Hér er ein báran stök í jarðskjálftum eða þannig ...

SkjalftarKatla er í andslitrunum, Hekla á dánarbeði, Bárður er búinn í bili ...

Hvað á ég við?

Jú, jarðskjálfta á landinu. Það er einhvern veginn þannig, sýnist okkur í Landsambandi þekkingarsnauðra jarðfræðiáhugamanna, að fátt áhugavert sé að gerast.

Á meðfylgjandi korti, sem kemur best út ef smellt er á það, merkja deplarnir jarðskjálfta. Þeir raða sér eftir réttum línum gosbeltisins sem gengur í gegnum landið. Þegar nánar er að gáð er lítið líf í helstu brotabeltum landsins nema fyrir norðan, í Tjörnesbrotabeltinu. Þar iðar allt af fjöri undir niðri.

Jarðskjálftar hér á landi haga sér eins og sauðfé. Þeir koma í hópum en bara einn birtist í einu. Þegar allt leikur á reiðiskjálfi fyrir norðan er ekkert að gerast annars staðar. Á sama tíma eru aldrei hrinur á Reykjaneshrygg, í Mýrdalsjökli, Bárðarbungu og á Tjörnesbrotabeltinu. Þetta er svo skrýtið að aðeins ein báran sé stök í jarðskjálftum.

Annað sem vekur undrun er að stórlega dregur úr skjálftum yfir vetrartímann. Lítið bara á Mýrdalsjökul, Kötlu. Þar er allt með kyrrum kjörum enda harðfrosið ofan í dýpsta helv...

Gaman að geta sagt þetta allt saman. Svo koma jarðfræðingarnir og eyðileggja allt fyrir manni. Auðvitað er Hekla ekki dauð. Mælingar sýna að hún er að þrútna út. Sama er með Bárðarbungu. Málið er að jarðfræðingar stóla á fleiri tæki en jarðskjálftamæla.

Ég set vit mitt og þekkingu á draumspakan mann sem segir að brátt dragi til tíðinda. Ég næ ekki að draga neitt upp úr honum frekar en fyrri daginn. Hann er raunar bestur að greina það sem liðið er.

Landsamband þekkingarsnauðra jarðfræðiáhugamanna er ekki sammála þeim draumspaka. Það ályktaði með þremur atkvæðum gegn tveimur að hvorki stórir skjálftar eða eldgos verði fyrr en í fyrsta lagi í ágúst á þessu ári eða næsta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband