Á annað hundrað orð yfir vind

Stundum hvarflar að manni að orðaforði margra sem starfa í fjölmiðlum sé ansi rýr. Þetta datt mér í hug þegar ungi veðurfræðingurinn sagði að á landinu væri vindasamt. Þeir eldri hefðu líklega sagt að víða væri hvasst enda fjölmörg orð og orðasambönd til sem lýsa veðri, ekki síst „vindasemi“.

Raunar eru til á annað hundrað orð sem lýsa vindi. Nefna má þessi:

  1. aftakaveður
  2. andblær
  3. andi
  4. andvari
  5. áhlaup
  6. bál
  7. bál 
  8. bálviðri
  9. belgingur
  10. blástur
  11. blær
  12. blæs
  13. brimleysa
  14. derringur
  15. drif
  16. dúnalogn
  17. dús
  18. fellibylur
  19. fjúk
  20. fok
  21. foráttuveður
  22. galdraveður
  23. gambur
  24. garri
  25. gerringur
  26. gjóla
  27. gjóna
  28. gjóstur
  29. gol
  30. gola
  31. gráð
  32. gustur
  33. hrakviðri
  34. hregg
  35. hríð
  36. hroði
  37. hrök
  38. hundaveður
  39. hvassviðri
  40. hviða
  41. hvirfilbylur
  42. hægviðri
  43. illviðri
  44. kaldi
  45. kali
  46. kári
  47. kul
  48. kuldastormur
  49. kuldastrekkingur
  50. kylja
  51. kyrrviðri
  52. kæla
  53. lágdeyða
  54. ljón
  55. logn
  56. lægi
  57. manndrápsveður
  58. mannskaðaveður
  59. músarbylur
  60. nepja
  61. næðingur
  62. næpingur
  63. ofsarok
  64. ofsaveður
  65. ofsi
  66. ofviðri
  67. ókjör
  68. óveður
  69. remba
  70. rembingur
  71. rok
  72. rokstormur
  73. rumba
  74. runta
  75. ræna
  76. skakviðri
  77. slagveður
  78. snarvindur
  79. snerra
  80. snerta
  81. sperra
  82. sperringur
  83. stilla
  84. stormur
  85. stólparok
  86. stólpi
  87. stórastormur
  88. stórveður
  89. stórviðri
  90. strekkingur
  91. strengur
  92. streyta
  93. streytingur
  94. stroka
  95. strykur
  96. súgur
  97. svak
  98. svali
  99. svalr
  100. sveljandi
  101. svipur
  102. tíkargjóla
  103. túða
  104. veðrahamur
  105. veðurofsi
  106. vindblær
  107. vindkul
  108. vindsvali
  109. vindur
  110. vonskuveður
  111. ördeyða
  112. öskurok

Í mörgum fræðigreinum tíðkast töluleg söfnun upplýsinga og í ljósi þeirra er hægt að draga nokkuð skýrar ályktanir af stöðu mála. Þetta á til dæmis við í mörgum raunvísindagreinum og einnig hagfræði.

Skyldu íslenskufræðingar rannsaka málfar með tilliti til orðaforða, fjölda orða til dæmis í bókum, greinum eða fréttum? Af ofangreindum orðum yfir andrúmslofti á hreyfingu, nota flestir orðið „vindur“. Þekkir fólk ekki fleiri orð? Spurningin er betur orðuð svona: Hvers vegna notar fólk ekki fleiri orð en þetta númer 109?

Fyrir um áratug var könnun gerð á orðafjölda í ritmálssafni Orðabókar Háskólans en í þeirri skrá voru öll orð sem þá hafði verið safnað úr prentuðu máli frá 1540 og fram á miðjan níunda áratuginn. Þessa könnun má hafa til viðmiðunar um orðafjölda í málinu með þeim fyrirvara að talsvert hefur bæst við síðar, til dæmis samsetningar af ýmsu tagi og nýyrði, ýmist búin til af orðanefndum eða sprottin upp í þjóðfélaginu þegar þörfin kallaði. Í ritmálssafninu voru þá rúmlega 610.000 orð. Af þeim voru rétt tæp 43.000 grunnorð, það er að segja orð sem hvorki voru forskeytt (til dæmis and-vari, til-brigði), viðskeytt (til dæmis góð-legur, breyt-ing) né samsett (snjó-bretti, hjóla-skauti). Samsett orð reyndust rétt tæplega 519.000 og um rúmlega helming þeirra átti Orðabókin aðeins eitt dæmi.

Þarna eru ekki talin með orð sem eru í talmálssafni Orðabókarinnar en í því safni eru orð sem ekki eru sótt í prentað mál heldur til heimildarmanna Orðabókarinnar. Í því safni eru rúmlega 50.000 orð og má áætla að dæmi um þriðjung þeirra sé ekki að finna í ritmálssafni.

Svo segir Guðrún Kvaran, íslenskufræðingur, á Vísindavefnum undir fyrirsögninni „Hvað eru til mörg orð í íslensku?.

Guðrún skrifaði líka um fjölda orða yfir snjó:

Í íslensku eru til mörg orð um snjó og snjókomu. Mikilvægt var hér áður fyrr, þegar fólk fór landshluta á milli ýmist gangandi eða á hestum, að lýsing á færi í snjó væri sem gleggst. Mjöll er notað um nýfallinn snjó og ef snjórinn er mjög laus í sér er talað um lausamjöll. Nýfallinn snjór er líka nefndur nýsnævi. Harðfrosin snjóbreiða er nefnd hjarn. Skari er notað ef efsta lag snjóbreiðu er frosið, og fari menn eða skepnur í gegnum lagið er talað um áfreða, brota, ísskel eða fastalæsing. Djúpur snjór er kallaður kafsnjór, kafald og kafaldi og smágert kafald kallast líka kafaldshjastur. Mjög blautur, djúpur snjór er stundum nefndur bleytuslag og hálfbráðinn snjór kallast krap og blotasnjó.

Él er skammvinn snjókoma oft með vindi og dimmt él er sums staðar kallað moldél. Snjógangur er éljagangur eða snjókoma með hléum en snjóhraglandi er kalsanæðingur með slyddu eða hagli og þekkist líka um það orðið snjóbörlingur. Hundslappadrífa er mikil og stórflygsótt snjókoma í logni, einnig nefnd skæðadrífa eða logndrífa. Fyrir vestan er snjókoma í logni einnig nefnd kafaldsmyglingur, hjaldur, lognkafald eða ryk. Hríð er snjókoma í vindi og þykkt hríðarveður er fyrir norðan nefnt kaskahríð. Lenjuhríð þekkist einnig fyrir norðan um fremur litla hríð en blotahríð er slyddu- eða krapahríð. Ofankoma er notað um hvers kyns úrkomu en oftast um snjókomu, él og slyddu en ofanhríð er haft um mikla snjókomu án þess að það skafi. Smáúrkoma eða él er kallað fukt og þá er sagt að hann fukti.

Bylur er stormur með ákafri snjókomu, og einnig eru notuð um það kafaldsbylur og kafaldshríð en moldbylur er alveg svartabylur þannig að ekki sér út úr augum, í senn stormur, ofankoma og skafrenningur.

Skafrenningur er snjór, sem fýkur með jörðu, líka nefndur neðanbylur, skafald, skafkafald, snjófok, snjódrif og kóf. Fjúk, snjódríf, drift, fjúkburður og fýlingur eru orð notuð yfir skafrenning ef vindur er hægur. Skafbylur, skafhríð, skafmold og skafningur eru öll notuð um skafrenning í miklum vindi og fyrir vestan þekkist sviðringsbylur um hið sama.
Þegar ofan fellur mjög blautur snjór, sem oft er nær því að vera rigning, er talað um slyddu, bleytukafald, klessing eða slytting.

Íslenskan er afar fagurt mál eins og sjá til dæmis má af ofangreindu. Því er sorglegt ef ungt fólk les ekki bækur. Hvergi annars staðar fæst viðunandi orðaforði sem hverjum og einum er nauðsyn að hafa til taks í daglegu lífi.

Rýr orðaforði birtist meðal annars í því að ungt fólk bregður fyrir sér ensku til að hugsun þeirra komist nú örugglega til skila. You understand what I mean?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Skemmtilegt hjá þér og frábær samantekt.

Már Elíson, 7.1.2016 kl. 23:50

2 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Gaman að lesa í gegnum þetta, margt sem ég man ekki eftir að hafa séð og heyrt. Versta samt er að þeir sem þurfa á því að halda að lesa og skilja, eru ekki að lesa þennan pistil hjá þér, frekar en aðra.

Þá verðum við víst að taka við ekki satt og koma skilaboðunum áleiðis.

Sindri Karl Sigurðsson, 8.1.2016 kl. 00:57

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þetta er bara samantekt eins og Már segir. Hins vegar er það rétt hjá þér, Sindri, að koma þessu áliðis til þeirra sem á þurfa að halda og raunar allra. Bestu þakkir fyrir skrifin, Már og Sindri.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.1.2016 kl. 01:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband