Veggjakrot er lýti á Reykjavík
16.3.2016 | 10:08
Í gær skrifaði ég lítillega um veggjakrot sem er eitt af mestu umhverfisvandamálum Reykjavíkur. Ég birti litla mynd af horni Laugavegs og Frakkastígs þar sem verktakar hafa byggt myndarlegan trévegg í kringum húsbyggingu.
Tréveggurinn var auður í gærmorgun en er nú hafa sóðarnir komist að honum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Ég reyndist ekki sannspár, hélt því fram í gær að veggurinn fengi að vera auður fram í næstu viku.
Veggjakrot eru lýti á borginni fyrir utan að vera skemmdir á eignum. Því þarf að útrýma og það verður aðeins gert með því að gera húseigendur og verktaka ábyrga fyrir því. Þeir geta svo gripið til ákveðinna ráðstafana og reynt að hafa hendur í hári þessara aumingja.
Verstur vandinn er sá að veggjakrotarar hafa ekki snefil af listrænni getu. Allt er ljótt sem þeir gera, engin mynd, engin hugsun ekkert vit. Þetta lið er einfaldlega illa innrætt fyrir utan algjöran skort á hæfileikum.
Húseigendur og húsbyggjendur eiga að vera ábyrgir fyrir að halda eignum sínum hreinum fyrir kroti. Bregði út af því á að leggja háar dagsektir á þá. Einungis þannig taka munu þeir taka til sinna ráða og finna dólganna.
Þeir munu ábyggilega setja upp betri lýsingu og eftilitsmyndavélar. Þá munu þessir andskotast finnast ansi fljótt. Eftileikurinn er að kæra þá og ná inn fyrir útlögðum kostnaði vegna skemmdarverka. Um leið og einn eða fleiri nást og verða dæmdir til hárra sektargreiðslna verður til fælingarmáttur. Hinir munu hugsa sig tvisvar um áður en gripið er til spreybrúsans.
Önnur leið er ekki til.
Hin myndin er af trévegg á horni Hverfisgötu og Frakkastíg. Hæfileikaskorturinn er þarna yfirþyrmandi rétt eins og annars staðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.