Úldin skata mengar í gegnum síma
23.12.2015 | 11:01
Rétt eftir hádegi á Þorláksmessu í fyrra hrindi í mig maður út af verkefni sem við vorum að vinna saman. Áttum við stutt spjall. Að því loknu þurfti ég í verslun og er ég greiddi fyrir kaupin spurði afgreiðslustúlkan hvort ég hefði verið í skötuveislu. Ég neitaði því, sagði sem satt var að úldin skata væri það versta sem ég hefði nokkru sinni bragðað. Hún sagði engu að síður að af mér væri eimur af þessari leiðu skötulykt.
Ég var dálítið hugsi eftir þetta og komst að þeirri niðurstöðu að viðmælandi minn í símanum hefði verið að koma úr skötuveislu þar sem boðið var upp á svo úldna og eitraða skötu að lyktin hefði bókstaflega mengað í gengum símann. Alveg satt, eins og börnin segja.
Þetta datt mér í hug er ég las pistil Árna Matthíassonar, blaðamanns, í Morgunblaði dagsins. Hann segir frá manni sem hafði hitt skötuneytanda á götu og sá hafi lagt hönd á öxl hans. Afleiðingin varð sú að sá fyrrnefndi lyktaði eins og úldin fiskur.
Þessaar tvær sögur eiga það sameiginlegt að af Þorláksmessuskötunni er fýla mikil sem vekur ógleði hjá flestu sómakæru fólki. Það sem er hins vegar jákvætt er að skoðanakannanir sýna að ungt fólk étur síður skötu en það eldra. Þetta er því ósiður sem um síðir mun deyja út.
Ég er ákveðinn í því að svara ekki í símann í dag fyrr en eftir klukkan fjögur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.