Til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn, Hólmarar

DSC_0551Körfuknattleikslið kvenna  í Snæfelli úr Stykkishólmi varð Íslandsmeistari um helgina. Vart er hægt að hugsa sér meiri frama fyrir íþróttalið en að verða fremst á meðal jafningja. Og þvílík upphefð sem liðið og titillinn er fyrir Hólmara.

Íþróttir eru alls staðar afar mikilvægar fyrir æsku landsins, ekki síður í smærri byggðum en hinum stærri. Hópíþróttir eru sérstaklega mikilvægar vegna þess að þær kenna fólki samvinnu.

Þó til sé hópur stúlkna úr Stykkishólmi sem áhuga hefur á körfubolta verði Íslandsmeistari er gleðilegt en þar með er ekki öll sagan sögð. Þessi hópur varð ekki til úr engu. Að baki þeim er fjöldi annarra keppenda í öllum árgöngum og raunar öllum kynjum. Ekki gleyma því að karlalið Snæfells hefur líka náð þeim glæsilega árangri að verða Íslandsmeistari. Æfintýrið í Stykkishólmi er engin tilviljun.

Uppeldið hjá Snæfelli skiptir gríðarlega miklu máli og umgjörðin er mikilvæg. Þar koma að málum fjöldi manns sem aldrei snerta boltann. Þetta eru sjálfboðaliðarnir, fjöldi fólks sem vinnur óeigingjarnt starf fyrir íþróttaliðin og úti á landi þar sem fámennið er meira er álagið á hvern og einn mikið. Safna þarf fé til rekstrar, greiða fyrir leigu á sal, kosta til þjálfara, greiða fyrir akstur eða flug í keppnisferðir og fleira og fleira.

Peningar vaxa ekki á trjánum í Stykkishólmi frekar en annars staðar á landinu. Ekki misskilja, þessi vinna fyrir íþróttafélög er ekkert auðveldari í fjölmenni höfuðborgarsvæðisins. Stundum er hún miklu erfiðari vegna þess að samstöðuna vantar og samkeppni milli íþrótafélaga og íþróttagreina er svo gríðarlega mikil.

Fyrir Stykkishólm og íbúa bæjarins er Íslandsmeistaratitill í körfubolta kvenna einfalt og skýrt tákn um að allt er mögulegt með samstöðu og samvinnu íbúa. Titillinn bendir einfaldlega til að það sé ákaflega gott að búa í Stykkishólmi og ég veit að það er satt. 

Mér þótti eftirfarandi orð úr íþróttasíðu Morgunblaðsins í morgun dálítið skemmtileg:

Hjá Haukum var Hardy sterk sem og Gunnhildur Gunnarsdóttir, dóttir formanns körfuknattleiksdeildar Snæfells, en hún lenti snemma í villuvandræðum. 

Sem sagt, körfuboltastelpur úr Stykishólmi leika með fleiri liðum en Snæfelli. Og ég veit að þeim sæmarhjónum, og góðum vinum mínum, Gunnari Svanlaugssyni, formanni Snæfells, og Láru Guðmundsdóttur, hefur ekki fundist leiðinlegt að eiga dætur í báðum liðunum sem léku til úrslita um titilinn. 

Til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn, Hólmarar og Snæfell. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband