Rassbagan sem hvarf í blámóðuna frá Holueldum

Alltaf skal maður taka ofan fyrir sjálfskipuðu gáfumönnunum og undrast hæfileika og skýra hugsun. Undraskjótt er stokkið á grunnhyggna skýringu og henni tekið sem heilögum sannleika og það jafnvel þó brotalamirnar séu lítt huldar.

Seinnileikinn fær svo marga til að gleyma gagnrýnni hugsun, notfæra sér þá menntun og þekkingu sem ætti alltaf að vera til taks. Svo afar margt er sennilegt og þar af leiðandi of þreytandi að leggja það á sig að brjóta heilann um eitthvað sem gáfumennirnir hafa tekið upp á sína arma sem sjálfsögð sannindi.

Mér er oftast annt um málfar mitt, bæði í mæltu máli og rituðu. Er þó síst af öllu góður í því. Nú man ég að fyrir nokkuð löngu hversu þeim var hælt sem hættu að segja að eftirspurn væri mikil eftir ... bílum, kexi eða hvað það nú var. Þess í stað var það orðað þannig að mikil spurn væri eftir hinu og þessu. Þetta orð brúkuðum við sem þóttumst vera gáfumenni.

Má vera að ég hafi ekki tekið nógu vel eftir í íslenskutímunum hjá Ólafi Oddssyni í MR fyrir margt löngu. Hann hefur ábyggilega nefnt að þessi „spurn“ væri bölvuð rassbaga, en ekki tók ég eftir því.

Jæja, að minnsta kosti les ég daglega ördálkinn í Morgunblaðinu sem nefnist „Málið“. Af honum hef ég gagn og vonandi gaman af.

Í Máli dagsins segir eftirfarandi:

Stundum finnst fólki tvítekning á borð við eftirspurn eftir e-u vera málleysa og segir „spurn eftir e-u“. Meinið er að „spurn“ í þessari merkingu á sér ekki stoð í málinu. Líkt gildir um áhugi á e-u, aðgangur að e-u og tillit til e-s.

Er ég las þessar línur rann upp fyrir mér nýr dagur og rassbagan „spurn eftir“ leysist upp í blárri móðu frá Holueldum og hvarf í óravíddir himingeimsins.

Ekki veit ég hvort mikil eftirspurn er eftir svona dálkum eins og hafa í mörg ár birst í Mogganum mínum. Hitt er þó víst að ég myndi spyrja eftir honum hætti hann að birtast enda lærir sá er lifir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband