Sauðkræklingur, Sauðkrækingur eða Sauðárkrækingur

Á heitir Sauðá og rennur sína leið í Skagafirði vestanverðum. Við hana er kenndur bærinn Sauðárkrókur. Íbúar þar hafa lengi þurft að þola þá raun að bærinn væri nefndur Sauðar- og jafnvel Sauða-krókurog þeir Sauð-kræklingar. En þeir eru Sauð-krækingar.

Svo segir í Málinu í Morgunblaði dagsins og þeim sem annt er um málið lesa hann daglega enda dálkurinn örstuttur og alltaf skemmtilegur. 

Erfitt er að líta framhjá málvenju og lengi voru þeir sem innan við Sauðá bjuggu nefndir Sauðkræklingar. Svo breyttist það, eflaust vegna áhrifa frá heimamönnum sem síst af öllu vildu vera nefndir eftir skelinni. Þó kann hún að finnist í árósum Sauðár. Hún mætti því öllum að skaðlausu heita sauðárkræklingur eða jafnvel sauðkrælingur

Bærinn er bæði kenndur við ána og krókinn fyrir innan. Ekki veit ég hvort sá krókur sé örnefni, að minnsta kosti sé ég það ekki á landakorti. Sé litið á landakort eða staðið ofan við bæinn er krókurinn miklu frekar horn ...

Mér sýnist í fljótu bragði  að á landinu séu milli fimmtán og tuttugu ár sem nefnast Sauðár og enn fleiri Krókar. Þó eru aðeins þrír staðir sem nefnast Sauðárkrókur, tveir fyrir utan þann við Skagafjörð. Hinir eru báðir á Austurlandi, annar austan við Hálslón, skammt sunnan við Kárahnúka. Hinn á flatri Fljótsdalsheiði. Hvorugu hefur unnið sér viðlíka nafn og sá við Skagafjörð, hvorki í sögu né öðru.

Væri byggð við Sauðárkrók austan Hálslóns myndu þeir sem þar byggju ábyggilega vera kallaðir Sauðæringar til að aðskilja þá frá Sauðkrækingum. Við nánari íhugun getur þetta þó ekki staðist nema krókurinn væri nefndur eftir sauð og á (kind). Eða hvað?

Sem betur fer er ekki þannig farið með Sauðárkrók. Þeir kallast bara Sauðkrækingar og þá er árheitinu sleppt. Ætti auðvitað að vera Sauðárkrækingar. Má vera að þetta sé nú bara sauðslegur útúrsnúningur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband