Magnús Pálsson

Í sundlaugunum í Laugardal í Reykjavík hittir maður jafnan mjög marga, sérstaklega í heitu pottunum og þá takast oft kynni. Einn af þeim minnisstæðustu sem ég hef þar hitt er Magnús Pálsson, rafiðnaðarmaður. Ég sá í Morgunblaði dagsins minningargreinar um hann og það kom mér mikið á óvart að þessi einstaklega skemmtilegi maður skuli vera dáinn. Skemmtilega fólkið deyr víst líka rétt eins og við hin.

Magnús var einn af þessu kátu mönnum sem blandaði geði við alla í heita pottinum. Spjallaði við samlanda sína og útlendinga. Oftar en ekki ávarpaði hann ungar og fallegar konur á þann hátt að innan skamms voru komnar skemmtilegar samræður um lífið og tilveruna. Jafnvel við, fýlupúkarnir, sem vildum helst ekki eiga orðastað við nokkurn mann, lifnuðum við.

Honum lá svo sem ekkert sérstaklega hátt rómur en honum var sama um eyru annarra. Í pottinum frétti maður af ferð hans til Spánar, af ástandi hússins hans, veitingastöðum, gestum og svo börnunum hans. Allt lífið var svo ánægjulegt og skemmtilegt í augum Magnúsar. Hann tókst jafnvel á við efnahagshrunið og náði að halda húsinu sínu á Spáni með útsjónarsemi og skynsemi.

Magnús sagði frá fólki og atburðum sem hann hafði upplifað á langri æfi, tjáði sig um dægurmálin og stjórnmálin, spurði oft en var frekar í hlutverki sögumannsins. Og hann kunni frásagnarlistina og það var alltaf gaman að hitta hann. Verst er þó að muna ekki hvenær fundum okkar bar síðast saman, líklega hefur það verið síðasta haust.

Svo les ég í minningargrein að dánarmeinið hafi verið krabbamein. Ég minnist þess ekki að hann hafi nokkurn tímann rætt um þann vágest. Það segir dálítið um þennan félagslynda mann að síst af öllu bar hann slíkt á torg. Hann sóttist ekki eftir samúð heldur gleði og ánægju.

Í huga mínum þakka ég fyrir að hafa hitt Magnús. Hann var góður maður. Í minningargreinunum má sjá að það mat er rétt. Hann átti góða fjölskyldu, mörg börn, barnabörn og barnabarnabarn. Það er mikill auður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Magnús var öndvegismaður, ég sá hann aldrei öðruvísi en hressan og málglaðan, umtalsgóðan, velviljaðan, bjartan yfirlitum og aufúsugest á öllum mannamótum. Blessuð sé minning hans.

Jón Valur Jensson, 4.6.2015 kl. 09:32

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Já, þannig er honum rétt lýst, Jón Valur.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 4.6.2015 kl. 22:52

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Góðir svona pistlar. Manni finnst eins og virkilega sé hægt að menn og konur að sjálfsögðu, geti lifað!

Halldór Egill Guðnason, 5.6.2015 kl. 01:24

4 Smámynd: Egill Þorfinnsson

Sigurður, ég sat oft með honum í heita pottinum í Sundhöllinni og tek undir hvert orð.

Egill Þorfinnsson, 5.6.2015 kl. 09:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband