Eftirspurn eftir svikum og prettum er meiri en framboðið

Hér áður fyrr sá ég um bókhald fyrir ýmsa aðila og gerði skattskýrslur fyrir þá sem slíkt þurftu. Í dag hjálpa ég örfáum vinum og kunningjum sem ekki nenna að setja sig í það einfalda verk að telja fram.

Rétt eins og hjá mér kemur það fyrir um áramót að fólk er með nær tóma reikninga í bönkum. Í sjálfu sér hefði engu máli skipt hvort reikningarnir væru í Landsbankanum við Austurstræti, Luxemborg, Jómfrúareyjum eða einhverjum öðrum stað í víðri veröld. Þeir hefðu verið jafn tómir fyrir því.

Sammerkt eiga allir þessir sem ég taldi fram fyrir að hafa gert skattayfirvöldum grein fyrir eigum sínum í bönkum sem yfirleitt voru íslenskir, en í undantekningartilvikum útlendir.

Þetta þýðir að eignir í bönkum voru skattlagðir samkvæmt fjárhæð þeirra, skattstofninum eins það heir víst. Í dag er það svo að allar eignir í íslenskum bönkum koma sjálfkrafa fram á skattframtölum. Um fjárhæðir og skatta vegna þeirra er því útilokað að deila. Jafnvel er það svo að alþjóðlegur samningur er í gildi um sjálfvirka upplýsingaskyldu um bankareikninga Íslendinga erlendis.

Nú hef ég aldrei talið fram fyrir neinn sem hefur geymt peninga á þeim stöðum sem kallast skattaskjól, að minnsta kosti ekki vitandi vits.

Hitt vita allir að hafi einhver talið fram á íslenskum framtali peningaeign sem geymd er í banka á Tortóla eða öðru landi þá er ekki um neitt skattaskjól að ræða. Að minnsta kosti ekki fyrir þann sem telur fram. Hann greiðir skatt af fjárhæðinni á Íslandi. Punktur og málið er dautt. 

Tómur bankareikningur á Tortóla eða öðrum skálaskjólum í veröldinni hefur sömu skattalegu áhrif og tómur bankareikningur í Landsbankanum við Austurstræti, það er að segja sé hann talinn fram. Framtaldir peningar í banka í skattaskjóli hafa þau áhrif að þeir eru skattaðir, rétt eins og peningar í íslenskum banka.

Nú kann það að vera að einhver dragi í efa sannleiksgildi orða þeirra sem eiga tóma bankareikninga í útlöndum eða peninga sem hafa verið taldir fram og beinlínis. Þá er fullyrt að sannleikanum sé hagrætt ... logið til um staðreyndir. Þá er ákveðinn vandi á höndum enda ljóst að eftirspurn eftir svikum og prettum er greinilega meiri en framboðið og það getur aldrei verið gott.

Í því sambandi má nefna manninn sem handtekinn var á bannárunum. Hjá honum fundust bruggtæki og var honum því gefið að sök að hafa bruggað áfengi og selt sér til fjárhagslega ávinnings.

Sá handtekni neitaði sök og sagði yfirvöld allt eins geta kært sig fyrir nauðgun.

Nú, spurði sýslumaður með þjósti. Eruð þér að segja að þér hafið gerst sekir um nauðgun?

Nei, svaraði aumingjans maðurinn, en ég er með tækin til þess.

Sama er með Tortóla reikninginn. Auðvitað bendir hann til þess að eigandi hafi gerst sekur um svindl og svínarí með því að eiga hann ... Er það ekki?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband