Val á öndveegisritum og plebeiisminn

Útaf fyrir sig getur verið skemmtilegt að setja upp lista yfir „öndvegisrit“. Slíkur listi verður þó aldrei neitt annað en mat þeirra sem völdu, síst af öllu skoðun okkar hinna. Við getum virt þennan lista spekinganna fyrir okkur og dáðst að valinu að sumu leyti en dregið í efa skynsemi þeirra þegar kemur að því að þau rit sem okkur þykja góð vantar.

Að sumu leiti er svona listi frekar „plebeiiskur“ eins og hann Ólafur M. Ólafsson, íslenskukennari í MR hefði orðað. Svipað eins og þegar einhverjir gáfumenn stóðu fyrir valinu á þjóðarfjallinu og Herðubreið var valin en ekki Vífilsfell, Búrfell (þau eru vissulega mörg, veldu bara eitt), Spákonufell, Esja, Skarðsheiði, Kirkjufell, Búlandstindur eða Sauðafell við Mosfellsheiði. Vandinn við þetta val er sá að sumir halda að valið sé hafið yfir allan vafa og gagnrýni og Herðubreið eigi þennan titil skilið.

Enn áður var Gleymmérei valið þjóðarblómið. Ekki var baldursbrá valin né heldur geldingahnappur, eyrarrós, lúpínan (veit ekki hvort megi nefna hana í sömu andrá og þjóðarblóm!) og fleiri og fleiri.

Næst er ábyggilega skoðanakönnun um þjóðartréð og síðan þjóðargrjótið og loks þjóðarlækinn (dugar líklega að „læka“ þann sem manni þykir bestur). 

„Plebeiisminn“ byggir á viðmótinu í gulu pressuni, sem segir yfirleitt í vefhlutanum að öll greinin sé í prenthlutanum og hann þurfi að kaupa.

„Plebeiisminn“ byggir einnig á því að ná sem flestum saman til að velja eitthvað eitt einstakt sem sé framar öðru þrátt fyrir að það sé í sannleika ekki hægt. Ekki frekar en að hægt sé að gera upp á milli barna sinna. Kynþokkafyllsti karlinn eða konan, sá eða sú best klædda, fyndnasti gæinn, vinsælasti stjórnmálamaðurinn, besti hljóðfæraleikarinn og svo framvegis. Horfið á Edduna eða hvað þessar uppákomur heita þar sem leikarar og fjölmiðlamenn eru valdir sem „bestir“. Óskaplega getur svona verið ómálefnalegt og leiðinlegt svo ekki sé talað um tilbreytingarleysið í þessu öllu saman.

Ég get ómögulega talað fyrir þjóðina og ætla ekki einu sinni að reyna það. Hitt veit ég að bókmenntasmekkur minn hefur breyst frá því fyrst ég fór að lesa og allt fram á þennan dag. Einu sinni þótti mér Gerpla mikið öndvegisrit en eftir því sem ég las hana oftar fann ég að hún er langt frá því að vera heilsteypt rit vegna þess að höfundurinn lendir að í afskaplega miklum ógöngum með sögu sína og kemst ekki sennilega frá þeim. Íslandsklukkuna skildi ég ekki fyrr en ég las hana í menntaskóla og með tilsögn. Þannig er það með mörg rit. Þau eru margslungin og erfið og oft þarf lesandinn leiðbeiningar við til að skilja til fullnustu. Þetta er kosturinn við mörg rit. Hægt er að lesa þau aftur og aftur og alltaf sjá nýjar og áður óþekktar víddir. Svo finnst mér með Njálu og Sturlungu.

Ef til vill má nefna bókina Palli var einn í heiminum sem ég las sem barn og nokkrum sinnum síðar fyrir börnin mín. Dýptin í þeirri sögu leynir á sér.

Út frá henni var samin stysta smásaga í heimi. Hún er svona, í endursögn gamalls vinar sem ég hef ekki hitt í mörg ár, hann er eignleg týndur:

Palli var einn í heiminum - og þá var bankað. 

Þessi smásaga komst ekki á Kiljulistann. 


mbl.is Brennu-Njálssaga besta verkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: GH

Þá einföldu skýringu væri hægt að gefa fyrir fjarveru Palla að bókin var skrifuð af Jens nokkrum Sigsgaard, sem var danskur. Bókin telst því ekki meðal íslenskra öndvegisrita

GH, 10.4.2014 kl. 10:02

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Úbbs ... Bestu þakkir, GH.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.4.2014 kl. 10:25

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Kári litli og Lappi var vinsæl hjá mínum börnum, og Selurinn Snorri, man yndislegar stundir þegar við lágum öll upp í hjónarúmi, ég Elli minn og börnin og Elli las, einnig voru vinsæl þjóðsögur Jóns Árnasonar.

Er sammála þér með þetta vinsælasta, gáfaðasta, fallegasta þetta og hitt, veit ekki af hverju þetta er svona, sennilega einhverskonar minnimáttarkennd.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.4.2014 kl. 10:35

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Samála, Ásthildur.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.4.2014 kl. 10:40

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Nokkuð sammála þér þarna Sigurður en þó ekki með orðið plebbalegur. Það er yfirleitt notað um almúga eða lágstétt í niðrandi merkingu. Þarna í þessum dæmum sem þú nefnir er einhver hópkenndarárátta í gangi sem ég kann ekki við.  Þessi þörf til að skilgreina sig útfrá hópum með sameiginlegt gildismat.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 10.4.2014 kl. 23:46

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir innlitið, Jóhannes. Má vera að skilgreiningin á plebbalegur eða plebeiismi sé rétt en ég held að gamli íslenskukennarinn hafi notað það í þeirri merkingu að einstaklingurinn hugsi ekki sjálfstætt heldur taki það gagnrýnislaust sem „hópurinn“ heldur. Þá getum við verið komnir að skrýtinni „hópkenndaráráttur“ eins og þú segir. Hvert það leiðir okkur í umræðunni er erfitt að segja eða hvort sú umræða sé gagnleg á einhvern hátt.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 11.4.2014 kl. 08:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband