Er kominn tími til að hlusta á Pútín?
28.9.2015 | 22:28
Stöðutaka Rússa í Sýrlandi síðustu vikur er öðrum þræði svar við tilraunir Nató-ríkja að ná forræði yfir Úkraínu. Pútín færði víglínuna frá bakgarði Rússa til mið-austurlanda þar sem vesturveldin eru í viðkvæmri stöðu.
Stefna Bandaríkjanna í mið-austurlöndum er rúin trausti enda litið á innrásina í Írak 2003 sem klúður er skóp samtökum á borð við Ríki íslams tækifæri til að láta að sér kveða. Bandaríkin eru klunnar, reyna að þjálfa svokallaða hófsama múslíma sem byrja á því að gefast upp og afhenda hryðjuverkamönnum vopn og búnað.
Þannig ritar Páll Vilhjálmsson á bloggið sitt í dag, Tilfallandi athugasemdir. Held að þetta sé rétt hjá honum.
Maður er lengi búinn að fylgjast með alþjóðastjórnmálum og sannast sagna er engu líkar en afskipti Bandaríkjamanna hafi gjörbreytt stöðu mála til hins verra. Lítum á innrásir í Írak, afskipti af svokölluðu arabísku vori í Líbýu, Túnis, Sýrlandi og víðar. Ekki er úr vegi að skoða málin enn lengra aftur í tímann. Allt ber þó að sama brunni. Frá því að Bandaríkjamenn töpuðu stríðinu í Víetnam hefur allt farið í handaskolum hjá þeim og raunar í heiminum öllum.
Stjórnmálaþróunin í austanverðri Evrópu, Austurlöndum nær og í Norður Afríku hefur verið hræðileg, fyrst og fremst fyrir íbúa þessara landsvæða en ekki síður fyrir Evrópu.
Í dag fluttu forsetar Bandaríkjanna og Rússlands ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þeir voru greinilega ekki sammála. Hins vegar skaðar ekki að leggja hlustir við það sem Pútín segir í stað þess að trúa blint hinum sléttmælta Obama sem segir margt en sjaldnast fylgja neinar efndir.
Auðvitað er Pútín ruddi í alþjóðasamskiptum eins og Páll Vilhjálmsson bendir á. Þegar grannt er skoðað virðist hann þó beita sömu ráðum og Bandaríkjamenn og Nató-ríkin, deila, drottna og hóta. Rússar gera það fyrir opnum tjöldum en vani Bandaríkjamanna og Vestur-Evrópuríkja er að gera það í reykfylltum bakherbergjum, svo gripið sé nú til gamaldags frasa.
Bandaríkjamenn eru klunnar og það eru Rússar líka. Þess vegna eru mál komin í slík óefni sem þau eru í Sýrlandi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.