Engin mótmælaganga þjóðarleiðtoga - aðeins uppstilling
9.2.2015 | 10:07
Muna lesendur eftir öllum látunum þegar forsætisráðherra Íslands fór ekki í samstöðugönguna vegna morðanna í útgáfufyrirtæki Charlie Hebdo. Sagt var að allir málsmetandi forsætisráðherrar og þjóðarleiðtogar hefðu raðað sér fremstir í göngu þúsunda til varnar tjáningarfrelsinu.
Nú berast þær fréttir að samstöðuganga fyrirfólksins í París hafi ekki verið eins og fjölmiðlar vildu telja okkur trú um. Við fengum myndina af samstöðunni eins og hún birtist hér hægra megin á síðunni og við, lesendur fjölmiðla, táruðumst yfir góðmennskunni. Sáum þó marga þjóðarleiðtoga sem hingað til hafa ekki verið þekktir sem ákafir stuðningsmenn tjáningarfrelsins í löndum sínum og jafnvel ekki annars staðar. Látum það nú samt vera.
Ögmundur Jónasson, þingmaður, vakti athygli á heimasíðu sinni á vefsíðunni voltairenet.org. Þar kemur loksins fram að samstöðugangan var aðeins ómerkilegt PR trix. Hann segir á vefsíðu sinni:
Ég stóð í þeirri trú að leiðtogar rúmlega fimmtíu ríkja, auk fulltrúa einhverra ríkja til viðbótar, hefðu staðið í fararbroddi tveggja milljóna Frakka til stuðnings tjáningarfrelsinu eftir morðin í París í ársbyrjun.
Svo var ekki upplýsir vefsíðan voltairenet.org. Látið hafi verið líta útfyrir að forystufólkið hefði staðið í fararbroddi en veruleikinn hafi verið allt annar. Þessi mannskapur hafi mætt í hliðargötu til myndatöku en síðan ekki söguna meir.
Ef til vill skiptir ekki höfuðmáli hvort stjórnmálamennirnir voru aðeins á myndum sem teknar voru til hliðar því þeir voru þrátt fyrir allt mættir til að sjást og tengjast samstöðufundinum. En ef þetta er aukaatriði þá gildir það varla um þögn fjölmiðlanna og samvinnu (samsekt?) þeirra í að klippa saman í eitt, fjöldann og forystumennina, og láta líta svo út að þeir hafi staðið í farabroddi fólksfjöldans. Þetta virðist nefnilega hafa kallað á natni og yfirlegu að láta allt líta út öðru vísi en það var!
Undir þessi orð Ögmundur tek ég fullkomlega. Þetta er ein mesta fréttafölsun sem ég man eftir í seinni tíð.
Þeir íslenskir stjórnmálamenn sem gagnrýndu forsætisráðherra vissu að sjálfsögðu ekki um þetta ómerkilega leikrit sem sett var á svið í hliðargötu í París fyrir ljósmyndara og kvikmyndatökumenn eina. Og ekki vissi forsætisráðherra af þessu sjálfur.
Í ljósi þessa er þó ástæða til að gagnrýnendur hugsi sitt mál og séu varkárari í orðavali næst þegar svona mál koma upp. Og svona lagað mun gerast aftur. Gagnrýnin á forsætisráðherrann hlýtur nú að skoðast í þessu ljósi.
Skömmin er hins vegar fjölmiðla og þjóðarleiðtoga sem lugu að heimsbyggðinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hálfsannleikur er stundum verri en lygi. De Gaulle gekk hnarreistur inn í París í fararbroddi og tók áhættu af skotum frá leyniskyttum.
Það var þess vegna sem menn virðast hafa hyllst til þess að banka í eitthvað svipað, sem þó var óframkæmanlegt og átti því að segja sannleikann allan, - ekki hálfan, að þjóðarleiðtogarnir hefðu gengið saman um stræti í París og fólkið gert það líka, - í öðru stræti.
Ómar Ragnarsson, 9.2.2015 kl. 11:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.