Svartur föstudagur fyrir íslenska tungu
29.11.2015 | 17:54
Nokkuð hefur verið rætt um Black Friday tilfellið sem óð yfir landsmenn á föstudaginn var. Hér er enn á ný um að ræða landnám amerískra verslunarhátta hér á landi. Áður höfðu numið hér land Valentínusardagurinn, Halloween, Tax Free og ábygglega margt fleira sem ég man ekki eftir í augnablikinu.
Máttur auglýsinganna er mikill. Um það fer enginn í grafagötur. Fæstum agnúast þó út í það sem þeir hugsanlega geta hagnast á. Þar renna saman hagsmunir kaupmanna og neytenda. Fyrst svo er mætti halda að báðir þessir hagsmunaaðilar gætu sameinast í því að tala íslensku og viðhalda henni.
Staðreyndin er sú að íslenskunni fer hnignandi. Ekki endilega vegna þess að verið er að sletta ofangreindum orðum í söluræðum heldur miklu frekar vegna þess að yngra fólk er farið að nota ensku eins og hún sé móðurmálið.
Þetta sést mætavel á Facbook. Fæstir hafa við að þýða snjallar tilvitnanir á ensku heldur birta þær orðréttar. Slettur úr öðrum tungum eru mun sjaldgæfari.
Ég held að íslensk kennarastétt standi sig ekki sem skyldi. Ef hún gerði það væri ungt fólk almennt vel máli farið og legði alúð í mál sitt, væri vel lesið og vel skrifandi. Svo er því miður ekki og má greinilega sjá þetta meðal ungra blaða- og fréttamanna. Verst er þó að enginn leiðbeinir.
Höfuðborgarbúar ættu að ganga niður Laugaveginn í Reykjavík. Ábyggilega 90% nafna á verslunum, veitingastöðum og hótelum eru á ensku. Hvers vegna skyldi það vera? Jú, líklega til að auðvelda útlendingum valið. Þetta er engu að síður mikill misskilningur. Ég hef farið nokkuð víða utan Íslands og finnst lítið tiltökumál þó ég langflest nöfn á veitingastöðum, hótelum og verslunum í Aþenu séu á grísku, á Spáni er spænskan ráðandi og á Ítalíu er það ítalskan. Myndi nokkur Frakki með réttu ráði nota enskt nafn á verslun sína eða veitingastað?
Hvers vegna erum við Íslendingar svona enskuskotnir? Er íslenskan ekki nógu góð?
Thanksgiving Day hefur á íslensku fengið nafnið Þakkargjörðarhátíð. Var þessi þýðing erfið eða flókin? Nei, en um það snýst ekki málið. Hvorki að þýðing úr ensku og yfir á íslensku sé einhverjum vandamálum bundin né heldur að við þurfum að taka útlenda siði og festa þá í gildi hér á landi. Í fljótu bragði sýnist þetta ástfóstur á erlendum siðum byggjast á skorti á þjóðlegri sjálfsvitund. Þegar málið er nánar skoðað horfum við bara of mikið á amrískar bíómyndir og undirmeðvitundin heldur að við séum ekki lengur íslensk.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Er það ekki tilfellið að kanski er Ísland opnari fyrir amerískum siðum en evrópskum vegna þess hversu nálæg USA er. Kanski ætti Ísland að verða 51st. Ríkið í USA, en ekki að vera fikta við ESB.
En tungumál eru að breytast aðallega vegna netheimsins, flest það sem er á vefsíðum netheimsins er á ensku, þar af leiðandi til að geta fylgst með almennilega, þá þarf fólk að hafa vald á ensku.
Kveðja frá Houston
Jóhann Kristinsson, 29.11.2015 kl. 18:09
Jú, þetta er rétt hjá þér, að minnsta kosti seinni hlutinn. Hefði átt að nefna netið í pistlinum. Það er stór áhrifavaldur.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 29.11.2015 kl. 18:12
Það má líka bæta því við að síminn er að breyta enskunni að miklu leiti og þar á eg við SMS eða það sem er kallað texting, þarf ekki nema að lesa twitter sendingar, sem eg geri litið af enda ekki með twitter. þvílíkt hrognamál hef eg ekki séð og oft á ég erfit með að skilja það sem er skrifað í þessum texta símasendingum svo slæmt er það.
En Sigurður, sennilega verðum við að taka þessu eins og það er. Oft er sagt "tímarnir breytast og mennirnir með."
Kveðja frá Houston
Jóhann Kristinsson, 29.11.2015 kl. 18:26
Rétt hjá þér, Sigurður..Þetta er að verða sjúklegt.
Már Elíson, 29.11.2015 kl. 19:09
Þriðjudag sl,sótti ég kaffifund í safnaðarheimili Kópavogskisrkju.Þar mætti vel menntaður áhugamaður um íslenskt mál,sem kennir bæði í H.Í.og grunn skóla. Hann kenndi líka í Chicago í 4 ár. Hann sagðist ekki hafa áhyggjur af að íslenskan deyji út og sagði okkur þó nokkuð um móðurmálskennslu sína hér.
Hann hvað nemendur sýna mikinn ahuga á málfræði og almennt uppbyggingu málsins.Tók hann dæmi um kennslu aðferð sem hann notar með málsháttum þar sem þeir eru oft með stuðla og höfuðstafi og hrynjandinn þá alllíkur ljóðum, "Barnið vex en brókin ekki".
Fékk hann þau til að búa sjálf til málshætti.Einn þeirra er svona;"Hárið vex en heilinn ekki". Vil taka fram,
Þar sem ég man ekki nafn kennarans en veit að hann hefur hafið útgáfu tímarits sem heitir "Stuðlaberg"og kemur út 2-3 á ári,gáði ég í google þar er útgefandi nefndur Ragnar Ingi Aðalsteinsson. Mb.KV.
Helga Kristjánsdóttir, 29.11.2015 kl. 23:13
Ekki laust við smá aulahroll hjá manni, að sjá hve landinn er auðteymdur eins og bjálfi, á eftirapanir frá "Amríkunni". Fólk farið að standa í biðröð, jafnvel deginum áður! Skiljanlegt að sem flestir vilji gera góð kaup, en kannaði einhver þeirra sem svaf í biðröð, hvort um einhverja raunverulega lækkun var að ræða, eða fóru þeir bara í biðröð.....afþvíbara?
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 30.11.2015 kl. 01:18
Söluturninn Þöll stóð lengi við "Hallærisplanið", en gekk ekki sem best. Eftir að þar opnaði "Texas Snack Bar" hafa viðskiptin hinsvegar blómstrað. Sammála síðuhöfundi um vafasama þróun nafngifta á hérlendum fyrirtækjum. Hugmyndaflugið er nánast ekkert orðið.
Halldór Egill Guðnason, 30.11.2015 kl. 01:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.