Var einkavæðing bankanna ástæðan fyrir hruninu?

Það leggur okkur ríkar skyldur á herðar ef að Íslandsbanki færist í hendur ríkisins, sérstaklega þegar við völd situr ríkisstjórn þeirra flokka sem eiga Íslandsmet, kannski Evrópumet eða heimsmet í spillingu við sölu ríkisbanka.

Þetta sagði Árni Páll Árnason, þingmaður, fyrrum ráðherra og sem stendur formaður Samfylkingarinnar, í umræðum á Alþingi 20. október 2015.

Þegar rök þrýtur gera margir eins og tíðkast í athugasemdardálkum fjölmiðla, láta leirinn vaða, kasta skítnum í allar áttir. Illa gert fólk heldur nefnilega að upphafning sjálfsins byggist á því að niðurlægja aðra. Með því er málefnaleg umræða horfin og ekkert eftir nema ómerkilegur sandkassaleikur.

Stuttu eftir hrunið var mikið um það rætt að breyta pólitískri umræðuhefð hér á landi, láta af illdeilum og nota málefnaleg rök í staðin. Vont að Árni Páll Árnason taki slíkar breytingar ekki í mál.

Úr því að formaður Samfylkingarinnar tekur ekki sönsum en spriklar í gamalli skítlægri umræðuhefð er ekki úr vegi að skoða enn einu sinni staðreyndir um einkavæðingu bankanna.

Spurningin er þessi: Var einkavæðing bankanna ástæðan fyrir því að þeir fóru á hausinn og voru þar með valdir að hruninu?

1.

Ein mikilvægasta stofnun Alþingis er Ríkisendurskoðun. Munum að hún lýtur ekki framkvæmdavaldinu heldur löggjafarvaldinu. Enginn getur haldið því fram með neinum rökum að stofnunin sé vasanum á stjórnvöldum á hverjum tíma og framleiði fyrirfram ákveðnar niðurstöður. Hún nýtur einfaldlega óskoraðs sjálfstæðis og fer vel með það. 

Í Desember 2003 gaf Ríkisendurskoðun út skýrsluna „Einkavæðing helstu ríkisfyrirtækja árin 1998-2003. Þetta er afar merkileg skýrsla og raunar sú eina sem gerð hefur verið á einkavæðingu bankanna. 

Enginn hefur gagnrýnt úttektina. Það sem merkilegra telst er að þeir sem hafa hnýtt í einkavæðingu bankanna gera það ekki með rökum úr skýrslunni. Jafnvel Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, getur ekki stuðst við eitt einasta orð í skýrslu Ríkisendurskoðunar í ásökunum sínum um spillingu og hann reynir það ekki einu sinni. Frekar notar hann frumsamdar ávirðingar sem auðvitað styðjast ekki við sannleikann.

2.

Jú, bankarnir féllu, en var það vegna þess að þeir höfðu verið einkavæddir? Margir halda því fram.

Það gleymist þó að Glitnir var ekki ríkisbanki og hafði aldrei verið, ekki heldur forverar hans. Hann var stofnaður sem Íslandsbanki árið 1990 en ári áður höfðu einkabankarnir Iðnaðarbankinn, Alþýðubankinn og Verslunarbankinn keypt hlut ríkisins í Útvegsbanka Íslands

Var þá hrunið vegna einkavæðingar tveggja ríkisbanka? Í áðurnefndri úttekt Ríkisendurskoðunar voru engar athugasemdir gerðar vegna þessa þó hún segi að um sölu á ráðandi hlut í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands:

 „... verði að teljast óheppilega. Í fyrsta lagi var ekki komin reynsla á þá söluaðferð sem valin var og í öðru lagi gaf hún minni möguleika á að viðhalda samkeppni milli áhugasamra kaupenda.

Þetta er eiginlega það bitastæðasta sem Ríkisendurskoðun hafði um einkavæðinguna að segja. Engin spilling fannst, ekkert tortryggilegt annað en þetta með dreifða eignaraðild. Engu að síður voru um 32% Landsbanka Íslands í eigu annarra en tíu stærstu hluthafanna.Þvert á þetta talar Árni Páll Árnason um heimsmet í spillingu vegna einkavæðingar. Varla verður fátt um svör þegar hann er spurður um rökin fyrir fullyrðingu sinni. Sumir eru vanir að tala sig út úr vandræðum.

3.

Einkavæðing bankanna var eðlilegur þáttur í framþróun þjóðfélagsins. Fyrirkomulagið sem gilti áður var gjörsamlega gagnslaust. Ekki nokkur maður með viti vill fara aftur til þeirra ára er þingmenn sátu í bankaráðum og bankastjórar voru skipaðir pólitískt.

Um leið ættu allir að vita að bankar eru í einkaeigu víðast um öll lönd, engin krafa hefur verið gerð um breytingar á því fyrirkomulagi. Vandinn í bankarekstri, eins og í öðrum rekstri, er að misjafn sauður er í mörgu fé. Einkavæðing bankanna mistókst ekki, en þeir sem eignuðust þá og ráðandi hluti í þeim fóru með þá á hausinn. Svo einfalt er málið.

Það tíðkasta að tala um spillingu jafnvel gjörspillingu, sérstaklega í stjórnkerfinu ef ekki líka á Alþingi. Þannig tala aðeins rökþrota fólk sem reynir með öllum ráðum að upphefja sjálft sig. „Nei, ég er sko ekki spilltur það eru allir hinir sem eru vondir og spilltir.“

Einkavæðing ríkisbankanna tveggja var ekki ástæðan fyrir hruninu. Ekki frekar en það sé bílaframleiðandanum Toyota að kenna að ökumaðurinn í Yaris bílnum var fullur og olli stórslysi. Sé svo er öllu snúið á hvolf, rangt verður rétt og rétt verður rangt. Haldi Árni Páll Árnason slíku fram þá er það aðeins tímabundin skoðun.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Haf þ0kk fyrir góða yfirferð á sleggjudómum göturæsisins sem Árni Pál viðhefur. Hann hefur sem stjörnvitni sitt Gróu á Leiti, sem og dómstjóra. Það veit aldrei á gott.

Mig minnir að Iðnaðarbankinn sé stofnaður um 1947 og lifði ágætu og vönduðu lífi þar til útrásarvíkingar eignuðust Íslandsbanka og nafnbreyttu í Glitni og settu síðan á hausinn. Merkilegt samt í umræðunni, að banki sem aldrei var einkavæddur, enda einkabanki frá upphafi ef frá er talin viðbótin sem fólst í kaupum á eignasafni Útvegsbankans, að hann féll fyrstur bankanna. 

Menn muna ekki að ríkisstjórn Árna Páls gaf Íslandsbanka og Aríon nánast til barrakúdanna á Wall Street og fór þar fremstur í flokki jarðfræðineminn sem fer nú mikinn yfir aðgerðum fjármálaráðherrans að ætla að taka Íslandsbanka yfir, þar sem hann treystir síður íslendingum að koma vel fram við viðskiptavini sína en barrakúdurnar á Wall Street.

Margt er stórskrítið í kýrhausnum sem og vinstrimönnum.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 21.10.2015 kl. 14:55

2 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Sigurður: Þú gleymir einum hlekk í keðjunni þegar þú fullyrðir að Glitnir banki og forverar hans hafi ekki verið ríkisbankar, en það er hlutur FBA, en hann var fyrsti ríkisbankinn sem var einkavæddur.

Fjárfestingarbanki atvinnulífsins (FBA) var banki sem varð til úr Fiskveiðisjóði Íslands, Iðnlánasjóði, Útflutningslánasjóði og Iðnþróunarsjóði. Bankinn var stofnaður 1. janúar 1998 gagngert til að einkavæða þessa sjóði. Hann var að fullu í eigu ríkisins og forstjóri bankans var Bjarni Ármannsson. Þann 15. maí árið 2000 sameinaðist FBA Íslandsbanka, og til varð Íslandsbanki-FBA hf., sem síðar var endurnefndur Glitnir árið 2006. Við sameininguna eignuðust hluthafar FBA 49% í Íslandsbanka-FBA.

Það er því ekki alls kostar rétt að allir forverar Íslandsbanka hafi ekki verið ríkisbankar.

Erlingur Alfreð Jónsson, 21.10.2015 kl. 17:23

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þakka fyrir innleggið, Erlingur. Ég vissi þetta svo sem enda skrifað áður í sama dúr. Sleppti þessu til að stytta pistilinn, fannst hann of langur.  Engu að síður, bestu þakkir.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 21.10.2015 kl. 20:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband