíð Oddsson. Tel hann hafa getað gengt embætti forseta Íslands með sóma. Davíð átti þó á brattann að sækja. Fjöldi manns hefur látið sannfærast að hann sé óalandi og óferjandi, höfundur hrunsins og hafi gert Seðlabanka Íslands gjaldþrota. Þannig tala þeir sem ekki þekkja til, láta aðra taka afstöðu fyrir sig.
Merkilegt er þó hvernig keppinautar Davíðs í forsetakjörinu tala um hann. Ekki eitt styggðaryrði frá Guðna, Höllu og Andra Snæ, þvert á móti. Sá síðast nefndi segir Davíð hið mesta ljúfmenni og meinti það innilega en bætti því líka við að Davíð hefði komið sér mikið á óvart.
Guðni telur að kosningabaráttan hafi farið drengilega fram og átti þá við mótframbjóðendur sína. Hins vegar segir hann að verra hafi verið að eiga við stuðningsmenn einstakra frambjóðenda sem hafi sumir hverjir beitt illum brögðum. Ljóst má þó vera að Guðni erfir ekki neitt.
Álitsgjafar í fjölmiðlum eru sumir hverjir skrýtnir og nýta hvert tækifæri til að gera lítið úr árangri Davíðs og reyna þannig að niðurlægja hann eins og kostur er. Auðvitað eru þetta pólitískar árásir manna sem reyna að tengja stjórnmál og forsetakosningar. Davíð gerði það ekki. Kosningarnar voru ekki á pólitískum nótum. Svo eru aðrir sem fullyrða að þær hafi verið það, benda á þá sem stóðu að framboði Guðna og störfuðu fyrir hann. Þetta er ekki síður rangt og fjarstæða.
Margir opinberir álitsgjafar skilja fæst nema eigið egó. Þeir átta sig ekki á því að hver einstaklingur er margbrotinn og margtengdur. Sá sem er flokkspólitískur á ættingja, vini, vinnufélaga, gamla skólafélaga og þessar tengingar ekki aðeins persónulega heldur einnig í gegnum maka og börn.
Afstaða fólks í forsetakosningunum getur því oltið á fjölmörgum og ólíkum þáttum. Hér eru nokkur dæmi:
Vinur minn sem er sjálfstæðismaður studdi Andra Snæ vegna baráttumála hans í umhverfis- og náttúruverndarmálum.
Annar góður vinur minn, gallharður sjálfstæðismaður, studdi og vann fyrir Guðna vegna þess að þeir eru gamlir bekkjarfélagar og hafa haldið vináttu frá því í menntaskóla.
Vinkona mín sem er sjálfstæðismaður studdu Höllu, ekki vegna þess að hún er kona heldur vegna tengsla við góða vini.
Og svo er það yngri sonur minn sem lét sannfæringakraft föður síns ekki hafa áhrif á sig heldur kaus Guðna sem hann telur skynsaman mann framtíðarinnar og verði land og þjóð til sóma.
Með svona dæmi í huga og raunar miklu fleiri verður maður aldeilis undrandi á skrýtnum álitsgjöfum sem fullyrða að Davíð hafi verið hafnað. Ekki enn skilja þeir eðli mála. Þeim sem náðu ekki kjöri var ekki hafnað, annar var valinn einfaldlega valinn af ástæðum sem jafnvel má rekja til þess sem segir hér að ofan.
Skítkast, fullyrða álitsgjafarnir, stjórnmálfræðingarnir sem nota þó ekkert af fræðum sínum til að sanna þessa fullyrðingu. Þessu er best svarað með tilvitnun í hinn ágæta tónlistarmann Sverri Stormsker, sem sagði í grein á visir.is:
Davíð reyndi á einum tímapunkti að fá smá fútt í þetta með því að anda nokkrum staðreyndum á Guðna, en slíkt er stranglega bannað og er kallað skítkast og árásir af skítkastssérfræðingum kommentakerfanna.
Svo má benda á þá einföldu staðreynd að sjaldnast má Davíð Oddsson tjá sig. Þá er snúið út úr orðum hans og ... það sem verra er: Illa upplýsta fólki telur sig hafa skotleyfi á Davíð. Nei, nei. Þá er það ekki skítkast þó hraunað sé yfir manninn ávirðingum sem sjaldnast er nokkur fótur fyrir - það hefur bara heyrt eða lesið að svona sé það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.