Veðurspár Veðurstofunnar og Belgings ekki samhljóða

VerðurstofanRegnið barði rúðurnar í stofugluggunum um það bil er ég var að leggja af stað gangandi þessa rétt tæpu fimm km í vinnuna.

Mér kom þetta á óvart því kvöldið áður hafði ég farið inn á vef Veðurstofunnar og þar var bókstaflega engin rigning í kortunum. Er ég kom út dró úr rigningunni og alla leiðina rigndi lítið. „Úrkoma mældist ekki ...“ svo notað sé algengt orðalag í veðurlýsingum frá Veðurstofunni.

Fjörtíu og fimm mínútum síðar opnaði ég tölvuna í vinnunni og kíkti á kortið og enn var „spáð“ þurru um morguninn þegar hafði hellirignt. Að vísu sást „úrkoma í nánd“ eins og fræg ummæli herma í áðurnefndum veðurlýsingum.

Veðurstofan hefur engan einkarétt á að „búa til“ veður og þess vegna kíkti ég á belging.is sem er afar góð veðurspásíða. Einn stjórnendum hennar er Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur, sem margir muna úr veðurfréttum sjónvarps. „Hins geðþekka veðurfræðings ...“, eins og blaðamenn með skoðun myndu orða það.

BelgingurÉg bar saman veðurspá þessara tveggja vefsíðna fyrir klukkan tólf í dag.

Til að gera langa sögu stutta virðist spá Belgings miklu ítarlegri og úrkoma svo nálæg höfuðborginni klukkan tólf að hún er í „ítarnánd“ ef svo má að orði komast.

Veðurstofan er ekki á þessum buxunum og spáir þurru eins og sést á efra kortinu. Þar er úrkoman aðeins í „hefðbundinni nánd“. Gult þýðir rigning en á Belgingskortinu er úrkoman græn.

Eflaust eru góðar og gildar skýringar á þessum mismun og engin ástæða til að fara í einhverja samkeppni um réttar og réttari veðurspár.

Græni liturinn hjá Belgingi gæti merkt skýjafar með rigningu jafnvel þó ekki fylgi úrkoma. Hugsanlega gerir Veðurstofan ekki ráð fyrir slíku.

Samt er leikmaðurinn fullur forvitni og skilur fátt.

Merkilegt er þó að Veðurstofan fullyrti í gær og í dag að vera ætti þurrt þegar regnið barði rúðurnar í stofugluggunum hjá mér um átta leytið í morgun. Jafnvel núna segir hún að það hafi verið þurrt.

Misskilningurinn er þá líklega minn enda er mér nokk sama þó rigni. Veðrið er nefnilega spurning um hugarfar ekki óáran eins og sumir halda.

Samt fylgist ég með veðurfréttum eins og þær séu hinn stóri sannleikur lífsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta er bara hefðbundinn útsynningur með skini og skúrum eftir landsynningin í gær. Ómögulegt að spá akkúrat hvenær næsta hryðja skellur á nema þá helst með aðstoð veðursjárinnar sem vakir stöðugt yfir úrkomunni.

http://www.vedur.is/vedur/athuganir/vedurradar/

Emil Hannes Valgeirsson, 29.2.2016 kl. 13:27

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Held að þetta sé rétt hjá þér, Emil. Þó gerir Belgingur ráð fyrir hryðjum en Veðurstofan ekki. Gáfuleg skýring er ábyggilega til. Hins vegar rigndi ekki um hádegið, að minnsta kosti ekki á sömu slóðum og ég var á fyrr um morguninn.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 29.2.2016 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband