Byssur, löggan, almenningur og ofbeldi

SS logreglan 1977

Þegar ég var tvítugur var ég þess heiðurs aðnjótandi að vera ráðinn í lögregluna, var svokallaður sumarlögreglumaður. Var í þessu starfi í tvö sumur, 1978 og 1979. Þetta var gríðarlega lærdómsríkur tími, heillandi, skemmtilegur en um leið hræðilegur. Maður kynntist ýmsu misjöfnu, sumu góðu og öðru slæmu. 

Ég náði kynntist mörgum góðum lögreglumönnum, óbreyttum, varðstjórum, yfirlögregluþjónum og lögreglustjóranum. Eiginlega kom mér það mest á óvart að allt voru þetta ósköp venjulegir menn sem komu í vinnuna sína, sinntu henni af alúð og skyldurækni, fóru svo heim til fjölskyldu sinnar.

Hérna verð ég að skjóta inn lítill sögu. 

Þegar ég var kringum sex til níu ára aldur „teikuðum“ við Gaui, æskuvinur minn bíla eins og siður var hjá öllum heilbrigðum strákum meðan snjór var nægur. Stundum um helgar hjálpaði ég honum Gauja að bera út Tímann. Eitt sinn er við áttum eftir að fara í örfá hús í neðri Barmahlíð eða Mávahlíð, man það ekki, sáum við leigubíl nema staðar til að hleypa farþega út. Tækifærið var gráupplagt og við gripum það. Fengum salíbunu alveg niður að Engihlíð, þá slepptum við takinu, hlógum og ærsluðum í einhvers konar endorfínvímu. Þá kom löggan að okkur án þess að við sæjum, greip okkur glóðvolga. Við urðum óskaplega hræddir, sáum sæng okkar uppreidda. Biðum refsingar löggunnar, foreldra okkar, skólans og við urðum sannfærðir um að við kæmumst ábyggilega aldrei inn í himnaríki, ekki vegna þess að við „teikuðum“ heldur af því að við vorum staðnir að verki.

670900-3

Þá gerðist nokkuð merkilegt. Löggumaðurinn skammaði okkur ekki, tók okkur ekki fasta, heldur talaði við okkur eins og jafningja. Hann bauð okkur inn í lögreglubílinn og þar sagði hann og félagi hans okkur frá slysum og óhöppum sem orðið höfðu þegar strákar „teikuðu“ bíla. Svo kvaddi hann, við sluppum, urðum aftur frjálsir menn. Ræðuhöld lögreglumannanna höfðu þó þær afleiðingar að við hétum hvorum öðrum því að „teika“ aldrei aftur. Og við það stóðum við báðir, að minnsta kosti í mörg ár á eftir. Hvað svo sem síðar gerðist ...

Þessa sögu segi ég vegna þess að ég hafði bara góða reynslu af löggunni og hún breyttist ekki við að starfa þar. Þetta er bara fólk í vinnunni sinni.

Nú gerist það að fjölmargir geta vart á sér heilum tekið vegna þeirrar staðreyndar að lögregla landsins er vopnuð og gæti hugsanlega fengið enn öflugri vopn en hún þegar hefur. Af þessu hef ég ekki miklar áhyggjur. Lögreglumenn munu ábyggilega fara vel með þau tæki og tól sem þeir hafa. Hjá þeim byggist yfirleitt allt á því að tryggja öryggi almennings. Þeir eru þó til, eru örfáir sem treysta ekki lögreglunni og vilji helst af öllu berja á henni. Þetta fólk skilur ekki eðli starfsins. Slíkt fólk grýtti lögregluna fyrir framan Alþingishúsið og stjórnarráðið við Lækjartorg í mótmælunum 2008 og 2009. Lögregluna sem gætti almannaeigna og einstaklinga á þingi og í ríkisstjórn, þá sem sinntu starfi sínu af skyldurækni.

Sumt fólk skilur ekki lögreglustarfið. Mér er eitt furðulegt atvik frá störfum mínum í lögreglunni í fersku minni. Við vorum sendir fjórir í bíl niður á Lækjartorg en þar voru gangandi lögreglumenn í vandræðum með drukkinn mann. Þegar þangað var komið stóðu félagar okkar og reyndu að ræða við drukkna manninn og félaga hans. Það gekk illa. Hann hafði í hótunum og var reiður mjög. Hann hafði brotið rúðu og var ástæða til að taka manninn inn og gera skýrslu um atvikið. Þegar að félagar mínir reyndu að leiða hann í burtu streittist hann á móti. Hann var fílefldur og þurftum við sex menn að taka verulega á til að koma honum í járn.

Og hvað haldið þið að sumir af þeim sem stóðu í kring hafi sagt?

„Þvílíkur ruddaskapur í löggunni. Ráðast sex á einn mann!“

Þetta heyrði ég frá mörgum. Hvað vildi fólkið eiginlega að lögreglan gerði? Áttum við að bjóða upp á einhvers konar „sanngjarnan fæting“, einn á móti einum. Reyna einn í einu að handtaka bandbrjálaðan mann og fjarlægja hann?

Það hefði ábyggilega endað með stórslysi fyrir báða aðila. Um síðri komum við aumingjans manninum inn í bíl, fórum með hann á lögreglustöð, létum hann þar sofa úr sér. Daginn eftir var hann hinn vænsti maður og sá eftir öllu. Hann átti bara í vandræðum með áfengi.

Stundum fórum við í íþróttatíma hjá honum Guðbrandi Þorkelssyni, varðstjóra. Hann kenndi okkur græningjunum ýmis brögð brögð sem áttu að koma að góðum notum við handtöku vandræðagemsa. Svo kenndi hann að ganga í takt, heilsa með „honnör“ og annað gáfulegt.

Guðbrandur hélt því fram að við ættum að vera stuttklipptir.

„Svona eins og ég“, gall í mér.

Hann gekk að mér og skoðaði á mér kollinn. Svo gerðist það eldsnöggt, að hann greip í hárið á mér og snéri mig niður án þess að ég gæti rönd við reist.

„Nei, Sigurður, þú ert með of mikið hár,“ sagði hann. „Hver og einn getur haft þig undir og annað hvort stórslasað þig eða drepið.“

Auðvitað var þetta rétt hjá honum. Verð þó að taka það fram að á þessum árum var ég hárprúður og með gáfuleg kollvik. Þau hafa síðan smám saman náð yfir allt höfuðið. Hitt er víst að enginn getur lengur snúið mig niður á hárinu ...

Auk íþróttatíma voru skotæfingar ... Má nefna það í ljósi umræðunnar? 

Jú, auðvitað átti lögreglan þá eins og nú skotvopn. Skammbyssur, riffla, haglabyssur og ég heyrði að einhvers staðar væru til hríðskotabyssur, sá þær þó aldrei.

Við fengum í hendur skammbyssur, „revolvers“ svona eins og notaðar eru í kábojmyndum. Okkur var sagt hvernig ætti að nota byssurnar, hvað ætti að varast og hvernig ætti að halda þeim við. Framar öllu var okkur sagt að við ættum aldrei að láta þær sjást, notkun þeirra væri algjört neyðarúrræði. Aldrei voru þær notaðar meðan ég var þessi tvö sumur í lögreglunni. Minnir þó að í sumum vegalögreglubílum hafi skammbyssa verið í tösku.

Árlega fór fram keppni í skotfimi með skammbyssu. Ég var dálítið hittinn og fékk að minnsta kosti munnlegt hrós fyrir árangur. Held að seinna árið sem ég var í löggunni hafi við á B vaktinni unnið keppni vakta.

Sem sagt. Byssur hafa verið til hjá lögreglunni. Margt hefur þó breyst frá því ég var sumarlögreglumaður og æfingar og meðhöndlun skotvopna allt önnur. Ég hef þó enga trú á öðru en að grundvallarhugsun stjórnenda lögreglunnar sé hin sama og áður. 

Ég hef ekki áhyggjur af lögreglunni. Held vandinn sé þeir sem ráðast með ofbeldi að lögreglunni vegna þess að ofbeldismaður lætur hendur skipta hvort sem hann á eitthvað óuppgert við aðra einstaklinga eða lögreglu. Slíkt er eðli ofbeldismannsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Skemmtilega skrifuð grein, Sigurður, með gömlum minningum, ekki sízt þessari frá bernskuárunum! Já, sannarlega gerðu þetta allir heilbrigðir strákar og jafnvel stelpur á þeim árum, að "teika" bíla og jafnvel strætisvagna og renna áfram með þeim góðan spöl -- mikið sport og gleði ! En ég minnist þess líka, að lögreglu hafi borið að og veitt svipaðar uppbyggjandi ráðleggingar og þú minnist hérna.

Það er fengur að frásögn þinni af störfum lögreglunnar, sem oft eru vanþökkuð af sumum, en þeir munu fleiri, sem eiga henni mikið að þakka.

PS. Hvar ertu á myndinni af lögregumönnunum sex? (hana má stækka með því að smella á hana). -- Og góð er myndin af þér á svölunum -- ég var sjálfur um tíma í Eskihlíð í íbúð með svipuðum svölum og góðu útsýni.

Jón Valur Jensson, 25.10.2014 kl. 10:36

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Takk fyrir, Jón Valur. Alltaf gaman að fá smávegis hrós. Á myndinn er ég lengst til vinstri. Hún var tekin þegar við gómuðum þýska bankaræningjann Lugmeier, af þeirri viðureign segir hér:http://sigsig.blog.is/blog/sigsig/entry/1256363/.

Hefurður farið inn á Facebook síðuna „Austurbæingar Fæddir 1950-60“? Mjög skemmtileg síða.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 25.10.2014 kl. 13:23

3 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir fínan pistil, Sigurður.

Hér er stutt grein um Lugmeier úr Þjóðviljanum frá 1977. Lugmeier var mjög ánægður með íslenska fangaverði og Íslendinga yfirleitt. Hann hefur sennilega ekkert erft það við þig, Sigurður, að þú greipst hann glóðvolgan, í bókstaflegri merkingu, eins og þú lýsir í pistlinum um hann. Maturinn í Síðumúlafangelsinu var að mati Lugmeiers betri en hann fékk nokkurn tíma á veitingahúsum í Reykjavík.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2856493

Er þetta maðurinn, Ludwig Ludmeier?

http://de.wikipedia.org/wiki/Ludwig_Lugmeier

Wilhelm Emilsson, 25.10.2014 kl. 21:44

4 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Ludwig Lugmeier átti þetta að vera hjá mér.

Wilhelm Emilsson, 25.10.2014 kl. 21:45

5 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Já, þetta gæti verið hann, þessi á þýsku Wikipedia síðunni. Hann hefur greinilega hætt að feta glæpaveginn. Þeir sem tóku myndina af okkur voru þýskir blaðamenn sem skrifuðu um feril Lugmeiers.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 25.10.2014 kl. 22:28

6 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir svarið, Sigurður.

Ég er frekar slakur í þýsku, en MR þýskan nægir samt til þessa að ég skil að í Wikipedia greininni stendur að Lugmeier hafi komið til Reykjavíkur, þreyttur og útbrunninn, og að þar hafi hann verið handtekinn. Hann byrjaði að skrifa 1977 og þú hefur hefur átt þátt í því að þessi Þjóðverji snéri við blaðinu og færði sig af glæpabrautinni yfir í ritlistina.

Wilhelm Emilsson, 25.10.2014 kl. 22:44

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér fyrir svarið, Sigurður. Ég er reyndar ekki Austurbæingur af hefðbundna daginu, fæddur í Skerjafirði, en ólst lengur upp í Kleppsholti og var aðeins um þriggja ára skeið í Eskihlíðinni, áður raunar um lengra skeið við Hamrahlíð og Miklubraut.

Jón Valur Jensson, 26.10.2014 kl. 09:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband